19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Það er nú ýmislegt dálítið skemmtilegt, sem kemur fram í þessum umr. Það er eitt meðal annars uppistaðan hjá hæstv. dómsmrh., að Búnaðarbankinn láni of mikið til Reykjavíkur, en of lítið út um land, eftir því sem hans blað a.m.k. skýrir frá umr. í gær. Það var fróðlegt að heyra það, og á því getur maður séð, af hvaða einlægni ástæða er til að halda áð þetta sé mælt. Og þegar rætt er um þessi mál, þá vil ég halda því fram, að ég hafi ekki farið út fyrir það að ræða um þau af fyllstu einlægni. Það væri fróðlegt að heyra, hvernig syngi í sumum mönnum, ef tekin hefði verið upp sú pólitík, sem raunverulega er verið að fara fram á að Búnaðarbankinn fylgi, að festa sparifé, sem hann tekur á móti, aðallega hér í Reykjavík, í 30 og upp í 42 ára lánum Með 21/2% og með 41/2%. Hvað haldið þið, að hefði verið sagt? Hv. 4. þm. Reykv. tók á þessu með fyllstu sanngirni. Hvað haldið þið, að hefði verið sagt, og hvað haldið þið, að það hefði tekið langan tíma að koma bankanum í strand, ef slík bankastarfsemi hefði verið rekin eins og verið er að finna að, að bankinn skuli ekki reka? Hvað haldið þið, að bankinn hefði lengi haldið því trausti, sem hann hefur núna til að safna sér sparifé? Ef Búnaðarbankinn hefði rekið þá pólitík, sem hæstv. dómsmrh. telur að hann eigi að reka — hvað þá? Það hefði verið blað eftir blað og ár eftir ár ráðizt á Búnaðarbankann fyrir slíka pólitík og með réttu, af þeirri einföldu ástæðu með réttu, að það er ekki hægt að reka slíka bankapólitík án þess að setja bankann ekki aðeins í hættu, heldur út í alveg vissa stöðvun eða í þá aðstöðu, sem sumar aðrar bankastofnanir hafa komizt í, að þurfa stöðugt að leita til þjóðbankans til þess að geta haldið sér á floti. — Sannleikurinn er sá, að það hefur verið lánaður úr Búnaðarbankanum til landbúnaðarins og til starfsemi hans hver einasti eyrir, sem hefur verið fært að gera, um leið og hefur verið fylgt heilbrigðum reglum um örugga bankastarfsemi, en aldrei farið út yfir þau mörk. Þessar tvær höfuðreglur verður bankinn að setja sér og má út af hvorugri víkja. Hann verður að fara eins langt í því að styrkja landbúnaðinn með sinni lánastarfsemi og hann getur án þess að setja sig í hættu, en hann má heldur aldrei setja fjármuni sína í hættu, þannig að hann eigi ekki skilið það traust, sem hann hefur hjá sparifjáreigendum, sem trúa honum fyrir sínu sparifé. Þetta hefur nú verið rakið m.a. af hv. 1. þm. N-M., sem hefur sýnt fram á þetta. Ég hef ekki rætt hér um aðrar lánsstofnanir og starfsemi hinna bankanna, ég hef ekki gert það með einu einasta orði. Ég hef sagt, að allir, sem hafi litið á starfsemi Búnaðarbankans, hafi verið sammála um, að hann sé a.m.k. eins vel rekinn og nokkur önnur lánsstofnun í landinu.

Viðkomandi öðrum lánsstofnunum hefur það verið upplýst af öðrum en mér, að þær sérdeildir, sem eiga að lána, t.d. í þjóðbankanum til húsabygginga. veðdeildin, eigi inni í bankanum, en kaupi þó ekki veðdeildarbréf.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég væri að státa af ríkidæmi Búnaðarbankans. Það er alveg þvert á mótí. Ég hef sýnt fram á það, að við höfum örlitla möguleika samanborið við þjóðbankann, sem liggur með 300 millj. í vaxtalausum seðlum, sem hann hefur vaxtalaust frá ríkinu, og getur hver maður reiknað út, hvað margar milljónir það eru á ári í tekjum. Við eigum ekkert slíkt, við eigum sparifé frá almenningi, sem hann trúir okkur fyrir, og höfum farið þannig með það í okkar starfsemi, að bankinn hefur vaxið að trausti. Við höfum ekki haldið því fram, að við værum neitt svipað því eins sterkir og hinir bankarnir — að þessu leyti. En þegar við lítum á málið út frá þessu sjónarmiði, sem hv. 1. þm. N-M. upplýsti hér, þá er það svo, að þjóðbankinn, sem hefur þetta fjármagn, hefur ekkert lagt til sinnar veðdeildar, þó að við höfum stundum lagt okkar veðdeild allt að 2 millj., heldur er það jafnframt upplýst, að sérdeildin í Útvegsbankanum, sem á að lána til báta og er alveg hliðstæð því að lána til jarðakaupa, hefur ekkert fengið lánað úr sparisjóði bankans. Eftir þessum upplýsingum, sem 1. þm. N-M. kemur hér með, hafa þess vegna báðir þessir bankar rækt á allt annan hátt sérskyldu sína heldur en Búnaðarbankinn.

Viðkomandi því, sem hæstv. ráðh. og hv. 4. þm. Reykv. töluðu um, að það væri engin ný uppfinning, að það væri ekki hægt að reka bankastarfsemi þannig að ávaxta fé með hærri vöxtum í sparisjóði en bankinn fær af þeim lánum, sem hann veitir úr sama sjóði, þá er það sjálfsagt rétt, að það er ekki ný uppgötvun. En það virðist ekki vera nein vanþörf á því að rifja það upp hér í þessari hv. d., að í þennan knérunn er búið að höggva í Búnaðarbankanum, eins og hæstv. dómsmrh. kannaðist við, og það ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur hvað eftir annað. Ég lét í ljós og hafði ástæðu til að láta í ljós áhyggjur mínar út af því máli hér s.l. vetur, einmitt hér í þessari hv. d., þegar rætt var um þessa lánastarfsemi. Og ég hef upplýst það hér án þess að fara nánar inn á rökræður um það atriði, að við höfum að sjálfsögðu látið athuga það, hvað við getum lengi staðið undir þessari starfsemi með okkar sérsjóðum í byggingarsjóði og ræktunarsjóði og þeim óafturkræfu lánum, sem mynda að vísu um leið sjóði og eign hjá bankanum. Við höfum athugað það, og ég fullyrði, að með því að höggva enn í þennan sama knérunn og láta bankann taka á sig vaxtahallann af því fé, sem verður lánað úr sparisjóðnum til veðdeildarinnar, er lengra gengið en hægt sé við að una.

Það eru alveg rétt rök hjá hæstv. ráðh., að hann sagði: Ja, þetta fé, sem frv. gerir ráð fyrir, verður tekið annars staðar og þá sennilega með hærri vöxtum en veðdeildin lánar það út. — Um það atriði er mér ekki kunnugt. Ég hef álitið, að þetta frv. hafi komið frá ríkisstj. og hún hafi verið sammála um það í meginatriðum, og ég hef gert ráð fyrir því, að hún hafi rætt um það, hvernig ætti að mæta þessum vaxtamismun, sem verður þarna á milli útlána úr veðdeild og vaxtanna af þeim lánum, sem verða tekin í þeim stofnunum, sem frv. gerir ráð fyrir. Og ef það er ætlunin, að sparisjóðurinn fái með einhverju móti greiddan vaxtamismuninn, þá horfir þó málið að því leyti öðruvísi við. En þegar talað er um hitt atriðið, að við höfum næga peninga til þess að festa, þá er því heldur alls ekki þannig háttað. Bankinn hefur að vísu vaxtalaust fé meira en flestar aðrar lánsstofnanir, það er rétt. En hæstv. ráðh. segir, að ég sé að státa af því, að við höfum stóra sjóði. Þetta er alls ekki satt, af þessu hefur mér ekki dottið í hug að státa. Ég hef sagt, að við værum neyddir til að hafa svo stóra sjóði í okkar litla banka, að við gætum alltaf svarað þeim kröfum, sem sparifjáreigendur gera til okkar, og það er að geta greitt út spariféð, hvenær sem sparifjáreigendur óska, og ég get upplýst það viðvíkjandi okkar tryggingum, sem hér er spurt um, að okkur er skylt að hafa, eftir lögum bankans, 15% af okkar sparifé í ríkisskuldabréfum eða ríkistryggðum bréfum, og mikill meiri hluti eða næstum allt í þessum öryggissjóði eru ríkísskuldabréf eða ríkistryggð bréf. Það er hægt að segja það hér til þess að vera ekki að fara með neinar ónákvæmar tölur, að það er á milli 9 og 10 millj. af 14–15, sem við eigum að hafa, svo að það er ekki neinum blöðum um það að fletta. En þegar þess er nú jafnframt gætt, að bankinn þarf til viðbótar að hafa verulegan sjóð til þess að geta, eins og ég sagði áðan, greitt út sparifé, þegar þess er krafizt, og a.m.k. þarf hann að hafa annað eins í sjóði, þá geta menn séð, að það fer að saxast á það, sem bankinn hefur til þess að ráðstafa á annan hátt, þegar tekið er tillit til þess, hvað víð lánum í landbúnaðinn, eins og hér hefur verið upplýst.

Það hefur nú komið hér fram hjá hæstv. ráðh. undarleg túlkun á ummælum mínum, sem féllu hér áðan viðkomandi bankastarfseminni, og sýnir eiginlega, hvernig slegið er úr og í og leikið tveim skjöldum af hæstv. ráðh., sem hann gerir nú kannske ekki oft, en hefur til að bregða fyrir sig. Uppistaðan í árásinni hér á Búnaðarbankann er sú, að hann láni ekki nægilega mikið út um land, eftir því sem blað ráðherrans segir, að hann hafi sagt hér í gær, og sama segir hann nú. Orð mín féllu þannig áðan, að ef umboðsmönnum Reykjavikur og þm. Reykv. þætti það sérstaklega athyglisvert, að of lítið væri lánað út um land, en of mikið í Reykjavík, þá væri að sjálfsögðu hægt að taka þá kröfu til athugunar. En þegar ég þannig tek undir hans eigin ummæli, að það sé hægt að taka það til athugunar, þá túlkar hann það þannig hér í þessari hv. d., að þetta sé hótun til Reykvíkinga um að draga úr útlánum til Reykjavíkur. En þetta er sú krafa, sem hann færði hérna fram sjálfur, eða er það ekki satt? Hann sagði að vísu, að ég hefði sagt, að það væri ekki hægt að lána bændum, það sýndi tvísönginn. En ég sýndi fram á það í minni ræðu, að vitanlega sitja bændur fyrir lausavíxlum í Búnaðarbanka Íslands, eftir því sem þeir þurfa með, meðan þeir eru að koma áfram þeim framkvæmdum, sem þeir venjulega ljúka að hausti. En þegar þeim er lokið, þá koma þeir og taka lánin úr byggingarsjóði eða ræktunarsjóði og kvitta víxlana í sparisjóðnum. Og ef hæstv. ráðh. heldur því fram, að pólitík Búnaðarbankans sé að því leyti röng, að við lánum of lítið út um land, eða ef hann vill hafa það heldur þannig, að við lánum bændum of lítið af sparifénu, þá væri æskilegt að fá að heyra frá honum, eftir að hann hefur heyrt skýrsluna um það, hvernig lánum okkar er háttað, hvernig við ættum í Búnaðarbankanum að haga lánastarfsemi til bænda.

Það rétta í þessu máli er það, að bankinn hefur rekið heilbrigða lánastarfsemi og reynt að fara þannig með þetta sparifé, sem hann hefur, að þar væri réttlátlega að unnið og með fyllsta hlutleysi gagnvart öllum. Hann hefur lánað eins mikið fé til landbúnaðarins og frekast er hægt, þannig að ekki sé gengið út yfir þau mörk að halda uppi heilbrigðri starfsemi. — Og það kemur satt að segja, að mínu áliti, án þess að ég sé nokkuð að kvarta undan því, úr allra hörðustu átt, þegar deilt er á þessa bankastarfsemi Búnaðarbankans. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. N-M. segir, að það hafa liðið áratugir án þess, að Búnaðarbankinn hafi tapað einum eyri af því, sem hann hefur lánað út. Og það væri óskandi, að það væri hægt að segja svipað um aðra lánastarfsemi. Um þetta ætla ég svo ekki að fjölyrða frekar. En það er um hitt atriðið, að láta Búnaðarbankann taka lán með miklu hærri vöxtum en hann sjálfur tekur af útlánum, að það er alveg tvímælalaust, að ekki er hægt að halda áfram á þeirri braut. — Viðkomandi brtt. hv. 4. þm. Reykv. er það að segja, að vítanlega er það þannig, að ef hún nær fram að ganga með því að fella niður seinustu málsgr. 1. gr., þá er tekið allt vald frá ríkisstj. til þess að gera nokkuð í þessu máli og ríkisstj. gerð að öllu leyti valdalaus til að koma fram því, sem er gert ráð fyrir að hún hafi þó vald til að koma fram, ef frv. verður samþykkt, eða a.m.k. meira vald til að koma fram, ef frv, verður samþ., þó að orðalagið sé náttúrlega að sumu leyti nokkuð óákveðið. Og þar kemur fram þetta sama, að bæta sparisjóðsdeild Búnaðarbankans inn í, en ég hef fært rök að því, að það er ekki hægt að halda þeirri starfsemi áfram. Það er búið að gera það of oft og er ekki hægt að halda þeirri starfsemi áfram að láta sjóði Búnaðarbankans standa undir því að lána út fé með lægri vöxtum en hann borgar sjálfur af fénu, sem hann tekur að láni.