22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1397 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. V-Sk. virtist standa í þeirri meiningu, að ef brtt. mín á þskj. 495, a-liður, yrði samþ., þá væru fjáröflunarmöguleikar takmarkaðir í því skyni, sem frv. gerir ráð fyrir, frá því, sem ná ér gert, eins og frv. er orðað. Á sama atriði minntist einnig hv. þm. Eyf. í ræðu sinni hér á síðasta fundi. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé eintómur misskilningur, því að það hefur engin áhrif á starfsemi sparisjóðsdeildarinnar að öðru leyti. Þetta yrði sú lágmarkskvöð, sem á hana yrði lögð og um semdist milli hennar og þeirra stjórnarvalda, sem sjá um framkvæmd laganna. Til enn frekari sönnunar því, að þetta sé réttur skilningur, vil ég, með leyfi hæstv. forseta, minna á það, sem segir um þetta efni hér í grg. frv. Þar segir fyrst, að lánsfé til jarðakaupa hafi ekki legið á lausu, sú stofnun, sem hefði átt að hlaupa þar undir bagga, veðdeild Búnaðarbankans, sé nú þurrausin, eins og það er orðað. Sá brunnur er nú þurrausinn, og meira en það, segir í grg., því að veðdeildin er komin í talsverða skuld við sparisjóðsdeild bankans, og er því ekki frekari úrlausnar þaðan að vænta, fyrr en veðdeildin fær aukið fé til útlána í þessu skyni. — Það er augljóst, hvað fyrir flm. hefur vakað, að sparisjóðsdeildin væri nú þegar með því að lána veðdeildinni fé búin að setja í þetta svo mikla peninga, að þaðan væri ekki meira að hafa, enda kom það fram í framsöguræðu hér, ef ég man rétt, þegar málið kom hér fyrir fyrst, að þá skuld, sem stofnað hefði verið til við sparifjárdeildina vegna kaupa á þessum bréfum, yrði nú þegar að greiða upp, vegna þess að sparisjóðsdeildin þyrfti að hafa sitt fé til annars. Það er því augljóst, að tilætlun flm. hefur alls ekki verið sú, að því er grg. hermir og eftir því sem fram kom í framsöguræðu hér, að sparisjóðsdeildinni væri ætlað að leggja fram fé í þessu skyni. Ég lít aftur á móti svo á, eins og kom hér fram í minni fyrri ræðu; að sjálfsagt sé og eðlilegt, að einhver hundraðshluti af fé sparisjóðsdeildarinnar verði lagður til þessarar starfsemi, annaðhvort beinlínis sem lán, eins og gert hefur verið, til veðdeildarinnar sjálfrar, eða til kaupa á þeim bréfum, sem hún gefur út. En ég vil endurtaka það, sem ég fyrr sagði, að mér er það fullkomlega ljóst, að slíka bindingu er ekki hægt að leggja á nema einhvern hæfilegan hluta af því fé, sem sparisjóðsdeildin hefur á sínum inniánsreikningum á hverjum tíma, og það tiltölulega lága prósentu. En ef brtt. mín er samþykkt, þá liggur í hlutarins eðli, að til þess er ætlazt og því er slegið föstu af Alþ., að einhver hluti, eftir því sem um semst á milli hæstv. ríkisstj. og stjórnar bankans á hverjum tíma, sé beinlínis ætlaður til þessarar starfsemi af því innlánsfé, sem í sparisjóðsdeildina hefur safnazt. Því fer því alls kostar fjarri, að með þessu sé verið að takmarka fjárframlög sparisjóðsdeildarinnar í þessu skyni, því að ekkert bendir til þess, að endilega þyrfti að binda við, að sú upphæð, sem í frv. greinir, yrði lágmarksupphæðin, — það er alveg eftir mati ríkisstj. og bankastjórnar á hverjum tíma, með hliðsjón af því, hvernig högum sparisjóðsdeildarinnar er háttað og hversu auðleyst hennar fé er.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vil ítreka það, sem ég benti á hér við fyrri umr., að mér finnst það með öllu óhæfilegt að gera þann mun á bankastofnunum og öðrum stofnunum, sem nefndar eru hér í 1. gr. frv., eins og þar er gert, þannig að ríkisstj. sé ætlað að semja við annaðhvort Landsbanka Íslands eða Landsbanka Íslands og sparisjóðsdeild Búnaðarbankans um fjárframlög til kaupa á bréfunum, en gagnvart hinum aðilunum, söfnunarsjóði. Brunabótafélagi og Tryggingastofnun, sé það lagt á vald ríkisstj. að ákveða, að þeir skuli kaupa affallalaust einhverja ákveðna upphæð af þessum bréfum.

Hv. þm. Str. sagði, að ef þessi síðari málsl. 1. gr. væri felldur niður, þá væri ríkisstj. svipt öllu valdi í þessum efnum. Mig furðar á þessu. Þó að síðari málsl. sé felldur niður, þá er ætlazt til þess, að ríkisstj. semji um þetta við Landsbankann, við sparisjóðsdeildina, ef það verður samþykkt, og við þessar stofnanir, sem þarna greinir, að leggja fram fé allt að 1200000 kr. í þessu skyni. Og ég verð að segja það, að mig furðar á því, ef hæstv. ríkisstj. treystir sér ekki til þess með samningum við þessa aðila að losa um 1200000 kr., — það er furðulega máttlítil ríkisstj., þegar litið er til þeirra upphæða, sem þarna er um að ræða, samanborið við þær geysifjárhæðir, sem hún telur sig geta ráðstafað til ýmissa hluta án nokkurrar sérstakrar heimildar. Ég held því, að þetta sé fyrirsláttur einn hjá hv. þm. Str., og vil leyfa mér að vænta þess, að það sé enginn vafi á því, að hæstv. ríkisstj. veitist það létt, þó að henni sé ekki gefið vald til þess að fyrirskipa þessum stofnunum að kaupa með undirverði bréfin, þá geti hún leyst málið, svo að viðhlítandi sé fyrir þá, sem lögin eiga að hjálpa, þó að ekki komi til valdboð í þeim efnum. Ég vildi því mjög mega vænta þess, að hv. þingmenn gætu fallizt á að fella niður þennan fyrirskipunarrétt hæstv. ríkisstj. í síðari málslið 1. gr.

Ef farið er inn á þessa braut á annað borð, að leggja í vald ríkisstj. að fyrirskipa ýmsum stofnunum, þessum sem þarna greinir og ýmsum fleiri, að leggja fram fé til ákveðinna hluta, þá er vandséð, hver endir getur orðið á því. Tryggingastofnunarinnar þekki ég bezt til. Ég veit, að hún hefur ekki núna, eins og högum hennar er háttað nú, nokkurt fé aflögu til slíkrar útlánastarfsemi sem hér greinir, því að hún hefur ekki nægilegt fé til þess að sinna þeim útlánum, sem henni er ætlað samkv. þeim lögum, sem hún starfar eftir.