17.11.1953
Efri deild: 22. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Það er vissulega alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að það þarf sérstaka lagaheimild til þess að selja jarðir án þess að gera þær að ættaróðali. Það er, eins og ég sagði líka í þeim orðum, sem ég lét falla hér áðan, að sú stefna gægðist hér fram að taka upp þá söluaðferð og afla heimildar til þess. En það, sem ég var að benda á, stendur vitanlega óhaggað, að það þarf enga heimild til þess að selja jarðir, þar sem ábúendurnir eiga rétt á því að fá þær keyptar, hvort sem þær eru í erfðaábúð eða venjulegri leiguábúð. En ég vil benda á, að það. er ekki ástæðulaust, að ég minntist á þetta, vegná þess að það hefur verið aflað þessara heimilda á Alþ. fyrir menn, sem búa á ríkisjörðum, og var sett inn ákvæði í hv. Nd. um, að verðið á jörðunum skyldi fara eftir mati, en þeir skyldu gera þær að óðalseign. Þeir sögðu undireins, ábúendurnir, samkvæmt því sem eðlilegt var: Við höfum réttinn til að —kaupa jarðirnar fyrir fasteignamat og gera þær að óðalseign og við kaupum vitanlega ekki eftir sérstöku mati. Þetta þurfum við nú ekki að ræða frekar, því að þetta eru skýr ákvæði, að ég hygg, sem ekki verða vefengd.

Viðvíkjandi sölu Kaldaðarness, þó að það snerti mig nú ekki neitt, því að ég framkvæmdi ekki þá sölu og hef aldrei framkvæmt sölu nema eftir skýrum lagaheimildum, — þá vildi ég nú geta þess, vegna þess að sá ráðherra, sem það framkvæmdi, er ekki hér, að maðurinn, sem keypti Kaldaðarnes, bjó á og hafði skýlausan rétt til þess að búa áfram á ríkisjörð, var búinn að búa þar meira en í þrjú ár, sem er sá tími, er þarf til þess að hafa —réttinn til að kaupa. Og af þeim lögfræðingum, jafnvel skrifstofustjórum, sem sá ráðh. leitaði til, var álitið, að það væri óhætt að lögjafna til þessa atriðis, — fyrst maðurinn væri með sérstökum ráðstöfunum hrakinn burt af jörðinni, sem hann hafði rétt til að kaupa, þá væri eðlilegt, að hann fengi rétt til þess að kaupa aðra jörð. Þetta var sú lögjöfnun, sem þarna var álitin heimil, og ég skal ekkert um það dæma, hvort sú lögjöfnun fær staðizt eða ekki. En ég vil samt sem áður að gefnu tilefni skýra frá því, að þetta var sú heimild, sem sá ráðherra taldi sig hafa til þess. að selja jörðina.