19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þó að mikið megi um þetta segja og sé reyndar búið að segja, skal ég nú ekki fara að lengja þessar umr. mikið. Það virðist að sumu leyti óþarfi og kannske að öllu leyti óþarfi.

Hæstv. dómsmrh. vitnaði í grein í lögunum um Búnaðarbankann og sagði, að tilgangur bankans væri að styðja landbúnaðinn og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu. Þetta er rétt. Hann sagði enn fremur, að það væru þverbrotnar af bankanum allar þær reglur, sem til hafði verið ætlazt að hann starfaði eftir, og hann væri þar algerlega á rangri línu, starfaði frá öðrum sjónarhól en honum hafi verið ætlað með því að lána mikið í annað en landbúnaðinn.

Nú langar mig til að heyra af munni hæstv. ráðherra skilgreininguna á þessu, að lána til að styðja landbúnað og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda landbúnaðarframleiðslu, hver hún væri. Ég veit vel, að það er reynt annað slagið að flokka útlánin eftir því, til hvaða atvinnurekstrar er talið að það sé. En mér skilst, að sú flokkun sé ákaflega hæpin og nái ekki út fyrir öll tilfelli, og skal nefna nokkur dæmi til að útskýra fyrir ráðherranum, hvað ég meina.

Ég skal nefna kaupmann hérna í Reykjavík, sem á frystihús. Hann kaupir í það kjöt frá a.m.k. tveimur ákveðnum verzlunum úti á landi á haustin, og þar með aflar hann sér birgða yfir veturinn og gerir kaupmönnunum, sem selja honum þetta kjöt, mögulegt að borga það út til bænda. En til þess að þetta geti orðið, þá þarf kaupmaðurinn, sem kaupir kjötið í Reykjavík, að fá lán. Er það veitt til að greiða fyrir viðskiptum fyrir þá, er stunda landbúnaðarframleiðslu, eða fyrir verzlunina? Það er sett í flokk lána, sem eru veitt til verzlananna, kaupmannanna. Lánið er allhátt, og ég nefndi það sem dæmi þess vegna.

Ég vil nefna annað dæmi. Það er verið að reyna að fá vélar til landsins. En hæstv. ríkisstj. hefur reynt að setja fót fyrir það, eins og hún hefur getað, alla tíð þangað til kannske nú í ár, ég veit það ekki enn þá. Hún lét setja þau skilyrði í fyrra, að það kæmi ekki til mála, að það yrði látið út leyfi fyrir neinni slíkri vél. nema borgaður yrði meginhluti af andvirði hennar áður en hún væri pöntuð og nokkrum mánuðum áður en hún kæmi. Bændurnir þurftu að fá lán til þess að geta borgað þetta. Og það var búið að undirstinga Búnaðarbankann af ríkisstj. um, að hann mætti ekki lána úr ræktunarsjóði til slíkra hluta. Hann gat það ekki. En það þurfti lán, til þess að hægt væri að borga vélarnar og fá leyfið, því að Búnaðarbankinn hefur aldrei fengið aura fyrir að fara með gjaldeyri, það hafa verið sérréttindi hinna bankanna. Það eru sérréttindi þeirra að fá að taka 2–4% af öllum gjaldeyri, sem landbúnaðurinn fær. Búnaðarbankinn hefur ekki fengið það. Það eru hinir bankarnir, sem hafa haft ágóða af því. Og þeir bændur ýmsir, sem ekki gátu tekið út úr sparisjóðnum strax eða verzlunum sínum hingað og þangað til þess að geta borgað löngu áður en þeir fengu vélarnar, — en það urðu þeir að gera vegna aðgerða ríkisstj., — urðu að fá lán í bili, og munu þau talin til verzlunarlána. Voru þetta lán til landbúnaðarins? Til hvers voru þau veitt? Þau eru ekki flokkuð undir landbúnaðarmál. En til hvers voru þau veitt?

Svona gripur þetta hvað inn í annað. Ég held þess vegna, að þegar hæstv. ráðh. fullyrðir, að það sé ekki nema lítill hluti af þessum útlánum Búnaðarbankans í landbúnaðinum, það sé í ýmsu öðru, þá sé erfitt að segja, hvað mikið það sé, en hluti landbúnaðarins sé alltaf til muna meiri en tölurnar segja til um, eins og þeim er skipt niður, þegar verið er að flokka útlánin í bönkunum eftir atvinnulífinu.

Þá vil ég leyfa mér, án þess þó að fara langt út í það mál, áð benda á einstaka atriði, sem ræða ráðherrans gefur tilefni til, en ég ætlaði mér alls ekki að fara út í. Ég skal þá fyrst benda á það, að Búnaðarbankinn hefur skyldur til þess að reyna að veita mönnum stofnlán bæði úr byggingar- og ræktunarsjóði. Veðdeild Landsbankans hefur skyldur til að reyna að veita mönnum lán út á fasteignir, veðdeildarlán. Búnaðarbanki Íslands hefur varasjóð, sem núna er orðinn nokkrar milljónir, — hann er orðinn svona líklega þrítugasti hluti af þeim varasjóði, sem Landsbankinn á, fyrir utan þó seðlana, sem Landsbankinn hefur þar fram yfir. Búnaðarbankinn hefur lánað þessum tveimur sjóðum, byggingar- og ræktunarsjóði, sem eiga að lána svona lán, úr sparisjóðnum hér um bil átta milljónir og alltaf eitthvað núna í síðastliðin þrjú ár. Hvað hefur Landsbankinn með að minnsta kosti 50 sinnum meiri möguleika lánað mikið úr sparisjóði frá sér til veðdeildarinnar? Hvað er það há upphæð, herra ráðherra, sem hann hefur lánað? Hvernig hefur Landsbankinn reynt að greiða fyrir sínum viðskiptamönnum, þ.e. þeim, sem þurfa að halda á veðdeildarlánum? Hann hefur ekki gert neitt. Hann hefur ekki einu sinni talað um, að það þyrfti að fá nýjar „seríur“ í veðdeildina, og ekki gert neina tillögu um, hvernig ætti að gera bréfin söluhæf, og ekki lánað einn einasta eyri úr sínum varasjóði, sparisjóði eða seðlabankanum til þess. Undir Útvegsbankann heyrir sjóður, fiskveiðasjóður, sem ætlað er að lána í báta og hefur gert það. Hann er líka þurrausinn eins og aðrir sjóðir. Hefur bankinn lánað mikið af sparifé sínu til þess að hjálpa honum til að hlaupa undir bagga um að lána, síðan hann varð félaus? Búnaðarbankinn hefur lánað nú um áramótin seinustu liðugar 2 millj. í veðdeildina úr sparisjóðsdeildinni fram yfir það, sem til var í henni. Hefur Útvegsbankinn gert það sama til þess að reyna að koma á móti mönnum, sem alveg nauðsynlega þurfa að fá sér nýja báta eða lán úr fiskveiðasjóði? Hefur hann fundið, að hann hefði sömu skyldum að gegna eftir lögunum eins og Búnaðarbankinn hefur fundið? Ég held ekki. Ég hef ekki orðið var við það. Ég hef aldrei séð í reikningunum, að Landsbankinn hafi lánað einn einasta eyri til veðdeildarinnar. Þvert á móti, veðdeildin á alltaf inni í sparisjóðnum. Ég hef ekki heldur séð, að sparisjóður Útvegsbankans hafi lánað einn eyri til fiskveiðasjóðs, heldur hið gagnstæða.

Ég held þess vegna, að það sé ákaflega missagt, að Búnaðarbankanum hafi verið stjórnat5 ákaflega illa. Ég held honum hafi eiginlega verið stjórnað langbezt af þessum bönkum hvað þetta snertir. Það kynni þá að vera frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja láta lána sér og siðan fá eftirgjöf á skuld sinni. Maður sér á hverju einasta ári, að það er gefið eftir mikið af skuldum, bæði í Landsbankanum og Útvegsbankanum, sem taldar eru tapaðar, og skiptir það milljónum. Og maður sér líka meira, því að orðunefndin venjulega „honorerar“ þá, sem fá eftirgjöf hjá bönkunum, með því að veita þeim kross fyrir það, hvað þeir hafa verið duglegir að fá þar gefið eftir. Það hefur aldrei komið fyrir Búnaðarbankann. Hann hefur ekki gefið neitt eftir. Hann hefur engri skuld tapað. Honum hefur verið stjórnað þannig, að hann hefur ekki þurft að gefa neitt eftir. Að þessu leyti hefur honum verið öðruvísi stjórnað en hinum bönkunum. Og það er kannske þess vegna, sem ráðberrann vill ekki, að hinir bankarnir, sem hafa fé aflögu, eða aðrar stofnanir, sem hafa aflögu, hlaupi hér undir bagga og sjái um, — ekki að leysa þörfina fyrir veðdeildarlán, því að þessar lánsstofnanir geta aldrei gert það með þessu, — það er bara svolítill angi af þeim fyrir þá, sem eru allra mest þurfandi og annars yrðu að hverfa úr framleiðslunni og yfir á mölina og ganga í hóp verkamanna til þess að reyna að fá atvinnu. Það er aðeins brot af þeim hóp manna, sem annars gera þetta, sem reynt er að greiða fyrir með þessu frv., ég annað ekki.

Ég held þess vegna, að það sé ákaflega mikill misskilningur að halda, að Búnaðárbankanum að þessu leyti hafi verið stjórnað illa, honum hafi þvert á móti verið stjórnað ágætlega, honum hafi verið stjórnað þannig, að hann hafi farið fram yfir það, sem lagaákvæði segja, í því að reyna að greiða fyrir þeim mönnum, sem ætlað er sérstaklega að skipta við bankann, bændunum. Hann hefur lánað af sparisjóðsfénu bæði í byggingarsjóð og ræktunarsjóð um s.l. áramót um 8 millj. og enn fremur í veðdeildina um 2 millj. Tilsvarandi skyldur ættu að hvíla á bankastjórn Landsbankans gagnvart veðdeildinni og bankastjórn Útvegsbankans gagnvart fiskveiðasjóði, sem ættu þá að lána þessum stofnunum af sínum varaforða og sínu sparisjóðsfé til þess að geta sinnt þörfum manna svipað og Búnaðarbankinn hefur gert, en það hafa þær ekki gert, og að því leyti tel ég að þeim hafi verið verr stjórnað. Hins vegar hafa þær lánað með lélegum tryggingum og tapað skuldum og afskrifað af lánunum á þann hátt, og það er kannske það, sem ráðherranum finnst vera betur gert hjá þeim bankastjórum heldur en hjá bankastjóra Búnaðarbankans.

Ég vona, að menn fleyti þessu litla frv. óbreyttu í gegn. Það bjargar ekki miklu, það getur þó bjargað milli 30 og 40 mönnum á dri frá því að þurfa að hætta búskap og hverfa yfir á mölina og í hóp verkamanna. Og allir segja nú, að það séu nógir þar fyrir, jafnvel þó að haldið sé uppi Keflavíkurvinnu til að láta menn hafa eitthvað að gera. En allir eru, held ég, sammála um, að frekar eigi að halda mönnum að framleiðslunni en fjölga verkamönnum á mölinni.