03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að söluskatturinn, sem fyrst var á lagður 1948, sé framlengdur um eitt ár enn, en samkv. honum renna nú í ríkissjóð um 90 millj. kr. Er hann sá af tekjustofnum ríkisins, sem mestar tekjur gefur í ríkissjóð. — Þegar þessi skattur var á lagður árið 1948, var það gert í sambandi við viðleitni þáverandi hæstv. ríkisstj. til að koma í veg fyrir gengislækkun krónunnar. Það tókst á því ári og hinu næsta einmitt með því m.a. að innheimta allmikið fé í ríkissjóð og nota það til að greiða verðuppbætur á þær útflutningsafurðir sjávarútvegsins, sem helzt voru taldar uppbótarþurfi. En það tókst ekki nema í um það bil tvö ár að koma í veg fyrir lækkun krónunnar með þessum aðgerðum og þeirri stefnu, sem ríkisstj. fylgdi að öðru leyti.

Þess vegna var gengi krónunnar lækkað af nýrri ríkisstj., sem við völdum tók vorið 1950. Þar með var í raun og veru ástæðan fallin brott fyrir álagningu söluskattsins tveim árum áður. Út yfir tók þó, þegar í ljós kom, að gengislækkunin, sem ætluð var til styrktar bátaútveginum og átti að leysa fjárhagsvandræði hans og önnur vandræði útflutningsatvinnuveganna, reyndist ekki nægileg og tekið var upp nýtt form á gengislækkun, bátagjaldeyriskerfið, sem fært hefur bátaútveginum um það bil 60 millj. kr. í styrk árlega. Svarar það í raun og veru til þess, að söluskatturinn hafi enn verið hækkaður um 60 millj. og tekjurnar greiddar bátaútvegsmönnum, þótt þetta fé hafi ekki runnið um hendur fjmrh. eða um ríkissjóðinn. Þau rök, sem flutt voru fyrir því á Alþingi 1948, að nauðsyn bæri til þess að leggja á söluskattinn, eru því fyrir löngu úr gildi fallin, og hefði því átt að vera hægt að afnema söluskattinn aftur, en það hefur ekki verið gert, heldur hefur hann hin síðustu ár runnið til almennra þarfa ríkisins.

Það er rétt, sem hv. þm. V-Húnv. sagði, að eins og fjárlagafrv. er núna, ber það með sér, að ríkissjóður hafi þörf fyrir þessar tekjur, sem það fær með söluskattinum, en skattalögin hafa nú í nær tvö ár verið í almennri endurskoðun. Eitt markmið þeirrar endurskoðunar ætti auðvitað að vera að taka upp skattakerfi í landinu, sem gerir slíka skattheimtu og söluskattinn óþarfa. Þangað til till. liggja fyrir frá skattamálanefndinni, telur Alþfl. ekki koma til mála að gjalda jáyrði við þeirri skattheimtu, sem í söluskattinum felst. Hann telur það einmitt eiga að vera eitt af meginverkefnum skattalagaendurskoðunarinnar að taka upp þar þess konar skattakerfi, að innheimta söluskatts í því formi, sem hann hér er innheimtur, verði óþörf. Þess vegna er það aðaltill. Alþfl., að þetta frv. verði fellt, og vísar í því sambandi til endurskoðunar skattalöggjafarinnar, sem nú stendur yfir og ekki er séð fyrir endann á.

Það kemur hins vegar fram í afstöðu hv. meiri hl. fjhn., að þessu frv. muni vera ætlað að ná fram að ganga, auk þess sem fjárlagafrv. ber vott um, að ráð sé fyrir því gert. Þess vegna hef ég talið rétt að leggja til, að fjórðungur af söluskattinum renni í sveitarsjóði, eða til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fyrir tveim árum var fjárhagur sveitarsjóðanna allmikið ræddur einmitt hér í þessari hv. deild. Að því voru leidd óvefengjanleg og óyggjandi rök, að hag sveitarsjóðanna væri þannig komið, að óforsvaranlegt væri annað en sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum. Margir sveitarsjóðanna voru þá og eru enn í fjárþröng og hafa t.d. ekki getað staðið í skilum með ýmis lögboðin gjöld til ríkissjóðs. Þess vegna töldu fjölmargir þm. hér í þessari hv. d. þá nauðsynlegt að gera tafarlausar ráðstafanir til þess að bæta hag sveitarsjóðanna með nýjum tekjustofnum, og það kom fram tillaga — ef ég man rétt fleiri en ein — um það að leysa fjárhagsvandræði sveitarsjóðanna á þann hátt að ætla þeim nokkurn hluta af söluskattinum, en svo sem kunnugt er, þá er söluskatturinn einmitt að mjög verulegu leyti innheimtur í kaupstöðunum, þannig að það eru kaupstaðabúar, sem greiða mestan hluta hans, og því mjög eðlilegt, að nokkur hluti hans gangi einmitt í sveitarsjóðina.

Hér í þessari hv. deild var fyrir tveim árum samþ. tillaga alveg samhljóða þeirri, sem ég hef nú leyft mér að flytja, og var þá flutt af hv. 7. þm. Reykv., borgarstjóranum í Rvík. Það reyndist meiri hl. fyrir þessari till. í hv. d. þá. Henni var þó komið fyrir kattarnef af hæstv. ríkisstj. á þann hátt, að hæstv. þáverandi forsrh. lýsti því yfir, að ef d. héldi fast við þessa skoðun sína og samþykkti þessa till. enn við 3. umr. og ef hv. Ed. gerði slíkt hið sama, þá mundi ríkisstj. segja af sér. Við þessa yfirlýsingu glöddust ýmsir, ef þetta mál gæti orðið til þess, að þing og þjóð losnaði við þá ríkisstj., sem þá sat. Þessi gleði stóð í nokkra daga, en hún reyndist því miður skammvinnari en hún hefði átt að reynast, því að hæstv. ríkisstj. tókst að kúska nokkra af fylgismönnum sínum í hv. Sjálfstfl. til þess að snúa frá yfirlýstri skoðun sinni á málinu og greiða við 3. umr. atkvæði gegn till., sem þeir höfðu samþ. við 2. umr. Ég efast ekki um, að þeim hv. þm., sem greiddu till. atkvæði þá og enn eiga sæti á hinu háa Alþingi, muni enn vera ljós hin brýna nauðsyn þess að bæta fjárhag sveitarfélaganna og þeir muni enn vera þeirrar skoðunar, að það sé eðlileg og réttlát aðferð að fara þá leið til þess að láta hluta af söluskattinum renna í sveitarsjóðina. Ég ber þessa tili. fram nú í trausti þess, að þeim hafi aukizt svo kjarkur síðan fyrir tveim árum, að þeir séu nú reiðubúnir til þess að vera þessari skoðun trúir og standa við hana við atkvgr. Ég sé að vísu, að hv. 7. þm. Reykv., borgarstjórinn í Rvík, sem fastast mælti fram fyrir slíkri till. fyrir tveim árum, er ekki staddur á fundi. Þess vegna vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta, að þessi till. komi ekki til atkvæða fyrr en á næsta fundi deildarinnar, þegar hann og fleiri menn, sem ég veit að gera sér algerlega ljósa nauðsyn þess, að einhver slík ráðstöfun sé gerð til þess að efla hag sveitarfélaganna, eigi kost á því að vera viðstaddir atkvæðagreiðsluna.

Ég leyfi mér sem sagt að vænta þess, að hið háa Alþingi, sem kosið var nú á s.l. sumri, hafi sömu skoðun og kom fram í atkvgr. við 2. umr. hliðstæðs máls fyrir tveimur árum, og að þeir hv. þm., sem þá samþykktu þá hugmynd, sem í till. felst, við 2. umr. og eiga enn sæti á þingi, haldi nú fast við skoðun sína og láti engin annarleg öfl eða annarleg sjónarmið hrekja sig frá henni. Þá nær þessi till. samþykki hér í þessari hv. d., og þá er leyst úr mjög brýnu vandamáli fyrir sveitarfélögin í landinu.