25.03.1954
Efri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

166. mál, eignarnámsheimild fyrir Dalvíkurhrepp

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Eitt hið allra nauðsynlegasta fyrir kaupstaði og kauptún er að eiga það land, sem þessar byggðir eru reistar á. Með því móti, að þessi sveitarfélög eigi landið, getur orðið jafnrétti fyrir íbúa sveitarfélaganna að því er rétt til landsins snertir og gjöld fyrir afnot landsins. Þó að lóðir hækki í verði fyrir félagslegar framkvæmdir og vöxt og útfærslu þessara byggða, þá verður sú hækkun ekki óverðskuldaður gróði einstaklinga og tækifæri til þess að okra á lóðum, heldur fellur í skaut sveitarfélagsins og kemur því til góða með hærri leigu. Því miður eru lóðamál kaupstaða og kauptúna hér og þar ekki í svo góðu lagi sem skyldi að því er þetta snertir.

Dalvík við Eyjafjörð er vaxandi kauptún. Árið 1947 keypti Dalvíkurhreppur af ríkinu jörðina Böggvisstaði, og stendur meiri hluti kauptúnsins síðan á eigin landi. En sá galli er þó þar á, að einstaklingar höfðu, áður en ríkið seldi Böggvisstaði, fengið mikinn hluta af landi þessu í stærri og smærri skikum á erfðafestu til langs tíma með mjög lágri ársleigu. Landið allt var selt, án þess að erfðafesturéttindin högguðmst, og nú selja þessir einstaklingar afnotarétt erfðafestulanda sinna háu verði undir vegi og hús, en eigandi landsins, Dalvíkurhreppur, getur ekki hækkað áður umsamin erfðafestugjöld. Þetta er mjög óviturlegt og óeðlilegt ástand, og til þess að bæta úr þessu og gera Böggvisstaðaland Dalvíkurhreppi að þeirri eign, sem vera ber, er frv. það flutt, sem hér liggur fyrir að ósk hreppsfundar um, að hreppsnefnd Dalvíkurhrepps verði heimilt að taka eignarnámi öll erfðafesturéttindi í eignarlandi Dalvíkurhrepps eftir þeim lögum, er um eignarnám gilda.

Nd. hefur þegar samþ. þetta frv., og heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.