26.11.1953
Neðri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

107. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Björn F. Björnsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. nr. 87 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, er flutt af heilbr og félmn. samkvæmt beiðni félmrh. Félmrn. hefur samið þetta frv. og n. tekið að sér að flytja það hér í hv. þingi. Einstakir nm. hafa áskilið sér að hafa óbundnar hendur um að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði l. nr. 87 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, gátu mæður óskilgetinna barna, sem áttu barnsfeður úr hópi þeirra manna, sem verið höfðu í þjónustu eða á vegum hernaðaraðila hér á landi, snúið sér til dómara á varnarþingi sínu og krafizt úrskurðar um faðernið, með sama hætti og þegar varnaraðili eða barnsfaðir er farinn af landi brott. Síðar gat svo dómari heimilað barnsmóður samkvæmt rökstuddum úrskurði að staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti, ef barnsmóðir að áliti dómarans þótti hafa líkur með sér. Þegar svo barnsmóðirin hafði unnið eið eða drengskaparheit, var viðkomandi valdsmanni skylt að kveða upp úrskurð á hendur Tryggingastofnun ríkisins, sem skyldaði hana til þess að greiða barnsmóðurinni meðlag og annan styrk eins og venjan er um aðrar barnsmæður, sem meðlagsúrskurð hafa í höndum. Síðan átti svo Tryggingastofnunin að fá endurgreiddan barnalífeyrinn úr ríkissjóði.

Ákvæði þetta, bráðabirgðaákvæðið í l. frá 1947, var takmarkað við börn, sem fædd voru fyrir 31. des. 1947, enda hefði barnsmóðir þá snúið sér til dómara fyrir 31. des. 1949. Þessi takmörkun í bráðabirgðaákvæðinu hafði það í för með sér, að ákvæðið reyndist ekki lengur virkt frá 1. jan. 1950.

Ástæður þær, sem lágu til setningar þessa bráðabirgðaákvæðis á sínum tíma, eru enn fyrir hendi að verulegu leyti. Í landinu dvelja og hafa dvalið þetta, tímabil erlendir menn í þjónustu hernaðaraðila eða með einhverjum hætti á vegum þeirra, erlendir menn, sem átt hafa börn með íslenzkum konum. Sýnist ekki ástæða til þess að greiða síður fyrir þessum konum en gert var með bráðabirgðaákvæðinu, sem áður hafði gildi. Í þessu frv. á þskj. 187 er því gert ráð fyrir, að bráðabirgðaákvæðið haldi áfram gildi frá 1. jan. 1950, og eina breyt., sem gerð er í frv. eins og það liggur hér fyrir, er sú, að nú er ekki nein tímatakmörkun um það, hvenær í síðasta lagi barnsmæður, sem svo stendur á fyrir, geta leitað til dómara óg fengið nauðsynlegan úrskurð. Eins og horfir nú, er ekki vitað, hversu lengi enn erlendir menn kunna að vinna á vegum varnarliðsins, og hefur því þótt rétt að hafa bráðabirgðaákvæðið óbundið. Er þá hægurinn hjá við sjálfsagða endurskoðun þessa ákvæðis, þegar svo fer, að hinir erlendu aðilar hverfa úr landi brott.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt öllu meir. Mér virðist, að þessi framlenging á bráðabirgðaákvæðunum eigi rétt á sér. — Ég vil óska þess, að að lokinni þessari 1. umr. um málið verði því vísað til 2. umr. og væntanlega til heilbr.- og félmn., sem að vísu hefur nokkuð athugað .þetta mál, ,en þó væntanlega ekki nægilega vei í einstökum greinum.