11.12.1953
Neðri deild: 37. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt sökum þess, að landbn. gerir sér ekki miklar vonir um, að þau frv., sem flutt hafa verið um stóraukin verkefni og fjárframlög til veðdeildar Búnaðarbankans, nái fram að ganga á þessu þingi. N. tók því þann kost að taka út úr og reyna að leysa þann þáttinn, sem allir voru sammála um að væri mest aðkallandi að leysa eins og sakir standa, en það er að greiða fyrir þeim mönnum, sem þurfa að kaupa sér jarðnæði til eigin afnota.

Eins og segir í greinargerðinni, þá var það algengt hér áður fyrr, að frumbýlingar tóku jörð á leigu með nokkrum kúgildum og hófu búskap og stundum því nær með tvær hendur tómar að öðru leyti. Þrátt fyrir það farnaðist þessum mönnum alloft vel. Nú eru þessar aðstæður ekki lengur fyrir hendi. Flestir, sem nú byrja búskap og ekki hafa fengið jörð eða jarðarpart að erfðum, verða að byrja á því að kaupa sér jarðnæði til ábúðar. Og aðrir, sem hafa stundað búskap og þurfa af einhverjum ástæðum að flytja af ábýlisjörð sinni, verða annaðhvort að kaupa sér jarðnæði eða þá að bregða búi. Jafnframt þessu hefur jarðarverð stórhækkað í verði, fyrst og fremst fyrir aukna ræktun og svo fyrir bætt húsakynni og enn fremur sökum þeirrar lækkunar á verðgildi peninga, sem við þekkjum allir. Það er þess vegna svo komið, að nú þarf miklu hærri fjárhirðir til jarðarkaupanna en áður þekktist.

Það eru fæstir svo efnum búnir, að þeir geti greitt jarðarverð af eigin fé, og þeir verða þess vegna að fá lán til jarðarkaupanna eða þá leggja árar í bát að öðrum kosti og flytja á mölina, en því hefur verið þannig háttað nú um langt skeið og fer heldur versnandi, að lánsfé til jarðarkaupa hefur ekki legið á lausu. Það má heita, að þess hafi verið enginn kostur, nema að því leyti sem veðdeild Búnaðarbankans hefur reynt að hlaupa undir bagga og þó af lítilli getu. En nú er svo komið, að þessi brunnur er svo að segja þurrausinn, því að veðdeildin er komin í miklar skuldir við sparisjóðsdeild bankans, svo að þetta er að lokast.

Það er ekki neinum efa undirorpið, að margt fólk hefur yfirgefið sveitirnar á undanförnum árum gegn vilja sínum, sökum þess að það fékk hvorki leigujarðnæði né átti kost á nauðsynlegu fé til jarðarkaupa, og það er þess vegna áríðandi, að þetta mál fái mjög skjóta úrlausn. Og margir bíða aðeins eftir því, hvort nokkuð rætist úr í þessu efni. áður — en þeir leita burt til annarra starfa, sem mundi að sjálfsögðu verða sveitunum til óbætanlegs tjóns.

Sú leið, sem n. hefur valið til þess að leysa þetta, er í raun og veru ekkert nýmæli, því eið t.d. í ræktunarsjóðslögunum frá 1935 segir, að ríkisstj. skuli semja sérstaklega við Landsbanka Íslands um það, að hann kaupi verðbréf sjóðsins, jarðræktarsjóðsins eða ræktunarsjóðsins, er nemi allt að 1 millj. og 400 þús. kr. Og enn fremur er þar mælt svo fyrir, að fé brunabótasjóðs og fleiri stofnana skuli nota að nokkru til þess að kaupa slík bréf.

Með lögum um Búnaðarbanka Íslands frá 1941 voru þessi ákvæði um verðbréfakaup Landsbankans numin úr gildi, enda mun Landsbankinn þá hafa verið búinn að inna það af hendi, sem á hann var lagt með fyrrgreindum lögum. En hins vegar hygg ég, að ákvæðin um, að opinberir sjóðir keyptu verðbréfin, hafi ekki komið til framkvæmda, enda muni ekki hafa verið eftir því gengið. Eftir því sem n. hefur verið tjáð, þá keypti Landsbankinn árlega, meðan samningurinn gilti, jarðræktarbréf fyrir um 300 þús. kr., sem mætti nú áætla að jafngiltu allt að 3 millj. kr. á ári. Þetta er ekki nein smáræðis upphæð, og þegar litið er á ástæður Landsbankans nú, þá finnst nefndinni ekki vera til mikils mælzt, þó að bankinn keypti árlega á næstu árum veðdeildarbréf fyrir meginhluta þeirrar upphæðar, sem hér er lagt til að verði keypt, því að hér er áreiðanlega um að ræða ástand, sem allir hljóta að vera sammála um að sé óheillavænlegt fyrir landbúnaðinn og verði undir öllum kringumstæðum að ráða fram úr hið allra fyrsta.

Nefndin hefur ástæðu til þess að ætla, að ríkisstj. sé velviljuð þessu máli, og væntir þess vegna, að það geti gengið greiðlega fram í gegnum þingið og verði afgr. á þessu þingi sem lög frá Alþingi.