17.12.1953
Efri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er nú aðallega til að leita mér upplýsinga, sem ég stend upp. Og það kann nú vel að vera, að það sé e.t.v. ekki rétt að gera það, af því að ég get náttúrlega fengið þær upplýsingar að nokkru leyti annars staðar en ekki nema að nokkru leyti. En mér datt ekki í hug, að þetta mál yrði hér á dagskrá, og hafði þess vegna ekki aðgætt að afla mér þeirra.

Ef ég man rétt, — ég segi, ef ég man rétt, þá veit ég ekki betur en að það sé búið að leggja í sjóð til að koma svona hæli upp síðan 1949 og að það sé í þeim sjóði nokkuð á fjórðu milljón og að sá sjóður hafi verið stofnaður til þess að styrkja að hálfu leyti stofnkostnað eða kosta að hálfu leyti stofnun drykkjumannahælis, sem Reykjavíkurbær ætlaði sér að koma upp og borgarstjórinn í Reykjavík þá taldi sig hafa mikinn áhuga fyrir og taldi alveg sjálfsagt að reisa, ef styrkur fengist. Þetta minnir mig. Nú var ég að fá lögin inn rétt þegar ég fór, svo að ég vil ekki alveg ábyrgjast, að þetta sé rétt minni, en ég held það samt. En Stjórnartíðindin eru komin þarna á borðið hjá mér frá því ári, svo að það er nú hægt að sjá, hvort þetta er ekki rétt. Ef þetta er rétt minni, þá vil ég spyrja: Hvað hefur tafið? Hvers konar andskotans áhugaleysi hefur það verið hjá — (Forseti: Má ég minna hv. þm. á, að slíkt orðbragð er ekki þinglegt?) ja, það er áherzluorð bara, — hjá bæjarstjórn Reykjavíkur að hafa ekki notað sjóðinn öll þessi ár? Það langar mig til að vita, af hverju það hefur stafað. Ja, það er nú víst enginn hér úr bæjarstjórn, sem getur svarað því. En ráðh., sem virðist nú hafa áhuga fyrir málinu, getur þá vafalaust svarað því, því að hann hefur þá sjálfsagt reynt, síðan hann varð ráðh., að ýta á það, að bæjarstjórnin hirti sjóðinn og færi að byggja, — eða ráðh., sem hefur verið á undan honum, líklega hefur gert það. Og þá langar mig til að vita hjá þeim, hvað hefur tafið þetta, á hverju hefur staðið, að sjóðurinn hefur ekki verið notaður öll þessi ár. Það er spurningin, sem mig langar til að fá að vita, og satt að segja vil ég beinlínis rannsaka það, áður en ég er með frv., komast að því. Ef það er virkilega tilfellið, að það sé ekki nokkur einasti áhugi í bænum til að nota þetta fé, hvorki hjá bæjarstjórn né bæjarbúum yfirleitt, — sjóðurinn hefur staðið þeim til boðanna til þess arna, — þá vil ég fá að vita það, því að þá er ég ekkert ginnkeyptur fyrir —því að vera áð samþykkja þetta sérstaklega.