30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

73. mál, víxlar

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. hafi áttað sig á því, að breyt. sú, sem hér er lagt til að gerð verði á víxillögunum, er bæði eðlileg og réttlát eins og fram kemur í umsögn Landsbankans um þetta mál. En það má segja, að samkv. orðanna hljóðan eða ákvæðum laganna, eins og þau eru í dag, þá gætu vextir af vanskilavíxlum verið lægri en venjulegir víxilvextir. Það er vitnað í grg. frv. í 48. og 49. gr. víxillaganna, sem kveða á um þetta og segja, að viðkomandi geti krafizt 6% vaxta af víxlunum, eftir að þeir eru komnir í vanskil, eins og þar um ræðir, og er þess vegna full þörf á að leiðrétta þetta. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það þurfi að hafa um það fleiri orð. Nákvæmlega sama máli gegnir um næsta mál á dagskránni, en fjhn. leggur til um bæði þessi mál, að þau verði samþ. óbreytt, og mun ég því ekki tala sérstaklega um hitt málið, þ.e.a.s. breyt. á tékkalögunum, þar sem það er alveg eins vaxið.