19.11.1953
Efri deild: 23. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

78. mál, sala jarða í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég mæltist til þess við síðustu umr. að fá að athuga svolítið nánar viðvíkjandi Miðhúsum í Gufudalssveit. Ég hef gert þetta nokkuð, en því miður ekki getað komið því við að hafa fund í n. síðan, og þess vegna hefur n. algerlega óbundin atkvæði viðvíkjandi Miðhúsunum. En ég skal í stuttu máli segja það, sem ég veit um þetta réttast.

Þessi jörð er lítil jörð. Hún var áður“ metin fá hundruð á landsvísu, ég ætla, að hún hafi verið metin á tólf hundruð, þegar hún komst hæst, og svo átta. Hún liggur upp að landi Djúpadals og á land beggja vegna við fjörðinn, sundurskorið af landi Djúpadals. Það var lítið tún, sem fóðraði svona nokkurn veginn eina kú. Það hefur náttúrlega þessi ár, sem hún hefur verið í óbyggð, ekki batnað, ekki fengið búfjáráburð. En sá, sem núna hefur afnot af jörðinni, hefur girt það og borið á það tilbúinn áburð síðustu árin og mun fá af því núna í kringum 30 hesta. Útgræðslumöguleikar eru heldur lélegir. Þó er hægt að stækka það tún. Maðurinn, sem var talað um hér að fái kauparétt á henni, er einhleypur, 36 ára gamall, og hefur nytjað jörðina í 8 ár. Áður var jörðin nytjuð af öðrum einhleypum manni, sem var til húsa á Þórustöðum. Þannig hefur hún verið notuð sitt á hvað af ýmsum mönnum og höfð svona fótaþurrka. Langléttast liggur að nota hana frá Djúpadal, því að þár liggur landið upp að, en náttúrlega fær sú jörð ekki framtíðarrétt til notkunar, þó að einhleypur lausamaður, sem er þar til húsa fyrir tilviljun, fengi hana keypta. Ef ég í dag ætti að segja um það, hvort jörð þessi uppfylli 1. gr. l. um óðalsrétt og selja mætti hana eftir lögum frá 1946, sem þm. Str. minntist á hér í deildinni, væri ég ekki tilbúinn til að segja um það nú, en yrði að fá frest í málinu. Það er óvíst, hvort það sé hægt að selja þessa jörð eftir lögunum frá 1946, því að það er hæpið, hvort hægt er að telja þann ábúanda á jörð, sem hefur hana ekki nema til landsnytja, býr þar ekki, en er annars staðar, óg hefur þar ekki neinar skepnur nema til beitar, flytur allt hey burt o.s.frv. Ég mun þess vegna, eins og sakir standa; ekki geta verið með till. um Miðhús á þskj. 171. Ef í dag væri spurt um það, hvort Miðhús gætu heyrt undir þau ákvæði, sem tekin eru fram í 1. gr. í l. um ættar- og óðalsjarðir — hvort það ætti að selja þau eða ekki, þá mundi ég verða að taka mér frest og afla mér betri upplýsinga en ég núna hef, áður en ég gæti svarað því.

Ég geri ráð fyrir því, að þm. Barð. taki aftur till. á þskj. 157, 2. liðurinn er nú náttúrlega algerlega óþarfur og dettur af sjálfu sér, því að það er búið að samþykkja hann inn í frv. En —þegar landbn. kemur nú með. till. á þskj. 176 þar sem hún leggur til. að Moshlíð verði seld ábúandanum, að vísu með því skilyrði, að hún sé gerð að ættaróðali, þá geri ég ráð fyrir, að hún taki sína till. á 157 aftur. Landbn. stendur saman að þessari till. á þskj. 176 og væntir þess, að hún verði samþykkt.

Annað held ég að ég hafi ekki um þetta að segja. Ég ætla ekki að fara út í almennar umræður um þetta, þó að ræða þm. Barð. gæti gefið tilefni til þess síðast, sérstaklega af því að það er misskilningur hjá honum, allt sem hann sagði, og því á að leiðrétta, en ég held, að það þurfi ekki að vera að því. Það yrði allt of langt. Einungis skal ég geta þess, að þegar hann var að vitna í lóðir eins og á Siglufirði og Skagaströnd, þá gáði hann ekki að því, að það voru lóðir, sem var nýbúið að láta í vitleysu og á erfðafestu af ráðherra, sem vildi láta þá græða, sem erfðafestuna fengu.