03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta nema örfá orð og reyna að halda mig við kjarnann, en annars finnst mér nú, að við höfum, hv. frsm. og ég, gefið ýmsar upplýsingar; sem er nauðsynlegt fyrir þá að vita, sem eiga að meta kjarnann seinna.

Hv. frsm. las hér upp bréf frá presti Akureyrar og af því vona ég að hv. dm. hafi heyrt, að presturinn hefur a.m.k. sætt sig við og samþykkt ráðstöfunina á yfirráðum landsins, svo að þess vegna þarf ekki að vera neinn ágreiningur eða ímyndun um, að hér hafi verið beitt langvinnu ofbeldi. Hins vegar getur margt misminnzt á 25 ára tíma, og t.d. kom það í ljós, að presturinn man ekki nákvæmlega, hvenær bréf vorn út gefin. Ég hygg óumdeilanlegt, að það sé réttara, þegar á að miða við það, sem gerzt hefur fyrir 25 árum, að halda sig þá við það, sem stendur svart á hvítu eins og bréf það, sem ég hef hér í höndum frá ráðuneytinu.

Hv. frsm. taldi, að það hefði verið kjarni málsins hjá mér, að Fnjóskdælingar óttuðust, að sauðfjársýki gæti borizt með fé úr Hrafnagilshreppi austur í Fnjóskadal hraðar en ella, en hann vildi leiða rök að því, að þetta væri ekki. Nú skulum við sættast á það, að við séum að tala um orðinn hlut að því er garnaveiki snertir, þó að á ýmsan hátt megi vitanlega tefja för hennar milli sveita. Hún er komin á þetta svæði að meira og minna leyti, en um mæðiveikina gegnir öðru máli, og ég vil segja frá því hér, að þegar rn. úrskurðaði, að Hrafnagilshreppsbúar mættu reka á Bleiksmýrardal í vor sem leið, þá byggði rn. úrskurð sinn á bréfi frá sauðfjársjúkdómanefnd, sem ég því miður hafði ekki með mér hingað á fundinn, en á afrit af. Og þar rökstyður sauðfjársjúkdómanefnd þarfirnar fyrir áframhaldandi vörnum vestan Hrafnagilshrepps með því, að enn sé ekki fullséð, hvort mæðiveiki hafi ekki getað borizt inn á svæðið, og hún rekur sögu til fjárkaupa, sem hafi veríð gerð inn á svæðið, frá Hólmavík. Ég mun lána hv. landbn. þetta bréf, því að það sannar, að mergurinn málsins fyrir úrskurðinum var einmitt hætta, sem gæti stafað af mæðiveiki vestan við girðinguna.

Það skiptir ákaflega litlu máli, hver er eigandi landsins, eins og nú er. En mér virðist, að þó að ráðherrabréfið hafi kannske ekki upphafið samstundis eignarrétt Akureyrarkirkju, þá hefur það þó fært þessa eign yfir í flokk þann, sem kallaðar eru þjóðjarðir, og þar sem þetta hefur nú gilt í 25 ár, þá finnst mér ákaflega óvenjulegt að líta svo á, að kirkjan hafi eignarlegan umráðarétt yfir þessu landi eftirleiðis. Hún hefur heldur ekkert með hann að gera, og sjálfsagt hefur hún fengið eignarréttinn á sínum tíma, löngu liðnum, af þeirri ágirnd til fjármuna, sem við nú orðið viljum ekki telja eðlilegt að kirkjunnar menn hafi fyrir hennar hönd.