29.10.1953
Neðri deild: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

73. mál, víxlar

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, þarf í rauninni ekki frekari skýringa við en þeirra, sem fram koma í greinargerð þess.

Eins og hv. þm. er öllum kunnugt, þá var fyrir nokkru breytt vaxtafæti bankanna, þannig að almennir víxilvextir voru hækkaðir úr 6 upp í 7%, og var í því sambandi gerð breyting, sem óhjákvæmilegt var að gera á lögum um vexti, dráttarvexti og bann við okri til þess að hækka þau takmörk, sem í þeim lögum voru áður. Hins vegar hefur ekki verið breytt í samræmi við þetta lögum um víxla, þannig að eftir sem áður eru víxilvextir festir í 6%, þ.e.a.s., að eftir að víxlar eru komnir í vanskil, þurfa menn ekki að greiða nema 6% af því, sem þeir þurftu að greiða 7% af, meðan víxlarnir voru í skilum, þannig að það gefur auga leið, að hér er um mjög óeðlilegt ástand að ræða, sem tvímælalaust er nauðsynlegt að breyta, því að það auðvitað nær ekki nokkurri átt, að menn komist betur út úr því með sínar skuldir, ef þeir lenda í vanskilum með greiðslur. Í þessu frv. felst sem sagt það eitt að taka af þennan hemil, sem er í víxillögum og bundinn er við 6%, og heimila að tildæma mönnum vexti af víxlum í vanskilum samkv. því, sem gildir um almenna víxilvexti í bönkum, ef þeir eru hærri en 6%. Hins vegar þótti okkur flm. ekki ástæða til að vera að breyta þeim ákvæðum laganna, að venjan væri sú, að vextir væru 6%, til þess að þurfa ekki að vera að gera aftur lagabreytingu, ef víxilvextir breyttust á nýjan leik, heldur að taka inn nýtt ákvæði, sem gæti verið almenns eðlis og um það hljóðaði, að ef svo væri ástatt að víxilvextir væru hærri en 6%, eins og segir í 48. og 49. gr. laganna, þá skuli heimilt að krefja um vexti í samræmi við það, ef víxlar lenda í vanskilum.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Mun öllum ljóst vera, hygg ég, að hér sé um eðlilega og sjálfsagða breytingu að ræða. En ég vil að lokinni þessari umr. óska eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.