15.03.1954
Efri deild: 61. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar umr. um þetta mál var frestað fyrir nokkrum dögum, þá stóðu málin þannig, að hæstv. dómsmrh. hafði óskað eftir vissum upplýsingum, nokkuð óákveðnum þó, um lánastarfsemi bankanna, áður en hann fyrir sitt leyti gæti samþ. þá brtt., sem hér lá fyrir, en hún var sú að hækka það lánsfé, sem veðdeild Búnaðarbankans yrði útvegað, úr 800 þús. í 1.2 millj. Ég hef síðan reynt að afla mér upplýsinga um útlán bankanna, og í þessu sambandi er það þó sérstaklega sjálfur Búnaðarbankinn, sem hæstv. ráðh. óskar upplýsinga um. Það er nú úr hörðustu átt að vísu, að ráðh. biðji um þessar upplýsingar, því að þessar upplýsingar eru alltaf annað slagið gerðar upp í bönkunum og sendar hæstv. ríkisstjórn sem algerlega heimulegt plagg, sem helzt ekki er óskað eftir að sé birt. En þegar ráðh. biður mig nú um þessar upplýsingar, þá kemst ég ekki hjá því að nefna þær, þó að þær eigi að vera hálfheimulegar. En til þess að gera þær sem minnst opinberar, þá ætla ég að fara með þær í prósenttölu, en hins vegar nefna ekki neinar krónuupphæðir.

Hvað Búnaðarbankann snertir, þá voru um áramótin — en þá var síðasta skýrslan — 58.1% af útlánum hans bundið við landbúnaðinn, 1% í sjávarútvegi, 12.5% hjá kaupmönnum og kaupfélögum, 10.8% hjá iðnaðarmönnum, 5.2% í byggingum, 0.4% í samgöngum, — þetta er allt prósentvís, — 1% hjá ríkinu, 3.3% hjá bæjar- og sveitarfélögum og 7.7% í ýmsu, og af þessum 7.7% er óhætt að bæta við landbúnaðinn nokkru, því að það er í ýmsum greinum, sem standa honum mjög nærri, og sama mætti segja um iðnaðinn, svo að talan af lánsfénu, sem stendur í landbúnaðinum, er í raun og veru hærri en þessi 58.1%. Á sama tíma stóð svo hjá Landsbankanum, að 5.6% af hans útlánum voru í landbúnaði, 34% í sjávarútvegi, 26.2% í verzlun, 4.1% í iðnaði, 2.8% í byggingum, 2% í samgöngum, 10,4% hjá ríkinu, 7.4% hjá bæjar- og sveitarfélögum, 3.2% í ýmsu og 3.8% hjá ríkisverksmiðjunum. Og hjá Útvegsbankanum voru 0.5% í landbúnaði, 49.6% í sjávarútvegi, 24.8% í verzlun, 13.8% í iðnaði, 3.9% í byggingum, 0.2% í samgöngum, 1.7% hjá bæjar- og sveitarfélögum, 5.5% í ýmsu.

Svona var nú útlánunum hagað um áramótin. Svona fóru þau prósentvís í atvinnuvegina.

Nú virtist mér ráðh. telja, að það, sem einkum vekti fyrir honum, væri, hvort Búnaðarbankinn væri ekki með sína lánastarfsemi á rangri hillu, þannig að hann gæti dregið úr lánastarfsemi t.d. hér í Reykjavík og tekið þessa 1.2 millj. úr sjálfs hendi, sem ætlazt er til að frv. geri mögulegt að bændurnir geti fengið til lána úr veðdeildinni.

Viðvíkjandi þessu er nú það að segja fyrst og fremst, að það er náttúrlega alltaf matsatriði, hvort þetta er hægt eða ekki. Þegar við lítum nú á bankana og samanburðinn, þá kemur t.d. fram, að varasjóður Landsbankans fyrir utan seðlana er meira en tífaldur á við Búnaðarbankans, og þó er það svo, að eins og 4. þm. Reykv. sagði hér við síðustu umr., þá kallar þörf að byggja hús, íbúðarhús, og að geta veitt lán úr veðdeild ekkert minna á í bæjum heldur en í sveit. En þrátt fyrir þetta hefur Landsbankinn með sína miklu varasjóði og sinn milli 30 og 40 milljóna króna hagnað árlega ekki séð sér fært að lána veðdeild bankans neitt af sínu fé, svo að hún gæti lánað meira út. Þvert á móti átti veðdeildin um áramótin inni hjá bankanum. Aftur á móti hefur Búnaðarbankinn, til þess að reyna að leysa vandræði þeirra manna, sem reynt er að leysa hér með þessu frv., lánað veðdeildinni hjá sér úr sparisjóði á þriðju millj., til þess að hún gæti leyst vandræði manna, sem var allra verst ástatt með og líkur voru til, að hætta yrðu beinlínis búskap, ef þeir gætu ekki fengið veðdeildarlán. Aðstaða þessara tveggja banka til þess að fullnægja þessari lánaþörf manna, sem þurfa á veðdeildarlánum að halda, hefur þess vegna verið ákaflega misjöfn. Og Búnaðarbankinn hefur a.m.k. sýnt þar viðleitni, sem er þess eðlis, að það er engin ástæða fyrir hv. alþm. annað en að viðurkenna hana og hjálpa til, að hann geti gert hana sem bezta. Enn fremur hefur Búnaðarbankinn úr sínum sparisjóði lánað byggingar- og ræktunarsjóði, sem báðir eru í vörzlum bankans, og átti útistandandi hjá þeim, sem talið er í landbúnaðarlánunum í síðustu greininni, sem ég nefndi áðan, milli 9 og 10 millj. um síðustu áramót, líka til þess að þeir menn, sem væru að byggja yfir höfuðið á sér í sveitinni, og þeir menn, sem eru að rækta í sveitinni, gætu haldið áfram með það, þó að bankinn væri fjárvana, deildirnar, sem áttu að lána, væru fjárvana, og þess vegna hefur hann með sparisjóðnum gert þetta. Nú veit maður ekkert, hvernig þetta verður í framtíðinni og hve létt verður fyrir hann í framtíðinni að lána svona lagað úr sparisjóðnum til að geta komið á móti beiðnum manna. En hvort tveggja þessi dæmi sýna, að Búnaðarbankinn hefur mjög sterkan vilja á að gera það og sterkari en Landsbankinn, sem þó ætti að hafa betri aðstöðu til þess að geta veitt úrlausn í sinni veðdeild, sem hann ekki hefur gert, — og ég er ekkert að álasa honum fyrir það sérstaklega, það er mikið fé, sem þar er um að ræða, og það er Alþingis að sjá fyrir því, — en hann hefur heldur engan vilja sýnt á því.

Nú veit ég ekki, hvort hæstv. ráðh. óskar, að ég fari nánar út í þessa sálma. Ég hef reynt að skýra, hvernig lánsfé bankanna allra þriggja, sem útistandandi var um áramótin, skiptist á milli atvinnuveganna. Ég hef sýnt fram á, að Búnaðarbankinn hefur ekki, eins og mér virtist helzt koma fram hjá honum, hliðrað sér hjá að lána út um sveitirnar, heldur lúna hér í bæinn. Það er meiri hlutinn af hans útlánum um áramótin út um sveitir, og mikill meiri hluti, þegar tillit er tekið til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs. Hjá Útvegsbankanum eru bara 49.6% í sjávarútvegslánum, hitt er í öðru. Hjá Landsbankanum eru bara 34% í sjávarútvegslánum o.s.frv., svo að ég sé ekki, að það sé á nokkurn hátt með nokkrum sanni hægt að segja, að Búnaðarbankinn hafi þarna sniðgengið sitt hlutverk og eigi að hefnast fyrir það með því að útvega honum ekki í veðdeildina þetta fé, sem hér er farið fram á í frv. Ég treysti þess vegna því, að frv. verði samþykkt.