15.12.1953
Efri deild: 36. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

101. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., var engin framsaga höfð um málið. Málið var flutt af þremur hv. þm. í Nd., og var því vísað umræðulítið til hv. fjhn. þessarar d. og til 2. umr. Mér þykir því rétt að gera hér nokkra grein fyrir efni frv., áður en ég lýsi þeim brtt., sem fjhn. er sammála um að bera fram eða hefur borið fram á þskj. 321.

Það hefur jafnan verið sagt, að Alþ. ætti að vera og sé spegilmynd þjóðarinnar á hverjum tíma. En til þess að svo megi verða, er nauðsynlegt að uppfylla tvö meginskilyrði: Annað, að í landinu séu frjálsar kosningar, og hefur það skilýrði verið uppfyllt árum saman, eins og kunnugt er. Hitt, að öllum þegnum þjóðfélagsins sé gert mögulegt að sitja á þingi, hvort sem þeir eru févana eða fésterkir, ef þeir að öðru leyti hafa til. þess hæfileika og tiltrú þeirra manna, sem vilja senda þá til þings. Þetta eru tvö meginatriði, sem þarf að uppfylla, til þess að þingið sé nokkurn veginn mynd af þjóðarheildinni.

Hið síðara atriði hefur ekki verið uppfyllt. Þm. hafa nú, eins og kunnugt er, um 125 kr. á dag, þegar reiknuð eru grunnlaun og verðlagsvísitala, Þetta er litlu meira en almennur verkamaður hefur og engan veginn jafnmikil laun, þegar miðað er við þann vinnutíma, sem. alþm. verða að leggja að sér á hverjum tíma. Því hefur að vísu varið komið. inn hjá þjóðinni að meta nokkuð starfstíma alþm. eftir þeim tímum, sem fara í fundarhöld á hverjum. degi, en þetta er reginmisskilningur. Langflestir alþm. vinna frá kl. 9 að morgni, sumir fyrr, og margir hverjir langt fram á kvöld og oft fram á nætur, vegna þess. að störfin eru ekki eingöngu, þau, sem eru fyrir opnum dyrum á þingfundum, heldur einnig nefndarstörf, undirbúningur undir samningu frumvarpa, undirbúningur undir tillögur og ýmis mál, sem þarf að undirbúa, áður en þingfundir eru hafnir. Og því betri sem þessi undirbúningur er, því styttri verða sjálfir fundirnir og því betur hafa málin verið undirbúin í hendur á Alþ. til þess að ganga frá þeim.

Sameiginlegur meðalkauptími alþm. undanfarin ár hefur verið milli þrír og fjórir mánuðir, um hundrað eða rúmlega hundrað dagar, og meðalkaupið því um 15 þús. kr. En allmikill tími fer hjá þm. fram yfir þann tíma, sem þeir eingöngu nota til þess að vera á Alþingi, ef þeir eiga að rækja þingstörf sín sæmilega. Skal ég þá fyrst nefna, að svo að segja fyrir hvern þm., a.m.k. þá menn, sem eru þingfulltrúar fyrir hinar dreifðu byggðir, fara árlega 3–4 vikur í fundarhöld til þess að skýra mál fyrir kjósendum, ræða þeirra áhugamál og vita, hvaða þarfir og óskir þeir hafa í sambandi við málin. Þar að auki fer langur tími allt árið um kring til þess að afgreiða ýmis erindi, sem þessir sömu fulltrúar verða að afgreiða fyrir kjósendur sína og eru beint áframhaldandi af þeirra þingstörfum. Það má því segja, að þingstarfið taki ekki minna en a.m.k. sex mánuði á ári, og má geta nærri, hversu sanngjörn laun það eru, að fyrir þáð sé ekki greitt nema samtals 15 þús. kr. Enginn maður, sem ekki hefur einhver önnur laun eða efni til þess að ganga á, getur því setið á Alþ. með þeim launum, sam nú eru greidd fyrir það starf, enda hefur það farið svo, að umboðið hefur færzt meira og minna yfir á hendur þeirra manna, sem hafa laun fyrir önnur störf en þau áð sitja á Alþ., og hafa því. getað eytt til þess tíma, eins og kunnugt er. Nú er það síður en svo, að ég vilji með þessum orðum segja, að úr þeirri stétt hafi ekki verið ágætir og mætir þm. Það er síður en svo. En ég vil tvímælalaust halda því fram, að þá fyrst sé þingið spegilmynd þjóðarinnar, þegar hægt er að taka úr hvaða stétt þjóðfélagsins sem er menn inn á þingið, ef þeir hafa til þess hæfileika, og að þá séu launin slík, að þeim sé gert fært að sinna þingstörfum eins og öðrum mönnum. Þetta er raunverulega höfuðástæðan fyrir því, að þetta frv. er borið fram hér á Alþ., þ.e., að fátækustu mennirnir séu ekki útilokaðir frá því að taka þátt í löggjöf þjóðarinnar.

Þetta vildi ég hafa sagt um málið í heild, áður en ég lýsi þeim breytingum, sem n. leggur til að gerðar verði á frv.

Fjhn. hefur haft þetta mál til umr. og varið alllöngum tíma til þess að ræða um það og athuga það og gerir á því nokkrar breyt., eins og sést á nál. á þskj. 321, er ég skal nú nokkuð skýra frá.

Með 1. brtt. er gert ráð fyrir að breyta allmikið 1. gr. frv., en þó er þar meira um formsbreytingu að ræða en efnisbreytingu. Liggur þetta mest í því, að færð eru til úr öðrum greinum frv., eins ag það er á þskj. 286, þau ákvæði og þær greinar, sem eru um sama efni, þ.e. um kaup alþm. almennt. 1. málsgr. í brtt. er því sama og 1. málsgr. frv. á þskj. 286. Aftur á móti er 2. málsgr. í brtt. sama og 5. gr. frv., vegna þess að n. taldi, .að það ákvæði ætti heima í þeirri gr. Og 3. málsgr. er sama og 6. gr. frv. Er því hér aðeins um tilflutning að ræða, en engar efnisbreytingar. 4. málsgr. er sama og 2. málsl. 1. málsgr. 1. gr., þó nokkuð breytt hvað snertir þinghlé, og skal ég lýsa þeirri breyt. nokkuð, sem hér er á gerð. Það er sagt hér í þessari grein:

„Þingmenn halda kaupi sínu að fullu, þó að Alþ. sé frestað um stundarsakir, þó ekki lengur en 30 daga auk fría um hátíðar, svo og þann tíma, sem þeir þurfa til að komast frá heimilum sínum til þings og heim aftur frá þingi.“

Það hefur verið venja undanfarið, að hafi þingi verið frestað lengur en aðeins hátíðisdagana, þá hafa þó þm. verið greidd full laun, sem og eðlilegt er. Það er ekki unnt að láta aðra starfsmenn þingsins fara frá þeim störfum, sem þeir hafa verið ráðnir til, og verður því að greiða þeim laun, og þá þykir ekki heldur eðlilegt eða rétt að greiða ekki þm., þó að það dragist eitthvað fram yfir sjálfa hátíðisdagana, að þing komi aftur saman, enda væri það útilokað, að þeir gætu á nokkurn hátt tekið upp aðra vinnu á því tímabili. N. þykir þó rétt að takmarka þetta við 30 daga, þannig að ef t.d. aðalþing er sett samkv. stjórnarskránni 15. febr. og því væri svo frestað t d. til hausts, þá er að sjálfsögðu ekki réttlátt að láta þm. hafa kaup allan þann tíma. Sé því hins vegar frestað yfir hátíðar eða af einhverjum öðrum ástæðum um nokkuð lengri tíma, þá þykir rétt, að þm. haldi kaupi sínu, eins og ég hef þegar skýrt frá.

Þetta er sú efnisbreyt., sem hefur verið gerð hér á þessari gr., að ákveða, hvað þetta fri megi vera langt til þess, að þm. hafi ekki misst rétt til daglauna.

2. brtt. frá n. er við 2. gr. frv. Er gr. orðuð nokkuð um 1. og 2. málsgr. samkv. tillögunum eru sama efnis og 2. málsgr. 2. gr., nema hér er nokkru fastar kveðið á um, hvernig skuli undirbúa byggingu fyrir þingmannabústað. Samkv. frv. á þskj. 286 er ríkisstj. heimilt að láta reisa hús eða kaupa hús fyrir þingmannabústað. Þessi heimild hefur verið í lögum síðan 1943, og er ekki vitað til þess, að enn hafi nein af þeim hæstv. ríkisstj., sem setið hafa siðan, hafið neinu undirbúning undir að láta reisa hús eða kaupa hús til þessara afnota. Þó er það vitað, að það ástandi, sem hér ríkir, er gersamlega óþolandi. Þm. hafa verið og eru sumpart búandi á hótelum, sem raunverulega kostar Alþ. allmikið fé, sums staðar verða þeir að koma sér fyrir í einkahúsum, en hvergi hafa þau vinnuskilyrði, sem séu samboðin löggjöfum þjóðarinnar. Þeir eru raunverulega hér hálfgerð útigangshross um sjálfan þingtímann, þegar þeir eiga að gegna jafnvandasömum Störfum og að semja lög og reglur, sem þjóðin verður að byggja afkomu sína á. Þetta telur n. ekki mega lengur vera þannig, og þess vegna hefur hún breytt þessu ákvæði þannig, að það skuli reisa þingmannabústað, svo fljótt sem því verði við komið, og að undirbúningurinn, svo sem staðarval, uppdrættir o.fl., skuli þegar hafið á n.k. ári og vera lokið á því ári. Það verður svo að sjálfsögðu hlutverk næsta reglulegs Alþ. að taka ákvörðun um það, þegar sá undirbúningur liggur fyrir, hve mikið fé þingið sér sér fært að veita til slíkrar byggingar á ári hverju. En það er ekki til sæmdar, hvorki fyrir þingið né fyrir neina hæstv. ríkisstj., að ekki sé reynt að leysa þessi mál fyrir framtíðina. Það er svo mjög aðkallandi mál.

3. brtt. er um tvær nýjar gr., sama efnis og 1. málsgr. 2. gr., nokkuð breytt og nokkru ýtarlegri. Þessar gr. báðar eru einnig um þingbústaðinn, að hv. þm. skuli eiga kröfu og rétt á því að fá þar hæfilegt húsnæði með húsgögnum, þegar honum hefur verið komið upp, og svo einnig um það, að á meðan slíkt er ekki komið til framkvæmda, skuli ríkisstj. sjá alþm. fyrir hæfilegu húsnæði til íbúðar, alþm. að kostnaðarlausu, nema því aðeins að alþm. kjósi sjálfir að velja sér slíkan bústað, og þá skuli það heimilt og kostnaður þá greiddur eftir reikningi, sem þfkn. úrskurðar.

4. brtt., semi er ný gr., er sama og 3. gr. frv. nú, nokkuð breytt. Hún er þess efnis, að alþm., sem búsettir eru utan Reykjavíkur, eigi rétt á að fá endurgreiddan ferðakostnað eftir reikningi, sem þfkn. úrskurðar, svo og dvalarkostnað samkvæmt ákvörðun sömu n. En hér er sett inn nýtt ákvæði, sem n. leggur til að samþykkt verði, þar eð þetta ákvæði gildir þó ekki um þá alþm., sem fasta atvinnu hafa í Reykjavík við önnur störf meðan Alþ. stendur yfir, þótt þeir eigi heimilisfang annars staðar. Það er að sjálfsögðu ekki sanngjarnt, að ef alþm. hefur fast starf í Reykjavík, full laun fyrir það starf, hefur hér bústað, en á heimilisfang á öðrum stað, þá geti hann samt sem áður gert kröfu um fæðiskostnað í Reykjavík eins og þeir menn, sem verða að fara frá heimilum sínum til þess að dvelja hér, því að þá hefur hann raunverulega heimili hér í bænum, þótt lögheimili standi annars staðar, en þetta þótti n. rétt að taka upp í frv.

Þá er einnig hér sett ný málsgr., að vilji alþm. ekki hlíta úrskurði þfkn. samkvæmt lögum þessum, þá geti hann skotið honum til sameinaðs Alþ., sem þá fellir endanlegan úrskurð um ágreiningsmálið, en fyrr í gr. er sagt, að þfkn. skuli úrskurða alla reikninga samkvæmt þessum fyrirmælum. Hins vegar getur farið svo, að einhver hv. þm. sé ekki ánægður með þunn úrskurð, og þykir því rétt, að unnt sé að skjóta honum til Alþ., sem þá mundi úrskurða það að sjálfsögðu á lokuðum fundi í Sþ.

Þetta er meginefnið í þeim köflum, sem teknir hafa verið upp úr sjálfu frv. á þskj. 286, fært yfir í annað form og í annarri niðurröðun samkv. óskum nefndarinnar.

Þá leggur n. einnig til, að 4. gr. frv., sem er á þskj. 286, verði breytt allmikið, þ.e., að í stað hennar komi 7 nýjar gr., en allar þessar gr. eru um eftirlaun alþm. Þessi ákvæði eru nú í frv. á þskj. 286 í einni gr. Er ákveðið, að þeir fyrrv. alþm., sem hafa átt sæti á Alþ. a.m.k. í 10 ár samfleytt eða 15 ár, þó að það hafi ekki verið samfleytt, og séu þá orðnir 65 ára, eigi rétt til 60% eftirlauna af þingfararkaupi sínu, eins og það hefur verið á hverjum tíma, og siðan er ætlazt til þess, eins og segir í gr., að ekkjur alþm., sem höfðu rétt til eftirlauna, hafi tilsvarandi rétt, og ekki nánar getið um það, hvernig þessu skuli hagað, að öðru en því, að ríkissjóður skuli greiða kostnaðinn af þessum eftirlaunum. Þetta hefur fjhn. ekki getað fallizt á. Hún vill hins vegar leggja til, að stofnaður sé sérstakur lífeyrissjóður fyrir alþm. Hún telur, að það fyrirkomulag sé miklu heppilegra. Það sé eðlilegt, að þeir greiði lífeyrisgjald af sínum tekjum eins og hverjir aðrir embættismenn, en vegna þess, að hér stendur alveg sérstaklega á, verður þessi sjóður að vera sérdeild, getur ekki blandazt saman við aðra sjóði annarra embættismanna eða hinn almenna lífeyrissjóð embættismanna, og verða því að setjast um hann alveg sérstakar reglur.

N. leggur til, að alþm. greiði 4% af þeim launum, sem þeir fá, sbr. 1. gr., þ.e.a.s. aðeins af þingfararkaupinu, en að sjálfsögðu ekki af fæðispeningum né ferðakostnaði, eins og þessi laun eru á hverjum tíma, að upphæðin verði dregin frá þeim mánaðarlega, eins og gert er almennt um embættismenn, og að greitt sé á móti frá ríkissjóði 6%, eins og gert er við aðra embættismenn, og þær upphæðir séu reiknaðar með kostnaði til Alþingis, enda hluti af þingfararkaupi, sem greitt yrði á sérstakan hátt.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að það mun ekki vera almenn regla, að þm. fái orlofsgreiðslur á fé sitt, og er þó mjög vafasamt, hvort þeir eiga það ekki samkvæmt orlofsl. Það hefur verið álit a.m.k. einstakra manna í n., að ef um það yrði leitað úrskurðar dómstóla, mundi ekki vera hægt að neita þeim þm. um orlofsfé, sem ekki eru árlangt í opinberu starfi, en það hefur nú ekki verið gert að krefjast þess, og væri þá ekki hér um að ræða aðra eða meiri hækkun á þingfararkaupi þeirra en það, sem þeir áttu kröfu á samkvæmt lögum.

Þá er ákvæði í þessari gr., sem yrði 6. gr., um að lífeyrissjóðinn skuli ávaxta í sérstakri deild hjá Tryggingastofnun ríkisins, og skal sú stofnun annast um allar greiðslur úr sjóðnum, innheimta iðgjöldin og ávaxta eignir hans. Tryggingastofnunin skal einnig annast bókhald sjóðsins, en forsetar Alþ. hafa með höndum stjórn sjóðsins ásamt Tryggingastofnuninni.

Í 7. gr. er ætlazt til þess, að alþm., sem hefur látið af þingmennsku, er 65 ára að aldri eða öryrki, eigi rétt á lífeyri úr sjóðnum eftir þeim reglum, sem fyrir er mælt í 8. gr., og það sama gildi um alla núverandi og fyrrverandi alþm., sem á lífi eru, þegar lögin öðlast gildi, að þá njóti þeir einnig þessa réttar, þótt þeir hafi ekki greitt iðgjöld til sjóðsins. — En í 8. gr. er sagt, að alþm., sem uppfyllir ákvæði 7. gr., eigi rétt á lífeyri eftir þessum reglum: að fyrir þriggja kjörtímabila eða 10–20 ára þingsetu eigi hann rétt á 50 af hundraði, en fyrir meira en 20 ára þingsetu eigi hann rétt á 60 af hundraði, en hundraðshlutinn miðist jafnan við dagkaup alþm. eins og það er greitt á hverjum tíma, margfaldað með þeim dagafjölda, sem hlutaðeigandi alþm. sat á Alþ. síðustu 5 árin, og síðan skuli þeirri tölu deilt með 5, en þingárið sjálft eða sá tími, sem reikna ber frá því maðurinn hafði tekið sæti, sé frá þeim degi, sem alþm. var kosinn.

Mér þykir rétt í sambandi við þessi ákvæði hér að taka hér dæmi til skýringar á, hvernig þetta kæmi út nú með því kaupi, sem nú yrði greitt eftir þessum l. Þá yrði útkoman þannig, að alþm., sem hefði setið 3 kjörtímabil eða 10 ár og væri orðinn 65 ára, fengi 130 kr. margfaldað með vísitölu, eða alls 180 kr. á dag. Næmu árleg eftirlaun hans þá 9000 kr., ef hann hefði að meðaltali setið 100 daga á þingi í 5 ár. Hefur það þá ekki áhrif, hvort hann situr eitt árið 150 daga og annað árið aðeins 50 daga, ef hann hefur aðeins setið að meðaltali í 100 daga á 5 árum. Fyrir þetta hefur hann þá greitt, eftir að l. öðlast gildi, allt að 1000 kr. á ári í iðgjald, eftir því hve langur tími er, sem hann hefur setið á þingi á hverju ári. Maki hans fengi hins vegar ekki nema 4500 kr., þ.e.a.s. helminginn af hans eigin eftirlaunaupphæð. Ef aftur á móti maðurinn hefur setið meira en 20 ár, hækkar þetta þannig, að hann fengi 10800 kr., eða 1800 kr. hærra, og maki hans fengi þá 5400 kr. — Þetta þykir mér rétt að láta koma fram hér, svo að menn geti frekar áttað sig á, hvað um er að ræða.

Í 9. gr. segir, að alþm., sem setið hefur á Alþ. skemur en 3 tímabil eða 10 ár, eigi ekki rétt til lífeyris. Er það í samræmi við ákvæði lífeyrissjóða embættismanna, að þeir fái ekki eftirlaun að réttu úr lífeyrissjóðnum, ef þeir hafa ekki verið embættismenn í 10 ár. Hins vegar geta þeir þá fengið endurgreitt sitt iðgjald, og það er einnig gert ráð fyrir því hér, að þm. geti aftur fengið endurgreidd úr sjóðnum iðgjöld sín, þegar hann lætur af þingstörfum, hafi hann verið á þingi skemur en 10 ár.

Sagt er í 10. gr., að halli sá, sem verða kann á lífeyrissjóðnum vegna lífeyrisgreiðslnanna samkvæmt þessum l., skuli greiddur úr ríkissjóði og að sjálfsögðu teljast með alþingiskostnaði. Þessi halli verður að sjálfsögðu meiri fyrstu árin, alveg eins og það var á sínum tíma þegar lífeyrissjóður embættismanna var stofnaður, en þá voru gömlu embættismennirnir á eftirlaunum, sem ríkissjóður varð að greiða. Seinna, er lífeyrissjóðirnir stækkuðu, færðust lífeyrisgreiðslurnar yfir á þá. Er ætlazt til þess í framtíðinni, að lífeyrissjóðirnir verði svo öflugir, að þeir geti staðið undir hæfilegum lífeyrisgreiðslum til embættismannanna. Hér verður því meiri greiðsla frá ríkinu fyrstu árin, og ekki hvað sízt vegna þeirra manna, sem eru nú fyrrverandi þm. og eru enn á lífi. Hef ég ekki getað leitað mér upplýsinga um, hve margir alþm. eru á lífi, sem koma undir þau ákvæði að hafa setið í 10 ár á Alþ., en þeir eru þó nokkrir og munu margir þeirra vera embættismenn, en há tala mun þetta ekki vera; annars er nú hægt að fá um það upplýsingar.

Í 11. gr. er sagt, að maki alþm., sem hefði rétt til lífeyris samkvæmt lögum þessum, eigi rétt á 50% þ.e.a.s. helmingi, af lífeyri makans, eins og hann fékk hann, meðan hann var á lífi, og hef ég skýrt frá, hvernig það kæmi út, ef þessar reglur yrðu samþ. — Þá er einnig sagt, að sá maki látins fyrrv. alþm., sem á lífi er, þegar þessi lög öðlast gildi, eigi sama rétt til lífeyris og hann hefði öðlazt, ef maki hans hefði þá verið á lífi, og er ekki nema sjálfsagt að hafa það ákvæði í lögunum.

Í 12. gr. er svo fyrir mælt, að greiðslur samkv. lögum þessum skerði ekki rétt til greiðslna úr öðrum lífeyrissjóðum, enda haldist greiðsluskylda til þeirra óbreytt. Hér er um allmikla efnisbreytingu að ræða frá frv. á þskj. 286, og skal ég skýra það nokkru nánar. Þetta atriði var mjög rætt í n. Var aðallega rætt um það, hvort það væri yfirleitt eðlilegt að láta þessar lífeyrisgreiðslur skerða lífeyrisgreiðslur frá öðrum lífeyrissjóðum, og n. öll er sammála um, að það beri ekki að gera. Skal ég færa að því eftirfarandi rök:

Það er að vísu rétt, sem hefur verið haldið fram, að í fyrstu sýnist það nokkuð óviðeigandi að bæta hér allt að 10 þús. kr. — það er nú sjálfsagt mjög sjaldan yfir 10 þús. kr. — eftirlaunum við full eftirlaun embættismanna, sem vel geta verið allt að 30, jafnvel 36 eða yfir 36 þús. kr. En ég vil taka hér dæmi, sem skýrir, að þetta mundi ekki valda ríkissjóði verulegum útgjöldum. Ef við hugsum okkur embættismann með 50 þús. kr. launum, sem svarar núna nokkurn veginn til prófessorslauna, en þau eru með hærri launaflokkum í landinu, þá hefur sá maður, fái hann full eftirlaun úr lífeyrissjóðum, þar sem sameiginlegur starfsaldur hans og hans eigin aldur er 90 ár, um 30 þús. kr. í eftirlaun úr lífeyrissjóði. Til viðbótar fengi hann samkvæmt þessum lögum þá 9500 eða 10800 kr., eftir því hvað langan tíma hann hefði setið á þingi. Miðað við, að þingseta hans hefði verið um 100 dagar á ári að meðaltali og kaupgjaldið sé eins og það er nú, þá yrðu samt sem áður ekki eftirlaun þessa manns nema 39500 kr. Nú hefur reynslan sýnt okkur, að allir slíkir embættismenn sitja a.m.k. með þessi eftirlaun, ef ekki meira, vegna þess að svo að segja alls staðar er sett inn launaviðbót til þeirra fram yfir lífeyrissjóðsgreiðslurnar á 18. gr. fjárl., og það mun ekki síður verða gert, ef um væri að ræða þm., sem setið héfur á þinri minnst 10–20 eða yfir 20 ár, svo að frá mínu sjónarmiði eykur þetta ekkert greiðslur úr ríkissjóði, því að það yrði sjálfsagt tekið tillit til þess, þegar meta skyldi aukalífeyri á 18. gr., að hann hefur rétt til þessara greiðslna. Frá þessu sjónarmiði sýnist mér það vera sjálfsagður hlutur að láta lífeyrisgreiðslurnar ekki skerða önnur eftirlaun embættismanna, en ef svo er, hversu miklu síður á þá ekki að skerða aðrar lífeyrisgreiðslur til annarra manna? Ég tel því, að lífeyrisgreiðsla til alþm., sem látið hefur af störfum, sé einskis virði, ef hún t.d. á að skerða lífeyrisgreiðslur úr ellisjóði frá Tryggingastofnuninni; þá sé þetta pappírsgagn, sem ekki er þess vert að fá samþ. á Alþingi. Og ef það á að skerða lífeyri makans, sem ekki væri þó nema 4500 eða 5000 kr., þannig að upphæðin drægist frá ellilaunum eða örorkulífeyri, þá eru þessi réttindi honum einskis virði.

Það er nú þannig í dag, að embættismenn, sem hafa lífeyri, eða aðrir aðilar, sem hafa lífeyri úr ákveðnum lífeyrissjóðum, eru fríir við að greiða iðgjöld til trygginganna. Því þykir rétt að breyta með þessum l. þannig, að viðkomandi aðilar hafi enn þá greiðsluskylduna til þessara lífeyrissjóða óbreytta og haldi þar af leiðandi þeim rétti, sem þeir fá þar. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram í sambandi við till. n. um lífeyrissjóðinn.

Ég vildi nú mjög mælast til þess fyrir hönd n., sem er alveg sammála um þessi mál, að hv: alþm. sæju sér fært að samþ.. till. á þskj. 321. Ég, geri ráð fyrir, að ef yrðu verulegar breyt. á þessum till., yrði n. að taka málið aftur til athugunar fyrir 3. umr. og þá vafasamt, hvort samkomulag verður um að afgreiða málið, fyrr en búið væri að fá fullkomið samkomulag um öll einstök atriði, en ekki látin ráða hending um það, hvort þetta héldist eða hitt. N. telur, að þetta form á lífeyrisgreiðslunum sé miklu eðlilegra og heppilegra en gert var ráð fyrir í upphafi og uppfylli miklu frekar þær kröfur, sem gerðar eru nú orðið almennt í sambandi við lífeyrirsgreiðslur, og það er þess vegna, sem hún hefur lagt allmikla vinnu í það að breyta frv. í það horf, sem það nú er í.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál meira, en legg til fyrir hönd n., að brtt., eins og þær koma fram á þskj. 321, verði allar samþykktar.