07.12.1953
Neðri deild: 34. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

101. mál, þingfararkaup alþingismanna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er aðeins út af þessari brtt. — Ég held það sé ekki rétt, ef hæstv. ríkisstj. finnst nauðsynlegt, að þeir ráðh., sem eru ekki þm., fái kaup þann tíma, sem setið er á þingi, að orða það „þingfararkaup“. Mér skilst, að það geti ekki aðrir haft þingfararkaup en þeir alþm., sem kosnir eru af þjóðinni til að sitja á þingi. Hitt er svo aftur annað mál, að ef hæstv. ríkisstj. finnst rétt, þá er auðvitað hægt að greiða þeim ráðh., sem sæti eiga í ríkisstj., en ekki eru þm., kaup til viðbótar, sem samsvarar þingfararkaupi. En mér finnst þetta ekki rétt orðalag, „þingfararkaup“, og ég hefði nú viljað skjóta því að hæstv. ráðherrum að athuga þetta betur og hafa þá heldur till. við 3. umr.