27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Ingólfur Flygenring:

Herra forseti. Ég flyt brtt. við frv. um Kirkjubyggingasjóð. Ég var ekki að öllu leyti á sama máli og flm:, þótt ég sé málinu hlynntur, og skrifaði því undir með fyrirvara og flutti brtt., sem er á þskj. 194. Ég segi, að ég var hlynntur frv., en tel þó, að með brtt., sem lögð er fram, að framlagið úr ríkissjóði verði sett í 500 þús. kr. á ári öll árin í stað þess, að það skuli vera samkv. frv. 1 millj. á ári fyrstu fimm árin, sé þetta heppilegra og því meiri líkur til þess, að það nái fram að ganga.

Svo lengi sem íslenzk þjóðkirkja er hér, ber ríkisvaldinu að hlúa að henni og þá með því, að hægt sé að hafa kirkjurnar sæmilegar að útliti, bæði ytra og innra, en víða þarf að endurbyggja og endurbæta þær, og þau hagkvæmu lán, sem farið er fram á, eiga að hjálpa söfnuðunum til þess að framkvæma þetta hlutverk. Ég tel sjálfsagt, að Alþingi sjái sóma sinn í því að veita fé í áður nefndan Kirkjubyggingasjóð, en dragi slíkt ekki ár eftir ár. Ekki flýtir það fyrir framkvæmdum.

Það er komin fram nú brtt. frá hv. þm. Barð. Ég hef ekki nema rétt aðeins séð hana og get því ekki fyllilega áttað mig á henni eins og stendur, en það er líklegt, að hann flytji ræðu um þetta og skýri frá því, hvað hann telur heppilegast í þessu. Að vísu hef ég aðeins farið yfir þetta, en það væri fróðlegt að fá meira að heyra um þetta.