17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Mér skildist á síðasta ræðumanni, þm. Barð., forseta d., að hann væri því enn þá mótfallinn, að málinu væri frestað nú, og þá verð ég að koma með brtt. skriflega f.h. nefndarinnar um það, að 3. málsgr. 1. gr. orðist svo:.

„Enn fremur er ríkisstj. heimilt að selja jörðina Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu Hreiðari Eiríkssyni og Moshlíð í Barðastrandarhreppi í Barðastrandarsýslu ábúandanum Reyni Hjartarsyni, enda verði jarðirnar gerðar að ættaróðulum.“

Miðhúsa höfum við ekki tekið afstöðu til, og fyrst forseti vildi ekki fresta málinu, þá verður ekki heldur af n. tekin afstaða til þess, hún hefur um það óbundnar hendur, hvað hún segir um Miðhúsin.

Viðvíkjandi því, sem síðasti ræðumaður, þm. Barð., var að segja almennt um málið, þá vildi ég gjarnan benda honum á það, að hann gáir ekki að því, að þegar samkomulag varð um það í Alþ. að setja lög um erfðaábúð og óðalsrétt, þá var þar með slegið föstu, að þeim kostnaði, sem hann er að tala um, og þeirri kvöð, sem hann vildi láta ríkið taka á sig með því að byggja á ríkisjörðunum, opinberu jörðunum, var létt af að öllu leyti með því, að manni var heimilt að fá lán út á jörðina eins og hann ætti hana sjálfur — fá sams konar lán til að byggja á henni og rækta á henni eins og hann ætti hana sjálfur, og heimild að lögum að veðsetja jörðina fyrir slíku láni. Þess vegna var þá einmitt gengið út frá því, að það yrði komið því fyrirkomulagi á með jarðeignirnar annars vegar, að þær væru eign þess opinbera og þá byggðar með erfðafestu, og ef þær væru ekki eign þess opinbera, heldur seldar, þá gerðar að ættaróðulum, til þess að sama ættin gæti notið jarðarinnar án frekari verðhækkana á meðan hún yfirleitt vildi. Í þessum I. eru svo ákvæði um það, að þegar ætt fellur frá, þegar enginn er til af ættinni til að taka við jörð, sem er í ættaróðali, þá fer fram nýtt fasteignamat, og þá tekur hin nýja ætt, sem við jörðinni tekur, við henni eftir mati. Á sama hátt fer um erfðaábúðarréttinn. Þegar enginn er til að taka við honum, þá fer líka fram nýtt mat, fasteignamat, og nýja ættin, sem tekur við erfðaábúðinni, tekur við jörðinni með því mati. Hitt er svo annað mál, og það er það, sem þm. ruglar saman, að af því að þetta er tiltölulega nýtt og þó að eftirgjaldið sé ekki nema 3% af matsverði jarðarinnar, sem á að byggja jörðina fyrir eftir lögunum um erfðaábúð, þá hafa ekki enn þá nema sárafáar jarðir af opinberu jörðunum tekið erfðaábúð. Þær eru með lægra afgjald en 3%, sumar miklu lægra afgjald, eins og við heyrðum um Bægisá í gær, sem er svolítið á annað hundrað króna afgjald á ári, og þess vegna hafa menn heldur viljað hafa það svo en að taka erfðaábúðina og tryggja ættinni til frambúðar rétt á jörðinni, — eða um Moshlíðina núna, sem er með 250 kr. afgjald á ári. Það er svo létt, og hann hefur þó ekki fengið nema lífstíðarábúð, hann hefur ekki beðið um erfðaábúð. Hann mundi strax fá erfðaábúð, ef hann beiddi um hana, og þá getur hann veðsett Moshlíðina, alveg eins og Gísli Jónsson veðsetti sitt hús. Þegar hann ætlar að taka lán út á hana til að byggja fyrir, þá hefur hann rétt og leyfi til þess að gera það.

Að öðru leyti skal ég ekki fara út í þetta mál nánar. Þetta er umdeilt mál, ekki á milli flokka, það á formælendur innan Sjálfstfl., sem eru heitari eða eins heitir og ég í málinu, eins og t.d. Tón á Reynistað o.fl., svo að það er ekki neitt flokksmál, heldur er það mál, sem menn bara líta misjafnlega á eftir því, hvað mikinn skilning þeir hafa á því, hvernig landið er undirstaða undir allri framleiðslunni og lífsþörf mannanna, hve mikil bölvun það er fyrir heildina, þegar það er sprengt upp í verði með endalausum kaupum og sölum. Þó að einstaka menn geti grætt á því, þá verður heildin að blæða fyrir það með því að borga hærra verð fyrir þær nauðsynjar, sem jarðnæðið þá lætur í té.

Ég skal svo leyfa mér að afhenda forseta þessa till., en með því er því slegið föstu frá n. hálfu, að hún hefur óbundnar hendur um Miðhúsin og hefur ekki tekið afstöðu til Miðhúsanna.