01.03.1954
Efri deild: 54. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

137. mál, stjórn flugmála

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 359, er um, breyt. á l. nr. 119 28. des. 1950, um stjórn flugmála. Frv. er flutt af samgmn. Nd. og komið hingað í þessa hv. deild. Það er flutt að tilhlutun eða samkv. beiðni flugmrh. og er um það, eins og í 1. gr. segir, að í stað orðanna „flugvallastjóra ríkisins“ á fjórum stöðum í 2. gr. laganna komi: flugmála og flugvallastjóra. — Í grg., sem fylgir frv., segir að með lögum nr. 119 28. des. 1950 var lagt niður embætti flugmálastjóra sem sérstakt embætti. Jafnframt voru störf þess embættis sameinuð embætti flugvallastjóra, en embættisheiti hans þá ekki breytt. Með því að núverandi embættisheiti gefur engan veginn rétta hugmynd um störf þessa embættismanns, segir enn í grg., þykir rétt að breyta heitinu svo sem greinir í frv., m.ö.o. að breyta heitinu „flugvallastjóra ríkisins“ í „flugmála- og flugvallastjóra“.

Þegar þetta frv. var til 1. umr., þá kvaddi hæstv. dómsmrh. sér hljóðs og beindi því til n., sem fær þetta mál til meðferðar, þ.e. samgmn., hvort ekki væru möguleikar á að finna eitthvert heppilegra nafn á þetta embætti heldur en í frv. segir, benti á, að nafnið væri stirt, og samsett og. heppilegt væri að finna annað nafn, ef mögulegt væri. Nefndin tók þetta til athugunar, og þrátt fyrir það að hún athugaði þetta töluvert mikið og átti tal við orðhaga menn um þetta, kom nú ekki fram neitt betra nafn, sem nefndin gæti fallizt á að kæmi í staðinn fyrir þetta, sem í frv. segir. N. hefur einnig átt tal við flugmrh., og leggur hann til, að frv. sé samþykkt eins og það liggur fyrir, en mundi vilja athuga, ef brtt. kæmi fyrir 3. umr. Það mundi einnig nefndin athuga, ef til kæmi. Að öðru leyti leggur hún til, að frv. verði samþ. og síðan vísað til 3. umr.