17.12.1953
Efri deild: 38. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

90. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Haraldur Guðmundsson:

Mér skildist Hæstv. forseti gera ráð fyrir því, að þetta mál gengi hér nefndarlaust í gegnum deildina. Ég get fyrir mitt leyti fallist á það, eins og málið er vaxið, því að það er æskilegt, að málið geti lokizt nú fyrir þinghlé, en þá þykir mér einnig rétt að gera með nokkrum orðum grein fyrir afstöðu minni til málsins nú þegar við þessa umr.

Ég mun greiða þessu frv. atkvæði, ekki út af fyrir sig þess vegna, að ég telji lögin frá 1949 óeðlileg, heldur vegna hins, að þetta mál virðist komið í það öngþveiti, að litlar líkur séu til, að úr framkvæmdum verði svo skjótt sem nauðsyn krefur, nema höggvið sé á hnútinn á einn veg eða annan.

Með þessu frv. hér er gert ráð fyrir því, að gæzluvistarsjóðurinn, sem hefur allmikið fé til umráða, reisi hælið, og þá þarf ekki lengur um það að deila, hvaða aðili skuli gera það. Um rekstur þess og annað, sem ekki eru bein fyrirmæli um í lögum, verður svo ákveðið í framtíðinni, en fyrst er að sjálfsögðu að fá hælið upp og nota það fé, sem til er, til þess að því nauðsynjaverki sé hrint í framkvæmd. Ég mun því greiða þessu frv. atkvæði með það fyrir augum að þetta sífellda ágreinismál milli ríkisstj. og bæjarstjórnar Reykjavíkur sé leyst og framkvæmdir tryggðar hið skjótasta í málinu.