03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta um Kirkjubyggingasjóð á þskj. 120, sem hér er til 1. umr., flutti ég á s.l. Alþ., þegar mjög var liðið á þingtímann. Var lokið 1. umr. um frv. og því vísað til nefndar, en tími vannst ekki til þess að taka það þar til meðferðar. Nú flyt ég, ásamt hv. þm. Mýr., þetta frv. á ný, lítið breytt €rá því sem það var áður. Mér þykir hlýða að fylgja frv. úr hlaði með nokkrum orðum.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir svo: í 62. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Hin evangeliska lútherska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Í samræmi við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar ver ríkið árlega fé til kirkjumála. Er því fé varið til að launa presta þjóðkirkjunnar, kosta biskupsembættið, launa söngmálastjóra þjóðkirkjunnar o.fl. Upphæð sú, sem ríkið ver til kirkjumála samkv. fjárlögum þessa árs, er tæpar 6 millj. kr. En það er athyglisvert, að ekkert af þessu fé fer til kirkjubygginga, og er það af þeim ástæðum, að ríkisvaldið, sem samkv. stjórnarskránni skal þó vernda og styðja þjóðkirkjuna, hefur engin afskipti af kirkjuhúsunum, byggingu þeirra eða viðhaldi. Það viðfangsefni er fengið í hendur söfnuðum landsins, sem í flestum tilfellum eru eigendur kirknanna nú orðið.

Söfnuðir landsins eru misfjölmennir, en öllum er þeim lögð sú skylda á herðar að hafa innan sinna vébanda kirkjuhús, þar sem guðsþjónustur og önnur kirkjuleg starfsemi geti farið fram, halda kirkjunum við og kosta rekstur þeirra að öllu leyti, ásamt því að bera allan annan kostnað, sem af hinni kirkjulegu starfsemi innan safnaðarins leiðir, og má nefna m.a. laun organista, söngfólks og margt fleira. Til að standast þennan kostnað er söfnuðum heimilt, lögum samkvæmt, að leggja nefskatt, sóknargjald, á hvera gjaldskyldan meðlim safnaðarins, en gjaldskyldir í þessu tilfelli eru þeir sóknarmenn, sem náð hafa 16 ára aldri og ekki eru komnir yfir 67 ára aldur. Nemur þetta gjald með núverandi vísitölu nálægt 27 kr. á ári af hverjum manni. Þá er sóknarnefndum og heimilt að innheimta hundraðsgjald af útsvörum sóknarmanna, ef sóknargjöldin hrökkva ekki fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum.

Það, sem ég hér hef bent á, sýnir, að tekjur safnaðarins, sem ákveðnar eru með lögum, gera ekki betur en hrökkva fyrir óhjákvæmilegum útgjöldum til guðsþjónustuhalds í sóknunum. Sé um meiri háttar kostnað að ræða, t.d. byggingu nýrra kirkna, mikla viðgerð þeirra eða endurbyggingu, ber viðkomandi söfnuði upp á sker hvað fjárhaginn snertir. Þetta er öllum ljóst, sem þessum málum eru kunnugir.

Þessum málum er því þannig varið nú, að því leyti sem söfnuðum landsins viðkemur, að ríkið launar prest safnaðarins, en skyldar söfnuðinn að kosta allt guðsþjónustuhald að öðru leyti, þar með að byggja kirkjurnar, en ákveðið er um leið, hverjar tekjurnar skuli vera, og eins og ég hef áður minnzt á, hrökkva þær ekki nema fyrir allra nauðsynlegustu útgjöldum og tæplega það. Þegar einn söfnuður ræðst í að byggja kirkju, þá er í fæstum tilfellum fé fyrir hendi, nema aðeins til byrjunarframkvæmda. Við framhald byggingarinnar er þá safnað fé innan safnaðarins og utan, eftir því sem möguleikar eru á. Um föst, ákveðin lán til kirkjubyggingar er ekki að ræða, nema frá Hinum almenna kirkjusjóði, en þau eru mjög takmörkuð og lág miðað við hinn mikla núverandi byggingarkostnað. Það liggur því í augum uppi, að við það að byggja eða endurbyggja kirkju lenda viðkomandi söfnuðir óhjákvæmilega í fjárhagslegum vandræðum þrátt fyrir framlög safnaðarfólks og annarra í peningum, ókeypis vinnu og ýmissi annarri fyrirgreiðslu, sem í fjölmörgum tilfellum hefur sýnt sig að vera ótrúlega mikil, þó að það hrökkvi ekki til.

Þegar þetta, sem ég nú hef bent á, er haft í huga og tillit er tekið til þess ákvæðis stjórnarskrárinnar, sem kveður á um, að ríkisvaldið skuli styðja þjóðkirkjuna og vernda, ber ekki að líta á það sem fjarstæðu, heldur sem eðlilegan hlut, þegar söfnuðir landsins snúa sér til ríkisvaldsins með fjárbeiðnir og fyrirgreiðslur, þegar um er að ræða kirkjubyggingar, sem í öllum tilfellum eru verkefni, sem þeim eru fjárhagslega ofviða, en skylt að inna af hendi, og sú skylda er þeim á herðar lögð af ríkisvaldinu, enda hefur orðið sú raunin á, að fyrir hv. Alþ. hafa legið fjárheiðnir frá ýmsum söfnuðum, sem hafa staðið í kirkjubyggingum, þó að þeim beiðnum hafi í flestum tilfellum ekki verið sinnt. En það verður ekki endalaust staðið á móti þessum óskum safnaðanna um land allt, því að þær munu halda áfram að berast í stærri og stærri stíl, eftir því sem lengur er staðið á móti þeim, og allt eru þetta beiðnir um fjárstyrki, óafturkræft framlag frá ríkinu, sem halda áfram að berast, og endirinn hlýtur að verða sá, að ríkið kemst ekki hjá því áð styrkja kirkjubyggingar í landinu á einhvern hátt.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að leysa þetta vandamál safnaða landsins, kirkjubyggingarnar, á þann hátt, að myndaður verði sjóður, sem hefur það verkefni að lána fé til kirkjubygginga.

Ég vil nú fara nokkrum orðum um frv. og leitast við að gera grein fyrir því, hvaða hjálp það ætti að veita við kirkjubyggingar, ef það næði fram að ganga.

Í 1. gr. er svo fyrir mælt, að stofna skuli sjóð, er hafi það hlutverk að veita söfnuðum landsins vaxtalaust lán til kirkjubygginga og til varanlegra endurbóta á eldri kirkjum. Síðar segir, að ríkissjóður greiði í sjóðinn 1 millj. kr. á ári í næstu fimm ár og síðan árlega 500 þús. kr. í næstu 15 ár. Þegar þessum greiðslum er lokið, hefur ríkissjóður greitt í sjóðinn 121/2 millj. kr. Miða skal lánsupphæð til kirknanna við stærð þeirra, og má lán nema 200 kr. á hvern rúmmetra kirkju, þó aldrei meiru en 1000 kr. á hvern fermetra gólfflatar. Lánið endurgreiðist sjóðnum með jöfnum afborgunum á 50 árum. Til endurbóta eldri kirkna má ekki veita úr sjóðnum hærri lán en sem svarar 1/4 stofnkostnaðar. Þau lán séu til 20 ára. Í frv. er miðað við, að lánið nemi nálægt 1/5 til 2/5 af byggingarkostnaði kirknanna. Má segja, að þetta sé hóflega í sakirnar farið, þegar einnig er tekið tillit til þess, að ekki er um styrk áð ræða, heldur lán, sem söfnuðirnir endurgreiða að fullu í hinn sameiginlega Kirkjubyggingasjóð, og kemur þannig hið sama fé til nota nýbyggingar kirkna, eftir því sem söfnuðirnir, þar sem kirkjur hafa verið reistar, endurgreiða Kirkjubyggingasjóði lánin. Auk þess sem telja verður höfuðtakmark sjóðsins að styðja að nýbyggingu kirkna, ber honum einnig að veita þeim kirkjum stuðning, sem viðgerðar eða varanlegra endurbóta þarfnast, með því að lána þeim vaxtalaust lán til 20 ára. Er þetta ákvæði sett til þess, að fremur verði látin fara fram viðgerð á kirkjunni, þar sem það telst hagfellt, heldur en að krefjast endurbyggingar á henni að öllu leyti, en á slíku væri nokkur hætta, ef til endurbyggingar fengjust hagkvæm lán, en engin til endurbóta eldri kirkna. Þá er gert ráð fyrir, að úr Kirkjubyggingasjóði verði greiddir vextir af lánum, sem söfnuðirnir hafa tekið til kirkjubyggingar og endurbyggingar á eldri kirkjum síðan dýrtið tók að vaxa. Þykir eðlilegt að hlaupa undir bagga með þessum söfnuðum, sem mjög eru skuldugir vegna þessara framkvæmda.

Það hefur lauslega verið athugað og gerðar áætlanir um, hvað byggja þyrfti af kirkjum á næstu 20 árum. Sú athugun hefur leitt í ljós, að aðkallandi þörf væri á að byggja 130 kirkjur í sóknum með innan við 300 íbúa, 25 kirkjur í sóknum utan Reykjavíkur með yfir 300 íbúa og 5 kirkjur í sóknum í Reykjavík. Við athugun á mannfjölda í þessum sóknum og nauðsynlegum sætafjölda í kirkjunum kom í ljós, að rúmmál þeirra allra þyrfti að vera 57200 m3. Sé gert ráð fyrir, að byggingarkostnaður sé um 500–550 kr. fyrir hvern rúmmetra, yrði heildarkostnaður þessara kirkna rúmlega 30 millj. kr. Miðað við þessar áætlanir mundi framlag ríkisins í vaxtalausum lánum til kirkjubygginganna verða 11 millj. kr. eða nálægt því, og er það sem næst 1/3 af byggingarkostnaðinum að meðaltali.

Til þess að gefa hugmynd um kostnað við byggingu hinna smærri kirkna og hve mikill hluti þess kostnaðar yrði lán samkv. ákvæðum frv. um Kirkjubyggingasjóð, skulu nefnd nokkur dæmi.

1) Sóknarmenn eru 100. Kirkja, sem tæki riflega helming sóknarmanna í sæti, verður um 50 m2 að gólffleti og um 1503 að stærð. Byggingarkostnaður um 500 kr. á rúmmetra yrði 75000 kr. Þar af verður lán úr sjóðnum 200 kr. á rúmmetra eða um 30000 kr. Þetta er að vísu ekki mikil hjálp, og getur verið erfitt fyrir 100 manna söfnuð að leggja fram 45 þús. kr. Þó er þess að gæta, að framlög ættu að geta orðíð í vinnu eða annarri fyrirgreiðslu, sem hægara væri að inna af hendi en beinar peningagreiðslur. Þá ætti einnig að fást nokkurt lán úr Hinum almenna kirkjusjóði, ef til vill 10–15 þús. kr.

2) Sóknarmenn 150. Kirkja, er tæki 75 í sæti, yrði um 65 m2 að gólffleti og um 227 m3. Byggingarkostnaður um 113500 kr., þar af lán úr sjóðnum 45400 kr. Framlag safnaðarins 68000 þús. kr., eða um 450 kr. á mann, sama upphæð og í hundrað manna sókninni.

3) Sóknarmenn 600. Kirkja, er tæki 200 manns í sæti; yrði um 200 m2 að gólffleti og um 1000 m3. Byggingarkostnaður 550 kr. á rúmmetra, 550 þús. Lán úr sjóðnum yrði 200 þús. Þurfa þá safnaðarmenn að leggja fram 350 þús. kr., eða um 600 kr. á mann.

4) Kirkja í Reykjavík. Sóknarmenn 5 þús. Kirkjan tekur 400 menn í sæti. Gólfflötur 440 m2. Rúmmetrar 2640. Byggingarkostnaður 1 millj. 452 þús. kr. Lán úr sjóðnum 440 þús. Safnaðarmenn yrðu að leggja fram 1012000 kr., eða 202 kr. á mann.

Af dæmum þessum er sýnt, að enda þótt ekki sé farið fram á nema lítinn hluta af byggingarkostnaðinum, þá verði þetta eigi að síður nokkurn veginn nægilegt hjálp, til þess að söfnuðir landsins mundu á næstu árum sjá sér fært að byrja á nauðsynlegum kirkjubyggingum.

Ég vil að síðustu láta þá ósk í ljós, að hv. alþm. taki þessu frv. með skilningi og velvild. Ég efast ekki um, að þeim, eins og öllum öðrum, er ljóst, að nái það fram að ganga, leysir það mikinn vanda á sínu sviði, vanda, sem að dómi okkar flm. og fjölmargra annarra verður ekki leystur á öllu heppilegri hátt en þann, sem hér er bent á.

Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.