17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Mér skilst, herra forseti, að bæði till. á þskj. 157 og eins till. um Miðhúsin á þskj. 171 þurfi að orðast um og stílast, eins og nú er komið, við frv. eins og það er prentað eftir 2. umr. Þess vegna hefði ég nú talið réttast, að málinu væri frestað núna og flm. till. á þskj. 157 og 171 orðaði þær um og stílaði þær við frv. eins og það er núna á þskj. 170 og það kæmi fram þannig hér í d. Það er ekki hægt að samþ. þær inn í frv. eins og þær eru. N. hefur að vísu komið saman og tekið afstöðu til Moshlíðar. Þessi jörð er tiltölulega nýlega byggð á 250 kr. á ári. Árgjaldið hefur verið greitt af henni seinast 1949 og er greitt gegnum prestinn á Patreksfirði, sem hefur gefið út fyrir jörðinni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar byggingarbréf, sem núna liggur uppi í kirkjumrn. hjá Gústafi A. Jónassyni, sem á aðeins eftir að skrifa undir það, og verður sent heim aftur, svo að Reynir Hjartarson er sama sem búinn að fá jörðina til lífstíðarábúðar með 250 kr. eftirgjaldi. Þrátt fyrir það sér n. ekkert athugavert við það, að hónum sé seld þessi jörð með þeim ummerkjum, sem hún er nú búin að fá, með þeim landskiptum, sem þarna hafa farið fram, og þá um leið með því skilyrði, að hún verði gerð að ættaróðali. Þá væri hún ekki seld eftir mati, heldur eftir lögunum, sem um það gilda, — samkv. fasteignamati, og gerð að ættaróðali. En þetta þyrfti að breytast alveg. 3. málsgr. í frv. þyrfti þá að orðast svona: Enn fremur er ríkisstj. heimilt að selja jarðirnar Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu ábúandanum Hreiðari Eiríkssyni og Moshlíð í Barðastrandarhreppi í Barðastrandarsýslu ábúandanum Reyni Hjartarsyni, enda verði jarðirnar gerðar að ættaróðall. — Og þá þarf að koma ný brtt. við sjálft frv. eins og það er núna. Og ég vil mælast til þess, að forseti taki málið út núna, og gera ráð fyrir, að n. komi þá með svona brtt. næst og þá kannske líka um Miðhús.

Ég skal játa það, að mér er ekki ljóst með Miðhúsin. Þetta er gömul eyðijörð, sem hreppsstjórinn í Gufudalssveit hefur séð um byggingu á. Það liggur ekkert fyrir hér í Reykjavík, hvað hún hefur verið byggð fyrir, og ekki heldur neitt nánara um það. Land jarðarinnar mun vera heldur lítið og báðum megin fjarðarins. Hún er ekki metin á nema 900 kr., húsalaus að vísu. Hús eru þar, engin. Hefur jörðin verið leigð hinum og þessum sitt á hvað, var við síðasta fasteignamat byggð lausamanni eða leigð lausamanni, sem þá var á Þórustöðum, mun nú vera leigð manni, sem er í Djúpadal, og ég er ekki viss um, hvort jörðin er það stór, að það sé rétt að selja hána til þess að gera hana að ættaróðali, — hafi nóg land til þess að geta orðið almennilegt býli fyrir neina ætt til að lifa á af búskap. Það á ég eftir að rannsaka nánar. En ef það reyndist við rannsókn, að hún væri það, þá mundi ég vilja setja hana inn í sem þriðju jörðina, sem ríkisstj. þá væri helmilt að selja með því að gera að ættaróðali. Ef hún aftur á móti reynist svo lítil, að það sé ekki fært eiginlega að gera hana að sjálfstæðu og almennilegu býli, þá veit ég ekki, hvort það væri nokkuð betra gert við hana en að lofa mönnum að nota hana svona sitt á hvað, sem eru lausamenn og eiga einhverjar skepnur, eins og hefur verið sýnilega núna um 20–30 ára skeið.