09.12.1953
Efri deild: 30. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

73. mál, víxlar

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Í 48. og 49. gr. núgildandi víxillaga, nr. 93 19. júní 1933, er svo tekið fram, að ef vanskil verða á víxlum, þá skuli víxilskuldari skyldur til þess að greiða 6% af víxilupphæðinni frá vanskiladegi og þar til greiðsla fer fram. Þetta ákvæði er tekið óbreytt upp úr sameiginlegum víxillögum Norðurlanda, þar sem almennir víxilvextir voru lægri en þessi upphæð, og voru 6 prósentin því nokkurs konar refsirenta fyrir vanskilin. Nú er svo komið. að víxilvextir í bönkunum eru orðnir hærri en þessi upphæð, og þykir þá allsendis óviðunandi, að menn séu beinlínis verðlaunaðir fyrir að standa í vanskilum, og hafa orðið nokkur brögð að því, að menn hafi af ásettu ráði trassazt við að greiða víxla til þess að fá lægri vexti en venjulegir bankavíxilvextir eru. Það er því lagt til, að á eftir 49. gr. l. komi ný gr. þess efnis, að ef almennir víxilvextir í banka séu hærri en 6%, þá skuli heimilt að krefja um þá vexti þrátt fyrir ákvæði 48. og 49. gr. laganna.

Mér finnst þetta alveg sjálfsagður hlutur, enda hefur fjhn. Ed. orðið sammála um að leggja til, að þetta ákvæði verði samþ. óbreytt, og leyfi ég mér fyrir hennar hönd að leggja til við d., að svo verði gert.