22.03.1954
Efri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

119. mál, Búnaðarbanki Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Fyrst vildi ég beina því til hæstv. forseta, hvort það mundi eitthvað vera að hljóminum hér í þessari hv. deild, þannig að það bærist öfugt, sem sagt er. Það er að gefnu tilefni, vegna þess að ég las í blaði í gær frásögn af minni afstöðu í þessu máli, þar sem sagt var í flestum atriðum gersamlega rangt frá henni. Þar sem þetta er blað samstarfsflokks sjálfstæðismanna í ríkisstj. og að því standa margir göfugir menn, sem ekki mega vamm sitt vita, þá held ég, að það geti ekki komið af illvilja eða löngun til þess að fara með rangt mál, heldur af því, að einhvern veginn sé svo háttað, að þeim hafi borizt algerlega öfugt það, sem sagt var.

Ég hef sem sagt ætíð lagt á það mikla áherzlu, að ég væri þessu frv. fylgjandi og ég teldi mikla nauðsyn á því, að það næði fram að ganga, þó að ég hins vegar vildi láta búa enn þá örugglegar um það en í frv. sjálfu er gert, að það komi að gagni. Það var aftur á móti hv. 1. þm. Eyf., sem gerði mjög lítið úr þessu frv. og taldi, að það væri nær einskis virði að samþykkja það. Það voru hans orð, en ekki mín, og ég mótmælti þeim strax og þau komu hér fram. Ég tel, að hér sé um mjög gott mál að ræða, nauðsynlegt, sem þurfi að komast fram. Ég lýsti því meira að segja yfir við fyrri stig málsins, að þó að athugasemdir mínar væru ekki teknar til greina, þá mundi ég engu að síður fylgja sjálfu málinu, vegna þess að ég tel, að málið sjálft sé gott. En því frekar er það óverjandi, að svo ranglega skuli vera túlkað út í frá, hvað hér hefur farið fram. Ef ekki er um missögn að ræða eða misskilning, þá sýnir það, að þeir, sem að því standa, hafa ekki hreint mél í pokanum og geta ekki tekið þátt í málefnalegum umræðum, heldur verða að verja mál sitt með rangfærslum, sem ég hirði ekki frekar að svara.

Það er auðvitað alger fjarstæða, sem hv. 1. þm. Eyf. bar hér fram fyrst um daginn og hv. þm. V-Sk. tók hér upp, og loksins var sá þriðji í þeirri einkennilegu lest hv. 1. þm. N-M., og héldu því allir fram, að ef brtt. minar væru samþykktar, væri það takmörkun á skyldu Búnaðarbankans til þess. að fullnægja sinni skyldu. Því fer fjarri, að svo sé. Það má segja, að brtt. minar helgist af því, að ég tel og hef raunar sýnt fram á með óyggjandi rökum, að Búnaðarbankinn hefur ekki staðið við lagaskyldu sína í þessu efni og þess vegna sé ástæða til að hnippa í hann að standa sig betur í framtíðinni í þeim efnum heldur en hann hefur gert. En ég hef ekki ætlazt til, að það væri horfið frá því að eiga samstarf við aðrar peningastofnanir um lausn þessa máls, og ég er ekki fylgjandi till. hv. 4. þm. Reykv. um að fella niður þá heimild, sem ríkisstj. á að hafa til þess að skylda vissar peningastofnanir úti í bæ, ef svo má segja, til þess að kaupa þessi bréf, ef á þarf að halda. En ég hef talið rétt að bæta sparisjóðsdeild Búnaðarbankans þar við. Slíkt er ekki þrenging, slíkt er bæði rýmkun á frv. og léttir engum skyldum af Búnaðarbankanum. Það eru þess vegna fullkomnar tylliástæður, þegar það er borið fram til þess að vera á móti þeim auðsæilega sanngjörnu till., sem ég hef borið fram í þessu máli. Það getur verið skiljanlegt, að menn séu á móti þeim till., ég skal ekkert um það segja, en það er ekki frambærilegt að vera á móti þeim af svo auðsæilega gagnslausum fyrirsláttaratriðum eins og þeim, sem þessir hv. þm. hafa hér flutt. það er þá miklu betra að segja það hreinlega, að þeir geri það af hlífð við Búnaðarbankann, að þeir vilji ekki láta Búnaðarbankann fá þá réttmætu áminningu, sem hann mundi fá með samþykkt minna till.: það er miklu betra að segja það hreinskilnislega heldur en að bera fyrir það, sem alls ekki fær staðizt með neinu móti.

Því hefur verið mjög á loft haldið hér, að ýmsum bönkum sé illa stjórnað öðrum en Búnaðarbankanum. Ég skal ekki fara út í þær umræður. En ég vil þó segja það, að út af fyrir sig þarf það ekki að vera sönnun fyrir því, að banka sé illa stjórnað, þó að hann verði fyrir tapi á einstaka viðskiptamanni. Bankinn starfar ekki eingöngu til þess að græða fé eða moka saman peningum, heldur til þess að greiða fyrir atvinnulífinu, þeim greinum atvinnulífsins, sem hverjum banka er falið á hendur að annast. Það er þess vegna mjög eðlilegt, ef ófyrirsjáanlegir atburðir eiga sér stað í atvinnulífi, þannig að töp verði, sem ekki var reiknað með, að bankastofnanir taki þátt í því ekki síður en þeir atvinnurekendur, sem fyrir skakkaföllunum verða. Og það var líka svo, að Búnaðarbankinn á sínum tíma undir stjórn hins ágæta manns Tryggva heitins Þórhallssonar varð fyrir stórkostlegum áföllum, vegna þess áð hann hafði lánað út meira en bændur þá gátu borgað, og varð að stofna sérstaka kreppulánadeild til þess að standast þann halla. Slíkt kom ekki af því, að Tryggvi Þórhallsson út af fyrir sig væri verri bankastjóri heldur en sá, sem nú er, heldur vegna hins almenna atvinnuástands. Ég tel það sízt til sönnunar góðri bankastjórn Búnaðarbankans, þó að þannig sé haldið á, að bankinn verði ekki fyrir neinum skakkaföllum. Það sýnir það eitt, sem ég hef haldið fram, að hann er rekinn sem gróðastofnun, sem verzlunarstofnun, en ekki fyrir atvinnuveginn, sem hann lögum samkvæmt á að styðja, enda er það óumdeilanlegt og játað, og jafnvel verjendur Búnaðarbankans hafa ekki getað neitað, að hann hefur ekki farið eftir tvímælalausum lagafyrirmælum um það að vera fyrst og fremst bankastofnun fyrir landbúnaðinn, heldur er orðinn almennur verzlunarbanki, sem fyrst og fremst hugsar um það að græða fé og tapa aldrei einum eyri. En vitanlega helgast það, að bankarnir taka vexti og græða fé, af því, að þeir verða stundum fyrir skakkaföllum eins og öll mannleg fyrirtæki. Vitanlega er það þannig, að bankinn hefði vel efni á því að taka á sig þau skakkaföll, sem leiddi af því að kaupa þessar 1200000 kr. af hans eigin veðdeildarbréfum. Það hefur verið sannað, að hankinn græðir milljónir ár hvert, eykur stöðugt við sína sjóði, og hann gæti vitanlega staðið undir þessu, ef nægur vilji væri fyrir hendi. Það er aðeins viljinn, sem skortir í þessum efnum.

En látum það vera. Ég hef ekki gert það að aðalefni þessa máls, heldur þvert á móti sagt, að það væri mál, sem yrði að leysa fyrir sig, hver ætti að borga þann vaxtamismun, sem hér á sér stað. Aðalefnið er það, að bankinn hefur yfir nægu fé að ráða, jafnvel án þess að takmarka á nokkurn veg aðra lánastarfsemi sína, til þess að lána þessar 1200000 kr., ef nokkur vilji er fyrir hendi. Það er einungis vegna þess, að viljann skortir, vegna þess að bankastjórnin, bæði bankastjóri og bankaráð undir forustu formanns Framsfl., hefur sannfærzt um það, að það er ekki hægt að reka heiðarlega og frambærilega bankastarfsemi hér á landi, ef það ætti að lána bændum, svo að vitnað sé í ummæli hv. formanns Framsfl., sem hann hefur margoft viðhaft hér. (HermJ: Ef við lánum með lægri vöxtum en —) Ja, þessi ummæli þingmannsins liggja fyrir, og við getum látið skoða þau. Ef hv. þm. hefur ekki látið breyta þeim, skulum við athuga, hvað hann hefur sagt.

Það hefur ekki heldur verið með einu orði vefengt, að Búnaðarbankinn hefur gersamlega vanrækt það að leysa úr rekstrarlánaþörf bænda. Hvað sem því líður, hvort hann gæti lánað bændum löng fasteignalán, — og hef ég þó sýnt fram á, að allar röksemdir verjenda bankans í þeim efnum eru hégómi einn, — þá er ótvírætt, að ef löngun og vilji væri fyrir hendi, þá gæti bankinn leyst úr hinni þörfinni. Hann hefur leitt þá þörf gersamlega hjá sér.

Svo er verið að tala um það, — og hv. þm. Str. var því mjög feginn, að ég lýsti því yfir, að ég teldi, að núverandi bankastjóri bankans hefði ekki á neinn hátt misnotað stöðu sína í pólitískum tilgangi. Ég stend við það. Ég hef enga vitneskju um það, að bankastjórinn hafi gert það. En vitanlega er það bankaráðið, sem ákveður þær stóru línur, sem lánin eru veitt eftir, og það er hv. þm. Str., sem manna mest ber ábyrgð á því ásamt bankastjóranum. Ég er hér ekki að sakast,um einstakar lánveitingar. Ég er ekki heldur að sakast um það, þótt eitthvað af lánum hafi verið veitt í öðru skyni en lög bankans þó segja til um. En ég er að sakast um þann gersamlega misskilning á stöðu og eðli bankans, að hann skuli ekki sjálfur reyna að leysa ekki stærra atriði en felst í þessu frv., heldur reyna að knýja löggjafarþingið til þess að gera ráðstafanir í því efni. Vitanlega átti bankinn sjálfur að hafa þar forustuna, segja til um, hvað hann skorti á, ef hann gat ekki gert það. En bankinn er búinn að gleyma svo gersamlega, í hvaða tilgangi hann er stofnaður og hvað lögin segja til um hans starfsemi, að Alþ. þarf þarna að taka í taumana og reyna að hafa vit fyrir forráðamönnum bankans.

Hv. þm. Str. sagði hér á dögunum, — ég sé, að hann hefur látið taka það upp í blaði sínu, — að till. og ummæli hv. 4. þm. Reykv. væru af mikilli sanngirni mælt, en mínar till. væru af öðrum toga spunnar. Það væri maklegt að launa þetta með því að taka aftur seinni till. mína og fallast á seinni till. hv. 4. þm. Reykv. og vita, hvernig hv. þm. Str. þætti sú sanngirni vera, vegna þess að þá væri tekið úr frv. það aðhald, sem hv. þm. Str. í öðru orðinu viðurkenndi að ríkisstj. þyrfti að hafa til þess að knýja aðila til þess að hlýða því, sem lögin ætlast til í þessu. Ég vil þó ekki fara þannig að. Mér er það ljóst, að það kann á því að þurfa að halda að heita þvingunarráðstöfunum í þessu efni. Ég vil þess vegna ekki taka úr síðari hluta 1. gr., ég vil ekki fella hann niður. Ég tel, að það sé réttara að gera enn þá öruggara, að greinin kæmi að gagni, með því að samþykkja mína viðbót, en mun greiða atkv. á móti till. hv. 4. þm. Reykv. varðandi þetta atriði. En varðandi fyrri hl. gr. get ég alveg eins fellt mig við till. hv. 4. þm. Reykv. og mína og vil beina því til hæstv. forseta, hvort hann vildi ekki bera hans till. upp á undan, og ég mundi þá greiða atkvæði með henni, vegna þess að ég tel, að hún nái alveg sama tilgangi þar eins og mín till.