12.11.1953
Efri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get ekki varizt því, þegar ég hlusta á þessar umræður, að spyrja, hvort þetta mál sé hér ekki alveg á röngum vettvangi. Er þetta mál, sem Alþingi getur með þeim hætti, sem hér er ætlazt til, skorið úr? Er þetta ekki dómstólamál? Er ekki hér verið að ræða um eignarrétt yfir tilteknum verðmætum, sem ekki er hægt að svipta aðila, nema því aðeins að þeir fái fullar bætur fyrir? Og ef þörf er á að setja þessa löggjöf, vegna þess að ekki sé án þess heimilt að reka féð á þessar slóðir, verður þá ekki jafnframt í þeirri löggjöf að vera ákvæði um bætur til handa aðilum, til þess að lögin fái staðizt og verði metin gild? (Gripið fram í.) Jú, þau eru vitanlega um eign, og það er um notkun á eign annarra manna; annars er frv. gersamlega þýðingarlaust. Það er vitanlega um notkun á eign annarra manna. Þetta er í raun og veru atriði, sem fyrst og fremst heyrir undir dómstóla landsins að skera úr. Það er ekki hægt að taka hvorki eign né not á eign af mönnum, nema því aðeins að þar komi lögáskildar bætur fyrir, þannig að ef það er talin þörf á því að gera eignarnám á notum þarna tiltekinn tíma, þá verður þar með að fylgja bótaréttur til handa þeim, sem hlut eiga að. — Það kann að vera, að ég misskilji alveg það, sem um er að ræða, en þá er mjög mikil nauðsyn, að það sé betur útskýrt en enn þá hefur verið gert í umr. við meðferð málsins.