18.02.1954
Efri deild: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (1439)

128. mál, verðlagsskrár

Andrés Eyjólfsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér fyrir hönd okkar flm. þessa frv. að þakka hv. allshn. fyrir góða afgreiðslu málsins. Þær orðabreytingar, sem n. hefur gert á frv. og hv. frsm. hefur nú lýst, getum við vel fallizt á, enda breyta þær í engu efni frv. Það er bara e.t.v. ljósara orðalag, sem þar kemur fram.

Við flm. höfum borið fram brtt. við 1. gr. frv., en sú gr. skiptir landinu í verðlagsskrárumdæmi. Var sú skipting, eins og hún er í frv., gerð samkv. þeirri venju, sem skapazt hefur nú um langa tíð. Formaður Félags héraðsdómara, Jón Steingrímsson sýslumaður, benti hins vegar á, að heppilegra væri, að ein verðlagsskrá gilti fyrir umráðasvæði hvers sýslumanns, enda var svo í frv., að undanteknum Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, en fyrir það lögsagnarumdæmi höfðu verið samdar tvær verðlagsskrár. Sama var að segja um Skaftafellssýslur. Féllst hv. meðflm. minn á þetta, en hann er, eins og hv. þdm er kunnugt, sýslumaður Skaftafellssýslna. Við höfum því borið fram brtt. á þskj. 354. Vonum við, að hv. þdm. geti fallizt á að samþykkja hana, enda er hún í samræmi við ákvörðun annarra verðlagsskrárumdæma. Má þar t.d. nefna Barðastrandarsýslur, Ísafjarðarsýslur, Húnavatnssýslur og Þingeyjarsýslur, sem hafa aðeins eina verðlagsskrá sameiginlega fyrir bæði sýslufélögin í hverjum stað.

Frv. þetta miðar að því, þó að í litlu sé, að létta störfum af sveitarfélögunum. Er það að vísu öfugt við flest þau lög, sem frá Alþ. hafa verið afgreidd á síðari tímum og snert hafa sveitarfélögin. Þau hafa flest verið þess eðlis að leggja auknar vinnukvaðir á sveitarstjórnir og skattanefndir. En auk þess að gera samningu verðlagsskrárinnar fyrirhafnarminni og einfaldari ætti þetta frv., ef að lögum verður, að stuðla að meira samræmi milli verðlagsskrárumdæma en oft hefur verið og gefa réttari mynd af verðlagi í landinu, eins og það er á hverjum tíma.

Vil ég að svo mæltu leyfa mér að óska þess, að hv. d. geti fallizt á að samþ. frv.