13.11.1953
Efri deild: 20. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 136 ásamt hv. 1. þm. N-M. um það, að heimilað verði að selja jörðina Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu ábúandanum Hreiðari Eiríkssyni, enda verði jörðin gerð að ættaróðali. Þar að auki flyt ég einn brtt. á þskj. 137 um það, að auk Grísarár verði heimilað að selja jörðina Ytri-Bægisá í í Glæsibæjarhreppi ábúandanum frú Jóhönnu Gunnarsdóttur.

Um Grísará stendur þannig á, að í áratugi var hún nytjuð af bóndanum á næsta bæ, Kroppi, og hann átti báðar jarðirnar, en seldi þær ríkinu samkvæmt l. um jarðakaup ríkisins. Ábúandinn í Grísará, Hreiðar Eiríksson, hefur þar af leiðandi ekki búið þarna, þ.e.a.s. hann hefur ekki átt heima á Grísará, því að jörðin er húsalaus, heldur hefur hann verið í eins konar húsmennsku á öðrum bæ, en nytjað jörðina. Nú er það ætlun þessa bónda að byggja á jörðinni og setjast þar að, stofna þar nýbýli, þar sem um eyðijörð er í sjálfu sér að ræða. Mundi vel vera hægt, þó að jörðin sé lítil, að gera þarna mjög lífvænlegt býli fyrir fjölskyldu. Ég sé því ekki annað en að frá þjóðhagslegu sjónarmiði sé „það til mikilla bóta, að þarna rísi upp myndarlegt býli. og treysti ég Hreiðari Eiríkssyni vel til þess að ganga svo frá og framkvæma það á jörðinni, að þetta verði myndarlegt býll, og álít ég, að það sé þjóðhagslega betra en að jörðin sé nytjuð frá annarri jörð, sem einnig er það mikið í, einkum þegar ræktun eykst þar, að það er vel lífvænlegt, þó að svo væri hér áður, að sami bóndinn hafði tvær jarðir og rak þar enda stórt bú.

Um þá till., sem ég flyt einn viðvíkjandi Ytri-Bægisá í Glæsibæjarhreppi, er þau ein rök að færa, að ábúandinn, frú Jóhanna Gunnarsdóttir, sem er prestsekkja og orðin öldruð, hefur verið þarna afar lengi, víst í ein 50 ár, þykir vænt um jörðina, vill gjarnan bera þar beinin, eins og maður hennar hefur þegar gert, og geta ráðstafað jörðinni eftir sinn dag. Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram, að þessi gamla kona muni hefja stórframkvæmdir á jörðinni, en mér virðist, að það sé ekki annað en sanngirnismál, að hún fái eignarhald á þessari jörð eða jarðarhluta og fái þessum vilja sínum framgengt, fyrst og fremst að tryggja sér til æviloka, að hún geti verið þar, og í öðru lagi það, að hún megi ráðstafa jörðinni eftir sinn dag, að svo miklu leyti sem lög um ættaróðul heimila. En hv. frsm. landbn. hefur lýst því yfir, enda stendur það í nál., að landbn. muni ekki taka afstöðu til brtt. þeirra, sem fyrir liggja, fyrr en við 3. umr. málsins. Ég leyfi mér því að taka þessar till. aftur til 3. umr., bæði till. á þskj. 136 og till. á þskj. 137.