03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi í sambandi við þetta frv. leyfa mér að minna hv. þm. á, hvernig frágangurinn á því er og til hvers þetta frv. var upprunalega sett. Þetta frv. er um, að ákvæðin um tekjuöflun, sem sett eru í 3. kafla l. nr. 100/1948, skuli gilda, m.ö.o. er ekki einu sinni tiltekið, hvort heilar greinar eigi að gilda eða ekki. Þessi kafli heitir „Um dýrtíðarsjóð“, og það er eini kaflinn, sem eftir er í l., 1. og 2. kafli eru fallnir burt, og hann byrjar svona: „Stofna skal sérstakan sjóð, er nefnist dýrtíðarsjóður ríkisins. Skal honum varið til þess að standa straum af greiðslum vegna ábyrgðar ríkisins á verði útfluttrar vöru, svo og greiðslum til lækkunar á vöruverði og framleiðslukostnaði innanlands“. Með öðrum orðum: Allt það, sem allar þessar tekjur upprunalega áttu að hjálpa til að standa undir, er búið að afnema. Nú er þetta ekkert orðið nema skattur í ríkissjóð. Það er þess vegna í fyrsta lagi algert brot hjá hæstv. ríkisstj. á öllum þeim loforðum, sem getin voru í sambandi við gengislækkunina um álagningu söluskattsins, að halda enn þá einu sinni áfram að innheimta þessi gjöld og það án þess að nota nokkuð af því til þess að fullnægja þeim tilgangi, sem söluskatturinn upphaflega var lagður á til þess að fullnægja. Söluskatturinn hefur þar að auki verið hækkaðar í sífellu frá því, sem hann var þá.

Ég vil þess vegna, eins og ég gerði þegar við 1. umr., taka fram, að ég er frv. andvigur. Hins vegar er vitanlegt, og um það tjáir náttúrlega ekki að vera lengi að þræta hér, að hæstv. ríkisstj. hefur valdið til þess að knýja þetta fram, og við það verðum við auðvitað að horfast í augu. En það er annað, sem mér finnst ástæða til þess að gera að umræðuefni í sambandi við söluskattinn. Þegar söluskatturinn var lagður á, þá átti hann að vera, eins og hv. 1. landsk. (GÞG) líka minntist á, til þess að bæta sjávarútveginum, sérstaklega bátaútveginum, töp á framleiðslunni. Eitthvað tveim árum síðar var gengislækkuninni skellt yfir, að því er sagt var til þess að gera hið sama, þótt það raunar þýddi að hækka líka allar þær vörur, sem bátaútvegurinn þurfti að kaupa, þannig að það kom bátaútveginum ekki sérstaklega að neinu haldi. En svo þar rétt á eftir, ári eftir það, var skellt á bátagjaldeyrinum. Þannig er þessi þrenning, sem öllsömun hefur verið svikin. Alltaf hefur verið sagt, að það ætti að vera að hjálpa bátaútveginum, og alltaf hefur raunverulega verið að þyngja meira og meira byrðarnar á alþýðu manna og þar með líka þeirri alþýðu, sem mest vinnur við framleiðslu sjávarafurðanna.

En mér er spurn: Hvernig stendur eiginlega á því, að hæstv. ríkisstj. er að fara fram á það við Alþ.,Alþ. skuli vera að samþ. lög um söluskatt, að Alþ. skuli yfirleitt vera að hafa fyrir því að veita hæstv. ríkisstj. heimildir til þess að vera að taka með lögum gjöld í ríkissjóð? Fund eftir fund hefur hæstv. ríkisstj. staðið hér frammi fyrir því, að hún hefur verið ásökuð um að taka stórfé af almenningi, taka yfir 100 millj. kr. á ákveðnum tíma af almenningi, án þess að hafa nokkra lagaheimild til þess. Eina vörnin, — það var raunar í fyrra, — sem ráðh., sem nú á ekki lengur sæti í ríkisstj., flutti fram fyrir hönd hæstv. ríkisstj. þá um réttinn til þess að leggja bátagjaldeyrinn á, þann lagalega rétt, þegar búið var að sanna honum, að það væri ekki nein lagaheimild til fyrir bátagjaldeyrinum, var eftirfarandi yfirlýsing, sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Hæstv. viðskmrh., sem var í fyrra, sagði svo:

„Fjárhagsráð hefur því óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum eða einhverri sérgrein útflytjenda að hafa frjáls umráð gjaldeyris síns að öllu eða einhverju leyti til innflutnings almennt eða bundið við sérstakar vörutegundir samkv. bátalista. Þeim, sem fá þennan ráðstöfunarrétt, er heimilt að notfæra sér hann á hvern þann hátt, sem ekki brýtur í bága við fyrirmæli fjárhagsráðs, þ. á m. að selja gjaldeyrinn með hagnaði í einu formi eða öðru, ef slík sala er heimiluð af fjárhagsráði.“

Eins og ég hef margsýnt fram á, þá þýðir þessi yfirlýsing ríkisstj., að hún álitur sig hafa rétt til þess að veita hverjum útflytjanda sem vera skal rétt til þess að selja gjaldeyrinn, sem kemur inn fyrir hans afurðir, á því verði, sem honum þóknast. Það þýðir m.a., að ríkisstj. sjálf sem útflytjandi gjaldeyrisvöru hefur auðvitað sama rétt, ef þetta væri rétt, til þess að úthluta sjálfri sér gjaldeyri og selja hann á hvaða verði sem vera skal. Það að úthluta gjaldeyri og selja hann á sérstaklega háu verði kemur í nákvæmlega sama stað niður eins og að leggja toll á þá vöru, sem flutt er inn fyrir þann gjaldeyri, eða leggja söluskatt á hana. Þess vegna er það raunverulega undarlegt, að hæstv. ríkisstj. stendur hér hvað eftir annað og jafnvel þráttar við okkur um, hvort það sé rétt að framlengja söluskatt, hvort það sé rétt að leggja á hin og þessi gjöld. En þegar kemur að því að ræða um bátagjaldeyrinn, að leggja 100–200 millj. kr. á almenning, án þess að það sé lagaheimild fyrir því, hvað gerist þá? Þá flýr hver einasti ráðh. úr þessari d. Þá þorir enginn hæstv. ráðh. að sitja inni og taka til máls. Ég verð að taka það fram, að hæstv. ráðh. hafa þann sið að flýja úr d., svo framarlega sem minnzt er á það lagaleysi þeirra að taka þær álögur, sem nú eru lagðar á með bátagjaldeyrinum.

Ég hef margtekið það fram, að í þessu sambandi er ekki spurningin um það, hvort menn áliti aðferð eins og bátagjaldeyrinn praktíska aðferð, réttláta, hagnýta, nauðsynlega eða annað slíkt. Eina spurningin, sem þetta stendur um, er, hvort þetta sé löglegt. Og ég held, að ég hafi sýnt fram á það með alveg órækum rökum, að þetta er ólöglegt. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki treyst sér til þess að henda á nein lög, og sú yfirlýsing, sem hæstv. viðskmrh. fyrrverandi gaf, er þannig, að það hefur enginn ráðh. nokkurn tíma treyst sér til þess að taka undir hana, og hann hefur sjálfur, eftir að hann gaf þessa yfirlýsingu, aldrei treyst sér til þess að taka til máls um þessi mál, vegna þess að honum er ljóst, að þessi yfirlýsing er slík endemis firra, að svo framarlega sem ríkisstj. hefur rétt til þess að selja gjaldeyrinn á því verði, sem henni þóknast, eða láta aðra menn selja með hvaða verði sem þeim þóknast, bara ef fjárhagsráð er látið skrifa þar upp á, þá er þar með búið að afnema allt, sem ákveðið er í gengislækkunarl., afnema allt, sem annars er verið að della um í sambandi við ýmiss konar álögur á almenning, svo sem með söluskatti, tollum eða öðru slíku. Einmitt vegna þess, hvernig hæstv. ríkisstj. skorast undan því að ræða bátagjaldeyrinn, — það er kannske helzt, að hún fæst einstaka sinnum til að minnast og þá fáum orðum á það í sambandi við fsp., af því að þá hafa þm. nógu stuttan ræðutíma, — þá finnst mér rétt að koma með þetta hérna inn í, því að eins og ég hef margsýnt fram á, svo framarlega sem það væri grundvöllur fyrir bátagjaldeyrinum. (Fjmrh.: Ég neyðist til að fara í símann.) Já, það er mjög slæmt, að hæstv. fjmrh. skuli alltaf þurfa að vera að fara í símann, en hann gæti nú talað um bátagjaldeyrinn samt, þegar hann kemur inn aftur, ef hann hefur hug og vilja til þess. — Það er þess vegna alveg vitanlegt, að hæstv. ríkisstj. hefur innheimt ólöglega allt það, sem innheimt hefur verið fyrir bátagjaldeyrinn. Hún hefur vald hér á þingi til að koma sínum málum í gegn. Hví þorir hæstv. ríkisstj. ekki að koma sínum málum hér í gegn á Alþ. og koma því í löglegt form, sem henni þykir við eiga að hafa? Þetta ástand er orðið alveg gersamlega óþolandi, og sannleikurinn er, að fyrir Alþ. væri það eina rétta, ef það hefði einhverja tilfinningu fyrir sínum rétti og sínum sóma, að neita að samþ. nokkrar fjárheimildir til ríkisstj., á meðan hún kemur ekki svona hlut í lag.

Ég hef aldrei orðið var við það, að einn einasti af fylgjendum stjórnarinnar hér á Alþ. stæði upp til þess að reyna að verja hana í þessum bátagjaldeyrismálum. Ég hef ekki orðið var við nokkurn þm., sem álítur, að bátagjaldeyririnn sé lagður á með löglegum hætti, og það náttúrlega kemur ekkert því máli við, þó að margir þessara þm. kunni að álita bátagjaldeyrinn alveg jafnnauðsynlegan, skulum við segja, eins og söluskattinn. — Hvað sagði hæstv. fjmrh.? (Forseti: Ekki samræður.) Ja, það væri nefnilega eini möguleikinn til að fá einhverjar samræður í gang um bátagjaldeyrinn, að maður heyrði, hvað hæstv. fjmrh. kynni að skjóta fram, því að ég hef enga trú á, að hann fáist til að ræða bátagjaldeyrinn, hvort hann sé löglegur eða löglegur ekki. En þetta vildi ég sem sé aðeins segja í sambandi við þetta mál: Sé í raun og veru heimilað að leggja á 90 millj. kr. eða eitthvað svoleiðis, en hæstv. ríkisstj. segist geta tekið 100 millj. kr. án þess að fá nokkra heimild frá Alþingi, til hvers er hún þá að biðja okkur um 90 milljónir? Og geti hún tekið það, sem hún tekur með bátagjaldeyrinum, þ.e. um 100–200 milljónir, þá getur hún alveg eins tekið 200–300 milljónir með því, því að, eins og ég hef margsýnt fram á, hafi hún rétt til þess að leggja svona álag á í sambandi við vörur bátanna, þá hefur hún sama rétt til þess að leggja það á viðvíkjandi vörum togaranna, sama rétt til að leggja það á viðvíkjandi landbúnaðarvörunum og því, sem keypt er fyrir þær inn í landið. Hún hefur ótakmarkaðan álagningarrétt á allan gjaldeyri og allt, sem fyrir gjaldeyrinn er keypt, ef hún hefur rétt til að leggja bátagjaldeyrinn á. Og hví í ósköpunum er hún þá að fara fram á og standa hér í þessu ógurlega stappi með söluskatt og allt mögulegt annað, jafnvel stimpilgjöld? Þetta eru ein og tvær milljónir fyrir stimpilgjöld. Af hverju er hún að hafa fyrir þessu, ef hún þykist hafa rétt til þess að leggja á bara með því að selja gjaldeyrinn á því verði, sem henni þóknast að fyrirskipa fjárhagsráði að skrá hann? Ég vil um leið minna á það, sem ég áður hef sagt, að fjárhagsráð áleit þetta ólöglegt og hlýddi bara skipun ríkisstjórnarinnar. Þess vegna byrjaði reglugerðin um bátagjaldeyrinn með því, að samkv. ósk ríkisstj. og samkomulagi við L.Í.Ú. væri þetta sett á, en ekki samkv. tilvitnun í t.d. fjárhagsráðslögin, 11. og 43. gr., eða eitthvað slíkt. Ég minnist sem sé á þetta einvörðungu vegna þess, að ég kann ekki við það, að meðan þingið á að heita starfandi, þá sé sífellt haldið áfram að gera lögleysur, vegna þess, að það er grundvallarréttur Alþ. eins og allra þinga, að það ræður því, hvaða álögur eru lagðar á almenning. Ég veit að vísu, að álögurnar á almenning eru jafnþungar, hvort sem þær eru löglegar eða ólöglegar. En það bara gerir allan greinarmuninn á því, ef það væru til t.d. óháðir dómstólar í landinu, hvernig dæmt mundi vera um svona mál. Ég læt það svo nægja, ef þetta mætti verða til þess, að hæstv. fjmrh. gerði svo vel að vitna í lög, sem gefa honum heimild þá, sem hæstv. viðskmrh. gat um í fyrra og ég hef vitnað í, þetta óskoraða vald um ráðstöfun gjaldeyris og til þess að selja hann með hagnaði í einu formi eða öðru, bara ef fjárhagsráð heimilar það.

Ég er búinn að lýsa andstöðu minni við frv. sem heild, en skal taka fram, að þar sem ég þykist vita, að það verði samþ., þá mun ég flytja við það tvær litlar brtt., ef vera mætti, að nokkuð væri hægt að fá um þokað einhverju ofur litlu af því ranglæti, sem í því felst.

Það er þá í fyrsta lagi við 3. gr., þar komi ný gr. á eftir henni, svo hljóðandi, og verði þá 4. gr.: „Við A-lið 23. gr. laga nr. 100/1948 bætist: svo og allar íslenzkar iðnaðarvörur.“

Í 23. gr. þessara laga, nr. 100 frá 29. des. 1948, segir: „Eftirtaldar vörur eru undanþegnar söluskatti“ — og í A-liðnum er talið upp mjólk og mjólkurafurðir, flugvélabenzín, tilbúinn áburður, dagblöð og vikublöð. Ég legg til, að þarna bætist við, að íslenzku iðnaðarvörurnar séu undanþegnar þessum söluskatti. Og ég held ég þurfi ekki að færa mörg rök að því, hve sanngjarnt er að krefjast þess. Það eru mörg fögur orð töluð viðvíkjandi því, hvað menn vilji gera íslenzkum iðnaði mögulegt að standast hér samkeppni og fullnægja þörfum þjóðarinnar, og þá er ekki rétt að vera að leggja sérstaklega á vörurnar, sem hann framleiðir, söluskatt frekar en aðrar þær vörur, sem upp eru taldar í 23. gr. Þess vegna legg ég til, að þarna bætist aftan við þennan A-lið: „svo og allar íslenzkar iðnaðarvörur.“ Ég mun nú kannske við 3. umr. flytja fleiri brtt. við þennan A-lið líka. Ég sé, að hv. 1. landsk. hefur tekið hér upp og flutt nákvæmlega þær till., sem þrír þm. Sósfl. fluttu hér í fyrra í þessari hv. deild og voru með sama innihaldi og till., sem borgarstjórinn í Reykjavík, eins og hann gat um, hafði flutt fyrir nokkrum árum, og er ég alveg sammála þeim till. og þykir vænt um, að hann hefur flutt þær.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér í sambandi við 24. gr. að koma með eina brtt.

24. gr. fjallar um innheimtuaðferðirnar, og hún er í lögunum frá 1948 með nokkuð öðru móti en hún er nú. Henni var sem sé breytt með lögunum 1950, nr. 112 þá, en það mun hafa verið fært til samræmis, svo að það mun rétt að orða það engu að síður sem brtt. við þessi gömlu lög. Mín brtt. er, að það komi ný gr. þarna á eftir 3. gr., svo hljóðandi: Í 24. gr. laganna, 4. mgr., falli niður síðasti málsliður málsgreinarinnar.“

Þessi síðasti málsliður 4. mgr. 24. gr. er þannig núna, það er um aðferðir við innheimtuna: „Þá má og innheimtumaður láta lögregluna stöðva atvinnurekstur hans, þar til full skil eru gerð, með því m.a. að setja verkstofur, útsölur, tæki og vörur undir innsigli.“

Þessi ákvæði um innsiglunina og stöðvun á atvinnurekstrinum voru ekki til í þessum lögum, eins og þau voru upprunalega 1948. Og það er satt að segja ekki nokkur minnsta ástæða til þess að setja þessi ákvæði inn. Ég hef ofur litla hugmynd um, hvernig þessi ákvæði hafa verið hagnýtt. Þau hafa verið hagnýtt þannig, að þau hafa gert mönnum ægilegan skaða. Ég veit t.d. af smáiðnrekanda í hittiðfyrra hér fyrir jólin í Reykjavík, sem hafði fengið vél og var nýbúinn að setja allt fé, sem hann hafði, í það að leysa hana út og setja hana upp til þess að geta framleitt, og hans atvinnurekstur var þannig, eins og er með marga, að það er alveg sérstaklega markaðurinn fyrir jólin, sem menn treysta á með ýmislega slíka sölu, og hann skuldaði þá söluskatt af sínum rekstri. Lögreglan kemur til hans. Hann biður um að fá frest. Hann reynir að fá sér víxil, en allir bankar eru lokaðir, þó að hægt væri að setja tugþúsunda króna vélar skuldlitlar að veði, og það er engin miskunn hjá fulltrúum hæstv. fjmrh. Þessi dýrmæta vél, sem er margföld að verðmæti við upphæð söluskattsins, er innsigluð, atvinnureksturinn er stöðvaður, og öll atvinna mannsins fyrir jólin er eyðilögð út af nokkrum þúsundum króna, þó að verkstæði mannsins með hinum nýju vélum hans væri tugþúsunda króna virði, ef ekki yfir 100 þús. kr. virði. Og þessar aðferðir, sem notaðar eru í sambandi við þessa innheimtu, eru ósvífnar. Þær líkjast ekki að neinu leyti því, að það sé verið af hálfu ríkisvaldsins að fara að mönnum eins og siðaðir menn gera. Þetta er hreinasta harðstjórnaraðferð, sem þarna er beitt. Og það er þess vegna til vansa að viðhafa þetta, og það er ekki sæmandi. Það er nógu illa farið að mönnum með þeim venjulegu ákvæðum, sem eru í lögunum, þegar það þekkist, að tekin séu bæði í sambandi við útsvör og skatta húsgögn af fólki og látið svo meira eða minna eyðileggjast einhvers staðar hjá því opinbera, eftir að vera búin að vera á flækingi langa lengi. Ég álit þess vegna, að þetta eigi að fella burt. Það eru meira að segja dæmi til þess, vegna þess að þessi innsigling og stöðvun atvinnurekstrar má fara fram, þó að það sé eftir að útkljá mál um, hvort söluskatturinn sé réttmætur, að mönnum sé valdið stórtjóni og að menn svo á eftir verði fyrir dómi dæmdir saklausir að því að eiga að greiða þennan skatt. En að þeir fái nokkuð af tjóninu nokkurn tíma bætt, það veit maður hvernig er að eiga að sækja í hendur ríkisins. Ég vil þess vegna, — og ég styðst þar líka við þær till., sem hvað eftir annað hafa verið bornar fram hér á Alþ. af hálfu iðnrekenda og iðnaðarmanna, — eindregið leggja til, að þessi mgr. sé felld burt. Ég hef að vísu stundum flutt þessa brtt. í því formi að taka alveg upp lagagreinina eins og hæstv. fjmrh. gekk sjálfur frá henni 1948. En þetta kemur nokkurn veginn í sama stað niður, að sleppa bara úr þarna lokunarheimildinni. Ég sé ekki heldur, af hverju það ætti nú endilega við óvínsælasta og ranglátasta skattinn af öllum að hafa svívirðilegustu innheimtuaðferðina. Og ég vil bara minna hæstv. fjmrh. á, þegar svona hart er gengið að iðnaðarmönnum og iðnrekendum, að það er ekki farið svona harðvituglega í, þegar virkilega og nógu afskaplega ríkir og voldugir menn eiga í hlut.

Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta, af því að þessar brtt. minar eru skriflegar og of seint fram komnar, að æskja afbrigða fyrir þeim.