10.11.1953
Neðri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga.

1949 voru sett lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Í þeim lögum var gert ráð fyrir, að ef sveitarfélög vildu setja á stofn gæzluvistarhæli fyrir drykkjusjúka menn, fyrst og fremst miðað við þarfir þeirra sjúklinga, sem þörfnuðust vistar og umönnunar um langan tíma, þá skyldi úr gæzluvistarsjóði greiða stofnstyrk 2/5 kostnaðar. Í þessum gæzluvistarsjóði er nú hátt á þriðju millj. króna. Samkv. lögunum renna til hans 750 þús. af ágóða áfengisverzlunarinnar á hverju ári. Hins vegar munu aðeins um eða rúmar 300 þús. hafa verið notaðar úr þessum sjóði til þess að reisa hælið á Úlfarsá.

Okkur flm. virðist, að eðlilegt sé, að gæzluvistarsjóður ríkisins reisi og reiti slík hæli, en að því sé ekki komið yfir á sveitarfélögin að leggja fé til stofnunar og rekstrar slíkra hæla. Þeim mun fremur virðist ástæða til þess, þar sem þarna er fyrir hendi sjóður, sem nú er sem sagt hátt á þriðju millj. króna, ónotaður að mestu.

Grein er gerð fyrir þessu máli í ástæðum frv., og vil ég vísa til þeirra og tel ekki ástæðu til að rekja þetta frekar, en legg til, að málinu sé vísað til heilbr.- og félmn. Af sérstökum ástæðum gat ég ekki flutt framsöguræðu við 1. umr. málsins, og málið var þá látið ganga áfram til 2. umr. Tel ég rétt, þó að málið sé komið á þetta stig, að þá sé því milli 2. og 3. umr. vísað til hlutaðeigandi nefndar.