12.11.1953
Efri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð vegna þess, að það er hér um það deilt, hvort ég hafi sem ráðherra fellt einhvern úrskurð um það, hver eigi þetta afréttarland, sem hér er deilt um.

Það hefur verið upplýst í þessu máli, að það var einn af fyrrverandi kirkjumálaráðherrum, sem tók ráðstöfunarrétt af Akureyrarkirkju, sem virtist þá hafa ráðstöfunarrétt yfir þessu landi og kannske eignarrétt, og afhenti ráðstöfunarréttinn, eins og hefur komið fram í þeim skjölum, sem hér hafa verið lesin upp.

Ég hef síðan sem kirkjumálarh. skrifað undir bréf, þar sem er sagt, að landið sé eign Akureyrarkirkju, — gert ráð fyrir því, að það sé eign Akureyrarkirkju, réttara sagt. Á þessu stendur þannig, að þegar landið er afhent af einum af fyrrv. kirkjumálaráðherrum, þá virðist vera ráð fyrir þessu gert, og þess vegna þótti rn. ekki rétt að gera ráð fyrir öðru en að Akureyrarkirkja ætti þetta land, því að þegar Akureyrarkirkja var afhent, þá hefði þurft að taka fram um það við afhendinguna, hvort þetta land væri af kirkjunni tekið eða afhent með kirkjunni. Og ef það hefði verið tekið af kirkjunni, þá væri það náttúrlega eign kirkjujarðasjóðs, en um þetta hafa ekki fundizt skjöl í rn. og ekki enn þá verið hægt að upplýsa, hvort þetta hefur verið gert eða ekkí. Meðan þær upplýsingar lágu ekki fyrir, og þær munu ekki liggja fyrir enn, þykir réttara að gera ráð fyrir því, að kirkjan eigi eða hafi haft umráðarétt yfir þessu landi, eins og var gert ráð fyrir í bréfi fyrrv. kirkjumrh., þegar hann tók landið af Akureyrarkirkju og afhenti ráðstöfunarréttinn öðrum, eins og komið hefur hér fram. Það geta þess vegna enn fundizt gögn í rn., sem sýni það, að landið hafi raunverulega verið tekið undir kirkjujarðasjóð á sínum tíma, en þau gögn liggja ekki enn fyrir, og þess vegna er það formlega rétt að gera ráð fyrir, að landið sé eign kirkjunnar, þó að annað kunni síðar að upplýsast.