17.12.1953
Efri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Viðskmrh. (Ingólfur Jónssón):

Herra forseti. Það er rétt, að lög um gæzluvistarsjóð voru sett 1949. Það er einnig rétt, sem ég sagði áðan, að nú eru í sjóðnum 3 millj. kr., en verða væntanlega eftir næstkomandi áramót, þegar búið er að leggja í sjóðinn eins og lög gera ráð fyrir, hátt á fjórðu milljón kr. Það er alveg rétt. Það er einnig rétt, að gert var ráð fyrir því í þessum lögum, að bæjar- og sveitarfélög legðu nokkuð á móti í byggingu slíkra hæla. Þessi lög voru ekki stíluð á Reykjavíkurbæ einan, heldur almennt bæjar- og sveitarfélög, að mig minnir, án þess að ég hafi nú flett upp í þessum lögum nýskeð.

Nú vil ég ekki og get ekki svarað því, hvers vegna Reykjavíkurbær hefur ekki hafizt handa eða önnur sveitarfélög til þess að byggja eftir þessum lögum. Ég get ekki svarað því. En mér finnst eðlilegt frá eigin brjósti að svara á þann veg, að það er eðlilegt, að byggt sé eitt landshæli fyrir drykkjusjúka menn, en ekki það, að hvert sveitarfélag fyrir sig eða þótt ekki væri nema stærstu kaupstaðir færu að reka og reisa svona hæli, þótt þeir fengju styrk úr gæzluvistarsjóði. Slíkt yrði dýrara og óhentugra fyrirkomulag en að það væri eitt landshæli, sem um væri að ræða. Og sé það nú þannig, að byggt verði eitt landshæli, vegna þess að það skapi ódýrari rekstur og heppilegra fyrirkomulag á allan hátt, þá eru fallnar í burtu forsendurnar fyrir því, að bæjarog sveitarfélög eigi að leggja í eða geti lagt í þessa byggingu. Þá virðist rétt vera, að þetta hæli sé byggt fyrir sameiginlegan sjóð eða fyrir sameiginlegt fé landsmanna, eins og hér er gert ráð fyrir, þó að ætlazt sé til, að gæzluvistarsjóður standi undir því að öllu leyti, því að í þetta hæli eiga allir drykkjusjúkir menn áð fá inngöngu, sem þörf hafa fyrir það, hvar svo sem þeir eiga heima.

Hv. 1. þm. N-M. (PZ) var að tala um það hér áðan, að það væri einkennilegt, að þetta skyldi ekki vera komið lengra áleiðis, þar sem ætla mætti, að bæði fyrrverandi og núverandi heilbrmrh. hafi haft áhuga fyrir þessu máli. Ég reikna alveg með því að fyrrv. heilbrmrh. hafi haft áhuga fyrir málinu, enda þótt það hafi ekki komizt áfram í hans ráðherratíð, og hef ég reyndar heyrt það á honum, að hann er þessu máli mjög hlynntur. Ég fyrir mitt leyti hef gert mér grein fyrir því, að þetta er nauðsynjamál, sem snertir ekki aðeins Reykjavíkurbæ, heldur þjóðina í heild. Og þetta þarf þess vegna að komast áfram, og hv. Nd. hefur verið sammála um að flýta málinu og koma því áfram í því formi, sem það er nú.

Hvort áhugi bæjarstjórnar Reykjavíkur fyrir þessu máll hefur verið mikill eða lítill undanfarið, skal ég ekkert um segja, en það vil ég upplýsa, ef einhver hv. þm. hér í d. veit ekki um það, að frv. er flutt af borgarstjóranum í Reykjavík og sýnir, að hann hefur áhuga fyrir málinu nú, hvernig sem það hefur verið áður. Og mér finnst, að við eigum nú ekki að vera að metast mikið um þetta og um það, hvers vegna Reykjavíkurbær hefur ekki áður byggt hæli og notað sér þessi lög. Ef við erum sammála um mikla þörf fyrir að koma þessu þjóðnytjamáli áfram, þá skulum við ekki tefja málið, heldur gera það að lögum núna, áður en þinginu er frestað. Hitt er svo ekki nema eðlilegt, að menn geri sínar athugasemdir eins og hv. 1. þm. N-M. Það er alltaf heilbrigt og eðlilegt, en ég veit, að þessi hv. þm. er það sanngjarn, — og hann hefur áreiðanlega gert sér grein fyrir því þjóðfélagsböli, sem drykkjuskapurinn veldur, og því vandræðaástandi, sem drykkjusjúklingar eiga nú við að búa, — hann. ér það sanngjarn maður, að ég veit, að hann vill ekki setja fótinn fyrir þetta mál, þótt hann nú hafi séð ástæðu til þess að rifja upp aðgerðaleysi í málinu áður.