27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 203 borið fram brtt. við frv. það á þskj. 120, sem liggur hér fyrir til umræðu, um Kirkjubyggingasjóð. Legg ég þar til, að í staðinn fyrir fyrri málsgr. í 2. gr. komi tvær málsgr., er orðist svo:

„Ríkissjóður afhendir Kirkjubyggingasjóði allar þær fasteignir, sem kirkjan átti í landinu á sínum tíma og ríkissjóður er nú eigandi að. Skal sjóðnum heimilt að selja eignirnar á frjálsum markaði eða að ráðstafa þeim á annan hátt, og ganga tekjur allar, hvort heldur eru af sölu eignanna eða leigu, óskiptar til Kirkjubyggingasjóðs.“ Seinni málsgr. hljóðar svo:

„Hafi ríkissjóður látið af hendi eitthvað af þeim fasteignum, er hann hefur fengið frá kirkjunni, eða tekið þær til afnota fyrir stofnanir, ber honum að afhenda Kirkjubyggingasjóði aðrar fasteignir sínar í þeirra stað, enda séu þær fasteignir eigi minna virði að fasteignamati.“

Þessi till. mín er byggð á því, að ég er fullkomlega sammála hv. flm. um þá nauðsyn, sem er fyrir því, að fé sé fyrir hendi til þess að byggja upp kirkjur landsins. Ég tel það síður en svo sóma fyrir þjóðina að hafa vanrækt þennan þátt uppeldis- og menningarmálanna í landinu eins og raun ber vitni um. Hitt er vitað, að ef það á að sækja þetta fé til ríkissjóðs á hverjum tíma, eins og gert er ráð fyrir í 2. gr., þ.e. að taka upp á fjárlög stórar fjárfúlgur, þá muni það mæta, sem eðlilegt er, allmikilli mótstöðu. Hitt er jafnvitað, að kirkjan sjálf á inni stórar eignir hjá ríkissjóði, þar sem honum hafa verið afhentar áður fyrr svo að segja allar eignir kirkjunnar, svo sem biskupsstólarnir, fjöldi af beztu jörðum í landinu o.s.frv., sem ríkissjóður er í dag eigandi að. Hér er um að ræða eignir, sem ekki eru til tekna fyrir ríkissjóð, hvorki á einn né annan hátt heldur stórkostlegur baggi á ríkissjóði, eins og kom fram m.a. í umræðum hér um sölu ríkissjóðsjarða fyrir nokkru. Það eru því slegnar hér tvær flugur í einu höggi, annars vegar að létta stórkostlegri fjárhagslegri byrði af ríkissjóði með því að afhenda þessar eignir að fullu og öllu til hins rétta aðila, sem er kirkjan í landinu, og forða honum þar að auki frá því að leggja fram stórar fjárfúlgur til kirkjubygginga, eins og til er ætlazt með frv.

Mér þykir rétt að geta þess, að á s.l. ári átti ég ýtarlegt samtal um þessi mál við fyrrverandi biskup landsins, sem nú er nýlátinn, og einmitt á þeim grundvelli, sem ég hef nú lagt til, og hafði hann fullkomlega áhuga á því, að slík skipun málanna mætti takast, ef um það fengist samkomulag. Ég hygg, að með þessu móti fái kirkjan miklu öflugri fjárhagslega aðstoð en hún gæti fengið, jafnvel þótt frv. yrði samþ. óbreytt, en á sama tíma, eins og ég gat um áðan, yrði þetta enginn baggi á ríkissjóði, nema síður sé, því að eins og nú er vitað, þá hefur ríkissjóður allmikinn bagga af þessum jörðum.

Það mætti segja, að það þætti einkennilegt að halda því fram, að það geti verið tekjulind fyrir kirkjubyggingasjóðinn, úr því að það er baggi fyrir ríkissjóð, en það er ætlazt til þess, að Kirkjubyggingasjóðurinn fengi fullt og óskorað vald yfir þessum eignum, mætti selja þær hvenær sem hann vildi á frjálsum markaði og gæti þá gert sér úr þessu mjög miklar fjárfúlgur og meiri en þær, sem ætlazt er til að ríkissjóður legði til samkv. frv. Þessu mundi verða vel tekið af öllum viðkomandi aðilum, sem nú sitja á þeim jörðum, sem hér um ræðir, og mundu þeir verða fúsir til þess að kaupa jarðirnar á sanngjörnu verði og Kirkjubyggingasjóðurinn þannig fá nægilegt fé til þess að inna þetta hlutverk af hendi, sem ég tel að sé mjög aðkallandi í sambandi við þessi mál.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða efnislega meir um þetta atriði. En vegna þess, hversu hér er um róttæka brtt. að ræða, þá þætti mér ekki óeðlilegt, að hv. flm. óskuðu eftir því og hv. form. n., að þessari umr. yrði nú frestað, nefndin fengi tækifæri til þess að athuga þessa brtt. og aðrar, sem fram eru komnar, nánar og m.a. aflaði sér upplýsinga um það hjá rn., hvað mikið af jörðum er í eigu ríkisins nú, sem kirkjan raunverulega hefur átt áður og af henni hafa verið teknar, hvað hér sé um mikla fjármuni að ræða og hvort ekki séu líkindi til þess, að Kirkjubyggingasjóður mundi fá eins mikla upphæð eða meiri en ætlazt er til með frv. óbreyttu. — Ég vil því vænta þess; að hv. form. og hv. flm. sæju sér fært að láta fresta umræðunni og teldu það beztu meðferð á málinu, og lengi ekki umræðurnar á þessu stigi frekar.