13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er aðeins stutt athugasemd, enda mun ég ekki hafa rétt til fullkominnar ræðu. — Ég verð nú að segja það, að mér finnst það dálítið hæpið hjá hv. þm. S-Þ. að líkja Eyfirðingum í þessu efni við ríka manninn, en Fnjóskdælingum við fátæka manninn. Ég held, hvað sem efnahag íbúa þessara sveita líður almennt séð, þá sé ekki nokkur vafi á því, eins og hv. frsm. n. hefur nú ljóslega sýnt fram á, að í þessu efni eru einmitt Fnjóskdælingar ríki maðurinn og Eyfirðingar fátæki maðurinn að því er eign afrétta snertir. Og allt tal hv. þm. um, hve mikil nauðsyn Fnjóskdælingum væri á þessu afréttarlandi, finnst mér falla um koll, þegar þess er gætt, að þeir nota ekki afréttarlönd sín. Ég hef alveg fullkomna vitneskju og sannanir fyrir því, að þeir sleppa í heimahaga. Meira að segja austan Fnjóskár gera þeir það, þar sem engin vandkvæði eru fyrir þá að reka inn á þá dali, sem hv. frsm. n. talaði um, eða út á Flateyjardal, og það þrátt fyrir fyrirskipanir hreppsnefndarinnar til þeirra um það að reka fé sitt á afrétt yfir sumarið. Meðan svo er, þá getur það varla skeð, að Fnjóskdælingar megi ómögulega sjá af þessari sumarbeit til Eyfirðinga um takmarkaðan tíma.

Hv. þm. heldur enn við það, að þetta land, sem hér um ræðir, sé orðið eign kirkjujarðasjóðs. Ég held, að það liggi ekkert fyrir um það, eins og ég sagði áðan. Það mun ekki einu sinni liggja fyrir ráðherrabréf um það, hvað þá annað, og að það hafi orðið af sjálfu sér, það fæ ég ekki skilið, vegna þess að þetta tilheyrði prestssetursjörð og var að því leyti eins konar hluti af henni, og það er enginn vafi á því, að það, sem hv. þm. Str. hefur sagt hér í bréfi sem raðherra, landbrh. að vísu, eins og hv. þm. tók nú fram, hefur hann einnig sagt sem kirkjumrh., því að hann var það líka. Hann segir hér skýrum orðum í bréfinu: „í landi Akureyrarkirkju á Bleiksmýrardal“.

Ég hefði nú haft fleira að segja, en ég vil ekki misnota leyfi hæstv. forseta, og skoðast þetta aðeins sem athugasemd.