16.11.1953
Efri deild: 21. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

82. mál, sauðfjársjúkdómar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. S-Þ. byrjaði ræðu sína á því að segja hér sögu af hestavígi, þar sem þingeyskur hestur reif eyfirzkan hest á hol, og í endi þeirrar sögu gat maður svona skilið, að í þessu fælist eins konar hótun, að eins mundi fara í þessu máli, a.m.k. síðar. Ég tel nú réttara að halda sér við gamla málsháttinn: „Hælumst minnst í máli, metumst heldr of val felldan.“ Ég skal ekkert segja um framtíðina í þessu efni, en hv. þm. sagði, að Fnjóskdælingar hefðu sterkari rétt en Eyfirðingar og þess vegna mundu þeir sigra í þessu. Þetta hefur nú töluvert verið rætt hér áður, og ég tel mig hafa fært full rök fyrir því, að þetta er alveg öfugt. Þetta er land, sem Eyfirðingar hafa átt og ég lít svo á að þeir eigi enn, og þeir hafa um aldaraðir haft rétt til að reka fé sitt í þetta land. Þess vegna er það, ef að algerlega réttu væri farið, þá ættu Eyfirðingar ekki einasta að fá þarna tímabundinn rétt, eins og frv. fjallar nú um, heldur rétt til frambúðar.

Þá fór hv. þm. að tala um, að Fnjóskdælingar óttuðust ofbeit í heimalönd sín, og af þeim ástæðum bar hann fram þessa skriflegu brtt., sem hér var lýst áðan. Þetta hefur áður borizt í tal, og það er ákaflega einkennilegt, að þeir skuli þá sjálfir sleppa fé sínu í heimalöndin, ef þeir óttast ofbeit í þau. Það eru ekkert nema firrur, að þeir gætu ekki komið því til afréttar; það vitum við báðir, og allir þeir, sem nokkuð eru kunnugir í Fnjóskadal. Það á enginn bær í Fnjóskadal svo langt til afréttar, þótt ekki væri rekið á vestri Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár, að margir aðrir hafi ekki miklu lengri leið að reka fé til afréttar, og afréttirnar eru miklar og góðar, eins og hér hefur verið tekið fram, m.a. af hv. frsm. landbn., sem mun vera þarna alveg eins kunnugur og þm. kjördæmisins.

Till. er um það að leggja þá skyldu á þá menn, sem nota beitiland á afréttum samkvæmt frv., að girða fyrir afréttina. Væri hér um frambúðartilhögun að ræða og einangrað við Eyfirðinga og Bleiksmýrardal, þá hefði ég ekkert við þessari till. að segja, mér fyndist hún þá eðlileg og sanngjörn. Ef frv. væri t.d. á þann veg, sem hv. frsm. landbn. taldi réttara, m.ö.o., að Hrafnagilshreppur og Öngulsstaðahreppur í Eyjafjarðarsýslu fengju dalinn til eignar og hann væri síðar lagður undir fjallskilaumdæmi Eyjafjarðarsýslu, þá væri till. alveg sjálfsögð. En mér þykir það nokkuð hart að gengið, þótt menn fái rétt til upprekstrar um takmarkaðan tíma, e.t.v. eitt ár, e.t.v. tvö og e.t.v. eitthvað fleiri ár, en þó um mjög takmarkaðan tíma, að þá sé þessi kvöð lögð á þá, og ég þekki ekkert dæmi til þess, þó að menn úr annarri sveit fái að reka fé sitt til afréttar, að það sé lögð skylda á þá að girða fyrir afréttinn. Það væri þá sá, sem nýtur teknanna af þessum afrétti. Það er greitt afgjald af honum, og ég skil ekki annað en að það ætti að vera frekast skylda þess aðila, hvort sem það er kirkjujarðasjóður eða Akureyrarkirkja. Og mér er ómögulegt að skilja, hvernig hv. þm. hugsar sér þetta í framkvæmd. Nú mun standa víðar svipað á eins og um upprekstur Eyfirðinga á Bleiksmýrardal, og það er vel hægt að hugsa sér, að utansveitarmenn reki á afrétt samkv. þessari heimild, sem hér er farið fram á að veita, en það, sem þeir reka á tiltekinn afrétt, sé ekki nema litill hluti þess fjár, sem á afréttinum er, — við skulum segja 1/3 fjárins, en innansveitarmenn reki 2/3 hluta fjárins. Þá virðist það vera svo eftir þessari till., að þessir utansveitarmenn, sem kannske nota afréttinn að 1/3 hluta eða enn minna, eigi að girða, en hinir, sem nota hann meira, séu þá lausir allra mála. Ég held, að hv. þm. hafi bundið sig of mjög við þetta einstaka tilfeili og ekki gætt þess, að það getur víðar staðið svipað á heldur en þarna er, fyrir utan það, að þessi till. fer algerlega í bága við hin almennu girðingalög, eins og hann viðurkenndi sjálfur; þar er gert ráð fyrir, að eigendur girði, og til þess að þetta gæti staðizt, yrði þá að viðurkenna eign Eyfirðinga á dalnum. Ég ætla því að vona, að hv. d., sem hefur skilið nauðsyn þessa máls, fari ekki að breyta um og gera málið að engu með því að samþ. þessa tili., því að það er ekki aðgengilegt fyrir þá, sem nota þennan upprekstur, að leggja í þann kostnað að girða, ef búast má við því, að þeirra réttur standi ekki nema eitt eða tvö ár. Niðurlag till. á nú að vísu að bæta úr þessu, þar sem þeir, er girðinganna krefjast, eiga að vera skyldir til að kaupa þær aftur samkv. verðmati dómkvaddra manna. En ég veit ekki, hvort þetta bætir svo mikið úr, þegar nánar er aðgætt. Það er ekki tekið fram í till. neitt um það, við hvað eigi að miða, þegar girðingin er metin. Svo er annað atriði: Dómkvaddir menn eru kvaddir af lögreglustjóra þess umdæmis, sem málið heyrir undir, í þessu sérstaka tilfelli yrði það af sýslumanninum í Þingeyjarsýslu, og ég efast ekki um, að yfirvaldið mundi gera sér far um að velja í dóminn samvizkusama menn. Samt sem áður er efasamt, hvort slíkur dómur, tilnefndur af sýslumanninum í Þingeyjarsýslu og sjálfsagt skipaður Þingeyingum, gæti talizt óhlutdrægur dómur. Menn geta verið heiðarlegir menn, þó að löggjöfin treysti þeim ekki til þess að kveða upp réttláta dóma í sjálfs sín sök. Þannig t.d. verður héraðsdómari og hvaða dómari sem er að víkja úr dómarasæti, ef málið snertir hann persónulega.