19.03.1954
Efri deild: 64. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Hermann Jónasson:

Hæstv. ráðh. dró nú að vísu nokkuð úr þeim ummælum, að ég hefði verið með einhverjar hótanir um það, að Reykvíkingum skyldi ekki veitt lán úr bankanum, enda liggur það nú í hlutarins eðli, að ef gerð er krafa um það, að sparifé sé lánað bændum eða út um land, þá verður það sama fé ekki lánað í Reykjavík. Það er ekki hægt að halda hvoru tveggja fram, að reyna að gera bankann óvinsælan út af því, að hann láni ekki nógu mikið fé út um land, og halda því fram, að það séu aðrir að hóta því, að Reykvíkingum skuli ekki verða lánað, því að þetta er krafa hæstv. ráðh. sjálfs.

Ég ætla nú ekki að þreyta neitt sérstaklega frekari umr. um, hvað sparisjóður bankans geti lánað. Það er þó hægt að benda á, að þegar 15% af sparifénu er í tryggum bréfum, eins og lög mæla fyrir, og um 15% er „liquid“ sjóður, eins og venjulegast mun vera hjá bankanum og meira en það, og 30% í beinum lánum til bænda, þá eru engin ósköp eftir til annarra lána, þegar verulegur hluti af því, sem þá er eftir, er lánað óbeint líka til landbúnaðarins. Það er ekki hægt að taka einn sparisjóð og gera honum það að skyldu að hafa 15% „liquid“ sjóð, 15% í ríkisskuldabréfum og reikna það svo sem útlán til Péturs eða Páls. Sjóður, sem má hreyfa, getur aldrei orðið með þessu móti nema um 70%.

Hann segir, að bankanum hafi verið breytt í verzlunarbanka og sé vel rekinn sem verzlunarbanki. Það er ekki hægt að reka neina bankastarfsemi og ekki hægt að reka nein fjármál, nema reka þau af þeim hyggindum, sem þarf, og það má kalla það verzlunarsnið.

Það er alveg auðsætt mál af þessu, sem hér hefur komið fram, að ef bankinn hefði aðeins sína sjóði, ræktunarsjóð, byggingarsjóð og veðdeild, og væri ekki leyft að reka sparisjóðsstarfsemi, eins og helzt er að heyra á hæstv. ráðh. að ætti nú að banna honum, því að það ætti að breyta honum í það horf, að hann væri hreinn landbúnaðarbanki, en ekki með neinn sparisjóð þá þýðir það, að það verður fyrst og fremst ekki hægt að reka bankann nema með tapi, því að sparisjóðurinn og þau viðskipti, sem rekin eru gegnum sparisjóðinn, standa nú að verulegu leyti undir starfseminni að öðru leyti, svo sem kunnugt er. En í annan stað er alveg auðsætt, að það mundu ekki verða lánuð þau 30% til bænda, sem lánuð eru úi` sparisjóði, og það mundu ekki verða lánaðar þær 10–12 millj. kr., sem oft og einatt eru lánaðar á hverju ári til hinna deildanna til þess að geta haldið þeim á floti, byggingarsjóðs, ræktunarsjóðs og veðdeildar.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að hann efaðist ekki um, að bankinn væri rekinn þannig, þó að flokksmaður stjórnaði honum, að hann væri ekki rekinn með flokkslegum hætti, og það hygg ég að sé nú það réttasta, sem sagt hefur verið í þessum umr. Ef hæstv. ráðh. eða einhver þm. heldur, að bankaráðið hafi afskipti af útlánum, og ef það hafa verið látin liggja orð að því, að bankanum væri vel stjórnað, þá er það áreiðanlega ekki fyrst og fremst bankaráðið eða ég, það er bankastjórinn, og það er alveg óhætt fyrir hv. þm. og hæstv. ráðh. að leita sér upplýsinga um það, að lánin fara ekki í gegnum annarra hendur og eru ekki veitt í gegnum aðra en um hendur bankastjórans, enda ekki hægt að reka bankastarfsemi á annan veg. Það er ekki hægt að reka hana þannig, að bankaráðið skipti sér af daglegum útlánum, og þeirri reglu er áreiðanlega fylgt í Búnaðarbankanum.

Viðkomandi veðdeild Landsbankans er nú dálítið fróðlegt að líta á það atriði út frá þeim röksemdum, sem hér hafa komið fram hjá hæstv. ráðh. Landsbankanum er skylt að geyma 15–30% í tryggum bréfum. Landsbankinn hefur um 300 millj. kr. vaxtalaust frá ríkinu, eins og ég sagði áðan. Menn geta margfaldað 3 sinnum 6 eða 3 sinnum 7 og séð, hvaða tekjur það eru á ári.

Nú er okkur láð það í Búnaðarbankanum, að við teljum bréf veðdeildarinnar með 41/2% vöxtum, sum til 30 ára, sum til. 20 ára, vera bréf, sem eru „liquid“, sem eru seljanleg á hverjum tíma og hægt að breyta í peninga, þannig að bankinn geti borgað það út, sem sparisjóðseigendurnir krefjast. Hverjum dettur í hug, að þessi 41/2% bréf séu „liquid“? Og ef Búnaðarbankanum er láð, að hann lítur ekki á þessi bréf sem „liquid“, hvernig stendur þá á því, að banki með 300 millj. kr. kaupir ekki inn í sína veðdeild veðdeildarbréf af húseigendum hér í Reykjavík, sem þó eru með hærri vöxtum, og litur á þau sem „liquid“ fyrir sinn banka, landsbanka, sem hefur allt aðra aðstöðu? Vitanlega dettur honum ekki í hug að telja þetta „liquid“ bréf, og vitanlega væri það alveg ófyrirgefanlegt, ef við gerðum það.

Að lokum er það þetta,. — það hefur ekki komið fram í þessum umr., — að viðkomandi þessum lánum, sem er farið fram á að við veitum úr sparisjóðnum, og viðkomandi tilgangi bankans, þá eru líka til önnur lög, ef ég man rétt. Það er ekki leyfilegt að binda lán lengur í sparisjóðum en tíu ár. Það er ekki leyfilegt, og hvers vegna er það ekki leyfilegt? Það er vegna þess, að það er ætlazt til þess, að sparisjóðirnir séu „liquid“. Það er því ekki einungis farið fram á, að við rekum óheiðarlega bankastarfsemi og óleyfilega bankastarfsemi í landinu, heldur brjótum landslög, ef við förum að ausa út úr sparisjóðnum á þann hátt, sem hér er farið fram á.

Nei, það er tvímælalaust, eins og hér hefur verið bent á af hv. 1. þm. Eyf., að það er auðvelt fyrir t.d. þjóðbankann, sem hefur yfir þessum peningum að ráða, að leggja Búnaðarbankanum þetta fé árlega, þar sem það er nú upplýst, að þessi banki, sem hér um ræðir, hefur aldrei gert kröfu til þess að nota einn einasta eyri. svo sem flestar aðrar, lánsstofnanir eru búnar að gera, af seðlafúlgu Landsbankans. Af þessum 300 millj. kr. er upplýst, að aðrir bankar hafi stundum komizt upp í 70 millj. kr., sem þeir hafa þurft að nota af þessum seðlaforða. En hér er málum snúið þannig við, að við, sem höfum reynt að stjórna bankanum þannig, bankaráð og þó fyrst og fremst bankastjóri, að við höfum aldrei þurft að nota einn einasta eyri af þessu veltufé þjóðarinnar, samanborið við annan banka., sem notar, eftir því sem hér er upplýst, 70 millj. kr. stundum. En þegar farið er fram á 1200000 kr. af hálfu Búnaðarbankans, þá er það talið eftir og sagt: Þú getur tekið af þínu eigin sparifé, — sem þú borgar þó af miklu hærri vexti en þú lánar peningana út með.

Það mælir öll sanngirni með því, að þetta frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir, og Búnaðarbankinn fer ekki fram á að fá nema örlítinn skerf af þessari seðlaveltu, sem hann hefur aldrei notað og aðrir bankar hafa notað eins og hér hefur verið upplýst.