09.02.1954
Neðri deild: 43. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

107. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Björn F. Björnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. flytur þetta frv. á þskj. 187 samkvæmt beiðni félmrh. Ég hef í fyrri ræðu um þetta mál lýst nánar, hversu brýna nauðsyn ber til þess að koma til móts við þær stúlkur, sem eignazt hafa börn með varnarliðsmönnum utan hjónabands, en þeir síðan horfið af landi brott án þess að fullnægja meðlagsskyldu sinni. Samsvarandi ákvæði var í gildi til 1. jan. 1950 eins og hér er í frv., en frá þeim tíma hefur ekkert komið í þess stað, en þá var það óvirkt og átti þá við þá menn, sem unnu á vegum eða í þjónustu erlendra hernaðaraðila.

N. er ljóst, áð það er hið fyllsta réttlætismál að rétta hlut hinna íslenzku stúlkna að þessu leyti, og hefur samþykkt að fylgja þessu ákvæði fram. Það er vitað, að í flestum tilfellum er útilokað, að barnsmæðrum takist að færa fram sönnunargögn á venjulegan hátt eða eins og þegar barnsfaðir er innanlands. Í þessum tilfellum er barnsfaðir farinn af landi brott og öll aðstaða móður til málssóknar hin erfiðasta, og hefur venjan því verið sú eða niðurstaðan, að slík mál hafa án árangurs fallið niður. Einasta leiðin sýnist því vera sú að auðvelda barnsmóður málssókn sína til meðlagsgreiðslu með þeim hætti, sem áður gilti og um er fjallað í frv. því, sem fyrir liggur. Hins vegar þykir rétt að hafa nokkurn hemil á um það, að barnsmóðir geri allt, sem í hennar valdi stendur til þess að afla meðlagsúrskurðar á venjulegan hátt á hendur barnsföður, áður en henni er auðvelduð leiðin til meðlagsgreiðslu af hálfu Tryggingastofnunar og síðan ríkissjóðs. Er viðkomandi dómara bezt til þess treystandi að segja fyrir um það, hvenær barnsmæður hafi af sinni hálfu gert nægilegar tilraunir í þessu efni. Þess vegna leyfi ég mér að flytja um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta, skriflega brtt., sem hljóðar á þennan veg:

Brtt. við 1. gr. Á eftir orðunum „og getur hún þá“ komi: að undangengnum árangurslausum tilraunum, að mati dómara, til öflunar faðernissönnunar á venjulegan hátt. Síðan haldi setningin áfram. Í öðru lagi: Í stað „erlendra hernaðaraðila“ komi: hins erlenda varnarliðs.

Þessi brtt. er borin fram með vitund félmrn. og í samráði við sakadómarann í Reykjavík, sem kemur til með að fjalla og hefur fjallað um slík mál sem þessi framar öðrum dómurum, og þykir eftir eðli máls nokkuð eðlileg, þó að hún kannske í raun og veru verði ekki praktísk, vegna þess að það er yfirleitt, eftir því sem reynslan kennir, útilokað — fyrir barnsmæður undir þessum kringumstæðum að afla faðernissönnunar á venjulegan hátt og ekki sízt vegna þess, að sambandið milli aðila, stúlkunnar og viðkomandi varnarliðsmanns, er það laust í böndum, að þar verður ekki komið fram þeim gögnum, sem annars mætti fram koma, ef aðilinn væri staddur í landinu og hlítti lögsögu íslenzks dómara eða íslenzkra aðila.

Að öðru leyti sýnist mér ekki ástæða til að ræða þetta mál frekar. Það var gert ýtarlega þegar málið var til 1. umr., og þetta er, eins og ég gat um í upphafi, réttlætismál, sem ég vænti að hv. þm. geti fallizt á. Óska ég þess, að málinu verði svo að lokinni þessari 2. umr. vísað til hinnar 3.