07.10.1953
Neðri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. 16. jan. 1952 var samþ. í sameinuðu Alþingi svo hljóðandi þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir heildarendurskoðun laga um skatta og útsvör, sem stefni að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjar- og sveitarfélaga hins vegar. Sé jafnframt við það miðað að ofþyngja ekki einstaklingum, hjónum, félögum og atvinnurekstri í opinberum gjöldum, tryggt samræmi og jafnrétti veð álagningu gjaldanna, sem mundi auðvelda eftirlit með því, að framtöl séu rétt. Lögð skal einnig áherzla á að gera skattalöggjöfina svo einfalda og auðvelda í framkvæmd sem frekast er unnt. — Rannsókn og undirbúningi málsins sé hraðað svo, að ríkisstj. leggi frv. til l. um málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þetta næsta reglulega Alþingi, sem við er átt í till., kom saman 1. okt. í fyrra, fyrir rúmlega ári. Þegar það Alþingi kom saman, þá var hæstv. ríkisstj., sem er að mestu leyti hin sama og sú, sem nú situr, um það spurð, hvernig á því stæði, að hún stæði ekki við þau fyrirmæli Alþingis að hafa tilbúin skattafrv., sem væru í samræmi við þessa þál., sem samþ. hafði verið 8 mánuðum áður. Hún svaraði því þá til, að tími hefði ekki unnizt til þess að ganga frá neinum heildarfrv. um málið, það væri flókið og vandasamt, en gaf þó í skyn, að þess mundi ekki verða mjög langt að bíða, að hún gerði hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Þingið leið. Ekkert heyrðist frá stjórninni, ekkert frv., ekki einu sinni loforð um frv. Svo nálguðust kosningar. Þá stóð ekki á loforðunum um það, að endurskoðun skattalaganna stæði alveg fyrir dyrum, og oftar en einu sinni var sagt og skrifað, að í upphafi næsta þings mundu flokkarnir, sem setið höfðu í stjórn og vonuðust sjálfir til að sitja í stjórn áfram, leggja fyrir Alþingi og þjóðina till. um endurskipulagningu skattamálanna, sem þjóðin svo lengi hefur beðið eftir, svo sárt og þungt sem hún hefur stunið undir óbærilegum skattaálögum. Nú er þetta Alþingi komið saman, hið annað í röðinni síðan till., sem ég las áðan, var samþykkt. Enn bólar ekki á neinum till. frá hæstv. ríkisstj. um nýskipun eða endurskipulagningu skattamálanna. Þvert á móti er enn fleygt inn í þingið sömu frv. sem þm. hafa fengið í hendur mörg undanfarin þing, hin síðari ár sér til litillar ánægju. Það eru frv. um framlengingu á þeim gjöldum, sem lögð hafa verið á undanfarin ár, í sama rangláta forminu og áður, engin nýskipun þessara mála sjáanleg á næsta leiti.

Á þessu vildi ég vekja athygli og vita það, að ríkisstj. skuli ekki hafa farið eftir þeirri ályktun, sem samþ. var samhljóða fyrir hálfu öðru ári og átti að vera búið að fullnægja þegar fyrir heilu ári — og rúmlega það þó.

Örfáum orðum vildi ég einnig fara um það frv., sem hér liggur fyrir, þó að það muni eðlilega koma til rækilegrar meðferðar við 2. og 3. umr. málsins. Ég vil ekki láta 1. umr. líða, fyrst ég stóð upp á annað borð, án þess að benda á það, sem raunar hv. 2. þm. Reykv. benti líka á í sinni ræðu, að söluskattur var á sínum tíma, 1948, lagður á til þess að standa undir alveg ákveðnum gjöldum, sem ríkissjóður þá þurfti að inna af hendi. Söluskatturinn var lagður á til þess að koma í veg fyrir gengislækkun, af þeirri stjórn, sem þá sat. Það var höfuðhlutverk hans. Það var eina hlutverkið, sem var svo mikilvægt, að það gat réttlætt slíka skattálagningu sem hér er um að ræða, svo óheyrilega ranglát og ósanngjörn sem hún er. Það þurfti mikið að liggja við, til þess að verjandi væri að leggja tugmilljónir króna á í þessu formi, á neyzlu almennings í landinu. Eina markmiðið, sem gat komið til greina að þjóna með slíkri skattlagningu, var að koma í veg fyrir gengisfall krónunnar. Það var gert 1948–49 með því að leggja á þennan mjög svo þungbæra skatt. Almenningur sætti sig við það — að svo miklu leyti sem hann gerði það — einvörðungu vegna þess, að hann fann, að hann skildi, að það var til þess að koma í veg fyrir það, sem var enn þá verra, gengishrun krónunnar. Þessi gengislækkun krónunnar kom voríð 1950. Það, sem átti að afstýra 1948, gerðist 1950, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. gengu til stjórnarmyndunarinnar þá. Þá hefði átt að vera hægt, ef rökin fyrir gengislækkuninni hefðu verið rétt, að fella niður þau gjöld, sem lögð voru á til þess að koma í veg fyrir gengislækkunina. Það fyrirheit var gefið, en það var ekki efnt. Söluskattinum var haldið. Öllum gjöldum, sem á höfðu verið lögð til að koma í veg fyrir gengislækkunina, var haldið þrátt fyrir gengislækkunina, og þeim var ekki aðeins haldið, þau voru hækkuð stórkostlega. Nú er ætlazt til þess, að söluskatturinn verði 911/2 millj. kr. Það voru jafnvel lögð á enn þá meiri gjöld til þess að inna af hendi sama hlutverk og söluskattinum var ætlað árið 1948–49. Bátagjaldeyrisskipulagið var tekið upp 1951. Á þann hátt var sópað yfir til útflytjenda í styrk tugum milljóna króna, enginn veit, því miður, hve miklu, líklega einhvers staðar á milli 80 og 100 millj. kr. árlega. Þetta var nýr söluskattur, sem enn er innheimtur af alþýðu manna þrátt fyrir gengislækkunina, sem öllu átti að bjarga á sínum tíma.

Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Það er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með það, að hann sé ranglátur í eðli sínu. Framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið svikinn jafnstórkostlega og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða um söluskattinn, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. Það er margfalt auðveldara að svíkja söluskatt. Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru gífurleg í söluskattinum. Ber þó ekki neitt að ráði á viðleitni hæstv. ríkisstj. til þess að kveða þau skattsvik niður. Það er vissulega eitt af þeim verkefnum, sem n., er nú starfar að endurskoðun skattalaganna, ætti að taka til rækilegrar athugunar, því að ófremdarástandið í þeim málum getur ekki gengið lengur, það má ekki ganga lengur. Þegar skattur er lagður á í því formi, sem söluskatturinn er innheimtur eftir, upp á 91 millj., þá má geta nærri, að skattsvikin í sambandi við hann verða ekki talin nema í milljónum.

Ófremdarástandið í skattamálunum er annars orðið þvílíkt, að alls ekki verður lengur við unað. Þetta þing má með engu móti svo líða, að það taki þau ekki til gagngerðrar endurskoðunar. Ég skal ekki ræða það mál hér rækilega. Ég skal aðeins benda á einfaldar staðreyndir, sem blasa við í tölum þeim, sem þm. hafa þegar fengið lagðar fyrir sig, þ.e.a.s. úr fjárlagafrv., sem ber þess glöggt vitni, hvílíkt geysiófremdarástand er í þessum málum öllum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur nemi tæpum 60 millj. kr. Söluskatturinn nemur hins vegar 91 millj. Söluskatturinn einn er þannig 50% hærri en allur tekju- og eignarskattur að stríðsgróðaskattinum meðtöldum. Allir skattar og tollar, sem ríkið innheimtir, eiga að nema samkv. fjárlagafrv. 325 millj. kr. Af því er tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur, þeir skattar, sem eru lagðir á í hlutfalli við gjaldgetu manna, 60 millj., ekki 1/5 af öllum álögum ríkisins. M.ö.o.: Ríkið treystir sér ekki til þess að taka nema 1/5 af því fé, sem það leggur á, í beina skatta, þ.e. eftir þeim aðferðum, sem hingað til hafa verið taldar forsvaranlegastar við skattálagningu, þ.e.a.s. að láta menn greiða í hlutfalli við tekjuhæð sina og eignahæð. Ef enn fremur er tekið tillit til þess, hve útsvörin munu vera mikil, og áætlað, að þau séu um það bil 150 millj. kr., en þau eru öll lögð á í hlutfalli við tekjur og eignir, sjáum við, að skattar, tollar og útsvör til ríkis og sveitarfélaga nema samtals um 475 millj. kr. Tekju- og eignarskattur ríkisins að meðtöldum stríðsgróðaskatti er af þessu aðeins 60 millj., áttundi hluti. Sjá menn ekki, að þetta er farið að nálgast skopsögu allt saman, að þegar almenningur á að borga 475 millj. kr. alls í skatta og tolla, þá skuli skipulagið á skattheimtunni vera þannig, að hið opinbera treystir sér ekki til þess að taka nema 1/5 hluta í hlutfalli við tekjuhæð og eignahæð manna? Hvað veldur? Sjá menn ekki, að hér er á ferðinni gerrotið kerfi, gegnsýrt af spillingu, sem gersamlega ómögulegt er að horfa upp á lengur? Þetta minnir mann á ástandið í Frakklandi, þar sem ófremdarástand í skattamálum er slíkt, að það er eitt höfuðmeinið í frönskum stjórnmálum. Það er einnig að verða svo hérna. Þessar tölur, sem við fáum nú lagðar fyrir okkur í fyrstu frv. stjórnarinnar, eru þvílík auglýsing á algeru ófremdarástandi í skattamálum þjóðarinnar, að við það er ekki lengur unandi. Hér þarf að taka allt kerfið til gagngerðrar endurskoðunar. Beinu skattarnir alls, til ríkis og sveitarfélaga, eru um 210 millj. kr., þ.e.a.s. ekki nema um 44% af öllum skattálögum og tollálögum til ríkis og sveitarfélaga. M.ö.o.: Rúmlega 4/10 eru innheimtir í hlutfalli við tekjur og eignir, hitt er innheimt sem óbeinir skattar, sem hljóta að koma miklu þyngra niður á öllum almenningi heldur en beinir skattar mundu gera.

Ég vil láta þessar aths. á fyrsta stigi málsins nægja, í fyrsta lagi til þess að andmæla söluskattinum í sjálfu sér og þó alveg sérstaklega í því formi, sem hann hefur verið innheimtur í og ætlazt er til að hann verði innheimtur áfram, og spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvað hún hafi hugsað sér varðandi endurskoðun skattalaganna, hvort ekki muni vera von á frv. til skattalaga frá henni, áður en hún ætlast til, að þessi frv. séu afgr. Alþfl. mun ekki ljá framgangi þessa frv. lið. Hann vill fá að vita um heildarstefnu ríkisstj. í skatta- og tollamálunum, Til hennar mun hann taka afstöðu og mun þá leggja fram sínar till. varðandi heildarendurskoðunina.