22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki á neinn hátt blanda mér í þær stórpólitísku umræður um bankamál, sem fram hafa komið hér í d. í sambandi við þetta litla og meinlausa mál. Ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir minni afstöðu til brtt. þeirra, sem hafa komið fram.

Ég vil taka það fram, að ég gerðist ekki stuðningsmaður þessa máls til þess á neinn hátt að leysa Búnaðarbanka Íslands undan þeirri skyldu og ég vil segja þeirri sjálfsögðu skyldu, sem hann hefur til þess að hlaupa undir bagga með veðdeildinni á hverjum tíma og eftir því sem aðstæður og ástæður bankans leyfa, enda er ekkert ákvæði í þessu frv., sem bendir í þá átt. Með þessu frv. er aðeins farið fram á að reyna að tryggja lágmarkssölu bankavaxtabréfa, 1200000 kr. á árí. Brtt. þær, sem liggja fyrir, bæði brtt. frá hæstv. dómsmrh. á þskj. 483, og einnig brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 495, leggja til, að sparisjóðsdeild Búnaðarbankans verði sett inn í frv. með þeim stofnunum, sem gert er skylt að fullnægja þessari lágmarkskröfu um sölu bankavaxtabréfa.

Ég lít svo á, að með þessu sé í raun og veru um takmörkun að ræða, m.ö.o., ef búið er að tryggja þessa sölu, jafnvel þó að meiri hlutinn af þeirri sölu færi fram utan bankans, þá væri bankinn sjálfur laus allra mála. En ég lít ekki þannig á þetta mál. Ég tel Búnaðarbanka Íslands skylt að hlaupa undir bagga eftir sem áður, eins og hann hefur gert og eins og hann að sjálfsögðu mun gera eftir fjárhagsgetu þrátt fyrir þetta frv. Ég vil þess vegna, af því að ég lit svo á, að þessar brtt. gætu orðið til takmörkunar fyrir veðdeild bankans, greiða atkv. gegn þeim og vænti þess, að hv. d. sjái sér fært að afgreiða málið í þeirri mynd, sem það er.