30.11.1953
Neðri deild: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

94. mál, happdrættislán ríkissjóðs

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 149, og mælir með því einróma, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir. Þetta frv. felur það í sér að lengja fresti fyrir vinninga í happdrættislánum ríkisins. Eins og lögin eru nú, þá geta þessir vinningar fyrnzt á 3 árum. En samkv. frv. er til þess ætlazt, að þeir fyrnist ekki fyrr en eftir 15 ár. Sem sagt er það ætlunin eingöngu með þessu frv. að tryggja það, að þeir, sem hljóta vinninga af þessum lánum, tapi þeim ekki vegna þess, að þeir séu ekki búnir að ganga eftir þeim á tilskildum tíma.