03.11.1953
Efri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar maður lítur á þetta frv., þá koma ákaflega margar spurningar fram í hugann: Ein sú fyrsta er náttúrlega sú, hvort ríkið eigi að vera að skipta sér af kirkjunni. Ég skal ekki fara neitt út í það núna, en það er náttúrlega mál, sem er þó þess vert, að því sé gaumur gefinn, og í raun og veru á að hugleiða í sambandi einmitt við þetta, sem nú liggur fyrir.

Þar næst er það, hvort sú sóknarskipting, sem er í landinu, sé á nokkru viti byggð. Landið hefur skipzt í sóknir — nærri því að segja af handahófi. Langoftast hefur ráðið þar fjárgræðgi presta og preláta; sem að því hafa staðið á einn og. annan hátt, og hefur endað með þeim ódæmum, að til er hér á landi bær, sem er annað árið í þessari sókninni og hitt árið í hinni, af því að prestarnir á sínum tíma sættust á það. Á öðrum stöðum eru til bæir, sem eiga að sækja yfir ófær vatnsföll til að komast á sinn kirkjustað, þó að rétt hjá þeim sé annar kirkjustaður, sem þeir geti gengið til þurrum fótum allan ársins hring. Á þann hátt hafa sóknirnar orðið til. Það er því ekkert vit í sóknaskiptingunni, sem núna er, bæði af því, að hún hefur aldrei verið gerð af viti hingað og þangað um landið, en líka af því, að aðstæðurnar hafa breytzt með brum og vegum og öðrum aðstæðum, svo að kirkjurnar standa alls ekki á þeim stöðum, sem maður vildi staðsetja þær á í dag og taka tillit til þess, að sem haganlegast væri að sækja þangað kirkju fyrir söfnuðinn. Ég fullyrði, að enginn, sem kynnti sér legu kirknanna nú, mundi láta sér detta í hug að láta þær standa þar áfram, ef hann ætti að segja til um, hvar þær væru bezt settar, til þess að fólk gæti sótt þangað prestsþjónustu: Hann mundi færa margar þeirra til og hafa þær á allt öðrum stöðum, fækka þeim og breyta alveg sóknaskipulaginu, sem núna er ríkjandi í landinu. Af því leiðir þá aftur, að það er ekki hægt að ætlast til þess, að alþm. fari að samþ. frv. um það að stofna hér sjóð, sem hver sókn geti hlaupið í og fengið lán úr til að byggja kirkjur, sem allir heilvita menn sjá að ekkert vit er að hafa á þeim stöðum í landinu, sem þær stenda nú á. Áður en byrjað er á því að búa til sjóð og veita öllum sóknarnefndum landsins aðgang að honum til þess að fá úr honum lán til sinnar kirkju, þá þarf að vera búið að ákveða, að kirkjan sé þar, sem hún á að vera, og hafi það umdæmi í kringum sig, sem er hæfilega stórt, miðað við þörf landsmanna, til að reisa kirkjur og borga prestum. Mér finnst ekki koma til mála að sinna þessu frv. fyrr en búið er að athuga þessa hlið málsins, og ég vil biðja n. að athuga þetta vel. Það hafa flestir farið norður á Akureyri og séð í Miðfirði Staðarbakka- og Melstaðarkirkjur standa hvora við hliðina á annarri, enginn bær er á milli, en um 2–3 km. Það væri dálítið vit í því að fara að veita þeim báðum lán af almannafé til að byggja upp kirkjurnar þarna. Ég tek þetta dæmi af því, að flestir hafa séð þetta, en dæmin eru mjög svipuð víða annars staðar á landinu. Þess vegna þarf, áður en hægt er að samþ. svona frv. á Alþingi, að vera búið að ákveða, hvernig landið skiptist í sóknir og hvar kirkjurnar eigi að vera. Það er það fyrsta, sem þarf að gera í þessu máli, og að þessu vilja þeir náttúrlega vinna, sem vilja hafa kirkjuna áfram og ríkið í einu sálufélagi, hinir, sem ekki sjá neitt sérstakt eftirsóknarvert. við það, fara sér náttúrlega hægt.

Annars er það dálítið einkennilegt við málið, sem var hér á dagskrá næst á undan, að þá deildu þeir mikið um það, þm. S–Þ. og hv. 1. þm. Eyf., hver hefði umráð yfir þessu afréttarlandi á Bleiksmýrardal, sem þeim bar nú saman um að kirkjan á Hrafnagili hefði átt. Já, kirkjan á Hrafnagili átti afréttina, og það upplýstist í umræðunum, að presturinn á kirkjustaðnum hafði hana til afnota, og honum var hún metin sem heimatekjur, eftirgjald kr. 40.00, en hann leigði hana á 80 kr. öðrum. Hann var ekki að láta kirkjuna græða á að leigja hana hærra út; nei, hann stakk því í eigin vasa. Og þær fáu kirkjujarðir, sem enn þá heyra undir prestana, eru hver einasta eln leigðar á tvöföldu til fimmföldu verði hærra en prestunum eru metin afnotin af þeim sem heimatekjur. Og enginn af prestunum er sá guðsmaður að láta kirkjuna njóta þess til að byggja sig upp eða koma henni í lag. Nei, ónei, þeir hafa það sjálfir sem aukatekjur fyrir sig: Svoleiðis er nú áhuginn á stöðunum þeim, þar sem þær enn þá eru. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að yfirráð í þessu efni séu dregin undan kirkjunni og í stjórnarráðið og tekjurnar renni beint í kirkjujarðasjóð. Og þeir eru þá ekki meiri okrarar í þessu heldur en rokrarar á íbúðum, eins og þeir gera enn; þar sem þeir hafa það á sínu valdi.

Ég ætla að biðja n. mjög að athuga þetta, athuga það, að ég tel algerlega fráleitt, frá hvaða sjónarmiði sem litið er á málið, að það eigi að stofna almennan sjóð, sem allar sóknir gefi gengið í og fengið lán úr, þegar þær þurfa að endurbyggja sína kirkju, áður en búið er að ákveða, að kirkjan sé á þeim stað, sem hún eigi að vera í framtíðinni, og hæfilega margar fyrir þjóðfélagið að standa undir og byggja.