10.12.1953
Efri deild: 32. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

101. mál, þingfararkaup alþingismanna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það geti ekki leikið á tveim tungum, að þingfararkaup sé nú almennt of lágt og fullkomin þörf sé á endurskoðun núgildandi ákvæða. Hins vegar er ég ekki jafnviss um, hvort sú breyting, sem hér er lögð til, er fyllilega réttmæt eða fær staðizt. Það er t.d. mjög hæpið, hvort það er rétt að lögbjóða eins konar eftirlaun fyrir þm., eins og gert er hér, meðan t.d. ráðherrar njóta ekki þess réttar, og það er mikill vafi á, hvort þingið verður ekki samhliða því, sem þessi ákvæði eru sett, sem hér eru ráðgerð, að setja þá hliðstæð fyrirmæli til handa ráðherrum. Þetta er eitt atriði málsins.

Annað er það, að mjög er vafasamt, hvort verjanlegt er að veita öllum þm. þá kaupuppbót, sem hér um ræðir, og vil ég þá aftur nefna ráðherra. Ef gert er ráð fyrir því, að kaup þeirra fyrir þeirra starf sé nægilegt, — það er mál út af fyrir sig, sem verður að athuga og ég skal ekki rekja hér, — en ef gert er ráð fyrir því, að það sé nægilegt, þá virðist í raun og veru vafasamt að ástæða sé til að hækka sérstaklega þingfararkaup þeirra. Ég tek þá einungis sem dæmi vegna þess, hve ákaflega ólíkt stendur á um þingmenn.

Það er enginn vafi á því, að ef þm. þarf að láta af starfi, meðan á þingtímanum stendur, og kaupa, mann til þess að gegna sínu aðalstarfi á meðan í staðinn, þá er núverandi þingfararkaup allt of lágt. Ef hann hins vegar getur haldið starfskaupi sínu að fullu þrátt fyrir dvöl sína á þingi, eins og t.d. er um ráðherra og fjöldamarga aðra embættismenn og starfsmenn hér í Reykjavík og ýmsa embættismenn úti um land, að þeir borga ekki sínum staðgengli, þá er ákaflega hæpið, að ástæða sé til þess að hækka þingfararkaupið, alveg jafnrík ástæða og það er að bæta upp þeim mönnum, sem hafa ekki annað til að lifa á en það kaup, sem þeir fá fyrir dvöl sína á þingi. Það má segja, að það sé erfitt að gera hér upp á milli, en það verður að horfast í augu við þessar staðreyndir sem aðrar eins og þær liggja fyrir og gera sér grein fyrir því, að kauphækkun þm. hafi ekki í för með sér almennt óheppilegar afleiðingar eða vitnað verði til hennar um það, áð almennar kaupbreytingar í landinu þurfi að eiga sér stað.

Þessar ábendingar vildi ég láta koma fram við 1. umr., af því að þær varða meginatriði þess máls, sem hér um ræðir, og biðja hv. n. að athuga þær. Það getur verið, að það séu slíkir framkvæmdargallar í þessu, að erfitt sé að finna á þeim lausn, ég játa það sjálfur, að það kann að vera mjög erfitt.