27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að áður en þeir, sem annars vildu nú halda við þjóðkirkjunni og láta ríkið byggja upp kirkjurnar, gætu horfið að' því, þá yrðu þeir að gera sér ljóst, hvar ætti að byggja upp kirkjurnar, hvort það ætti að byggja þær upp á þeim stöðum, þar sem þær standa nú, eða annars staðar, hvort ætti að fækka þeim, færa þær saman, eða yfirleitt hvernig sú framtíðarskipun ætti að verða. Mér var þá bent á það, að eftir 3. gr. sé nefnd, sem eigi um þetta að sjá. Þetta var misskilningur, sú nefnd á einungis að samþykkja teikninguna, sem af kirkjunni er gerð, og annað ekki.

En þegar þetta mál kemur fram nú, þá koma hér fleiri tillögur, og þá óneitanlega fer maður að hugsa meira um það, hvað er nú hin íslenzka þjóðkirkja, hvað er það, sem hún gerir, og hverri skoðun heldur hún fram. Er hún samstæð, þannig að það sé hægt að tala um hana sem eina heild? Ég held, að hún sé það ekki. Og ég held, að það sé hið mesta glapræði fyrir allt andlegt líf í landinu að halda við íslenzku þjóðkirkjunni og láta ekki kirkjuna vera alveg aðskilda frá ríkinu.

Ég skal útskýra þetta með einu dæmi af ótalmörgum, sem ég gæti tekið. Það er hér í Reykjavík ákaflega trúaður og góður maður, kallaður að vera, og er það vafalaust, hann vinnur í opinberri stofnun. Það .var þegar svokallað Sigurðar Einarssonar-mál stóð yfir, að ég að morgni dags þurfti að finna þennan mann og fór í stofnunina, sem hann vann í, nokkru áður en vinnutími átti að byrja. Þá sat hann og las í Nýja testamentinu. Það gerir hann á hverjum morgni áður en hann byrjar sína vinnu, allan ársins hring, og hefur gert í mörg ár. Þegar við svo fórum að tala saman, þá spurði hann mig, hvort ég vissi nokkuð, hvernig þetta Sigurðar Einarssonar-mál stæði. Nei, ég hafði ekki hugmynd um það. En ég lét eitthvað orð falla að því, að ég teldi nú Sigurð Einarsson þannig mann, að það væri nú ákaflega hæpið, hvort hann væri holl fyrirmynd fyrir prestsefnin, og hæpið, hvort hann væri nú rétt valinn sem kennari fyrir þá, sem ættu að verða prestar í landinu. Þá sagði þessi maður, þessi trúaði maður, sem er mjög áberandi í trúarlífi Reykvíkinga. Ja, það er nú einmitt það, hann hefur svo oft fallið, og hann hefur svo oft hrasað, og hann þekkir svo vel, hvað það er að fá fyrirgefningu á syndunum að hann getur allra manna bezt prédikað fyrir mönnum og verið prestur. Og þegar við fórum svo nánar að tala um þetta, þá kom það alveg greinilega í ljós, að hann trúði því, að það væri nákvæmlega sama, hvað maður gerði og hvernig maður breytti í dag, ef maður bara dæi ekki það fljótt, að maður gæti beðið um fyrirgefningu áður gæti maður það, væri allt í fínu lagi. Þetta var hans lífsskoðun. Svo mun hafa liðið kringum hálfur mánuður. Þá var ég kominn á ferðalag út á land og hlustaði á prédikun hjá prófasti í einu prófastsdæmi þessa lands, þar sem hann lagði út af orðunum: Af verkunum skuluð þið þekkja þá — og fordæmdi gersamlega, að menn gætu fengið slíka fyrirgefningu, sem hinn hafði talið aðalsáluhjálparatriðið, og lagði ríka áherzlu á það, að menn yrðu að vanda sitt líferni og lifa þannig eins og kristnum manni sæmdi. Þarna voru tvær ákaflega miklar andstæður, báðar innan þjóðkirkjunnar. Báðir voru ákaflega mikilsmetnir menn í þjóðkirkjunni, annar prófastur í sínu prófastsdæmi, hinn mjög mikils metinn maður hér í safnaðarlífi Reykjavíkur og öllu, sem að því laut. Ég gæti tekið ótalmörg dæmi svona. Ég gæti nefnt samtal við prest, sem taldi, að ég eiginlega ætti vísa leið að fara til helvítis, af því ég sagði, að mér dytti ekki í hug að trúa á meyjarfæðinguna. Að efa það, að meyjarfæðingin hefði átt sér stað, það taldi hann alveg dæmalaust og víst, að sá maður gæti ekki farið til himnaríkis, sem hefði þá trú. Þessi prestur lifir enn og er starfandi í þjóðkirkjunni íslenzku.

Ég gæti nefnt bunka af dæmum, sem sýna það, að þjóðkirkjan er samansafn af svo gerólíkum skoðunum, að þegar allir eiga að fara að standa saman um einhvern sameiginlegan samnefnara, sem á að vera það, sem þjóðkirkjan á að kenna og prédika, þá er hann ekki til.

Það er nokkuð langt síðan ég neyddist til þess einu sinni að lesa bæn við kirkju, þar sem átti að vígja prest af einum vígslubiskupi þessa lands, sem líka lifir enn þá. (Gripið fram í,) Já, neyddist til af því að meðhjálparinn var ekki við. Ég sagði við vígslubiskupinn, að ég gæti ekki eiginlega gert það, mér væri ómögulegt að lesa bænina eins og hún var orðuð með nokkurri andagt og nokkurri áherzlu. „Hvað gerir það til ? Heldur þú, að maður sé ekki á hverjum einasta degi að prédika það, sem maður ekki trúir?“ — Það var annar af vígslubiskupum landsins, sem sagði þetta. Það gerði ekkert til; það væri alltaf verið að prédika það, sem menn tryðu ekki. Svona er nú þjóðkirkjan. Og þegar svona er ástatt með hana, þá finnst mér koma ákaflega mikið til athugunar, hvort það eigi ekki að ganga inn á till. þm. Barð. á þskj. 203, náttúrlega breytta, því að það nær ekki nema þangað til við fengum umráð yfir kirkjueignunum og þær hafa runnið í ríkissjóð, lengra. aftur í tímann getum við ekki náð, og svo lofa kirkjunni að eiga þessar eignir og sjá svo um sig sjálfa. Þá koma saman mennirnir, sem hafa sömu skoðanir, sömu lífsviðhorf, þá sameina þeir sig um prest, sem hefur sams konar lífsskoðanir og þeir. Þá eru þeir ekki neyddir til að hlusta á prest, ef þeir vilja annars fara í kirkju, sem prédikar alveg þveröfugt við það, sem þeir sjálfir trúa, og hefur ekki nokkur einustu áhrif í einu eða neinu á breytni þeirra eða lífsviðhorf yfirleitt. Þá mundu hverfa prestarnir, sem segja eins og prestur hátt á áttræðisaldri sagði við mig einu sinni, að hann hefði alltaf verið að vona það, að það væri til annað líf, allan sinn prestsskap. Hann var nú aldrei viss, en hann var alltaf að vona það. En hann átti að gefa öðrum vissuna. Menn mundu þá ekki gefa sig í prestsþjónustu bara til þess að sitja í einhverju brauði, sem kallað er, og fá sín laun. Þá mundu ekki koma aðrir í þær stöður en menn, sem hefðu trú á því, sem þeir væru að prédika, og gætu þar af leiðandi haft áhrif á fólkið.

Ég held þess vegna, að það sé til athugunar fyrir þessa n., þegar hún nú heldur áfram sínu starfi, annaðhvort eftir þessa umr. eða á milli umræðna, ef þessari umr. verður frestað, hvort hún eigi ekki að breyta þessu öllu saman í það horf að leggja til, að það sé rannsakað, — ég hugsa nú, að það þurfi beinlínis mþn., — hverjar séu réttmætar eignir kirkjunnar, hvað ríkið hafi fengið mikið af kirkjueignum og hvernig því eigi að haga. Það er það fyrsta, sem þarf að upplýsa í málinu, og svo þar næst, hvernig það á að greiðast. Svo kemur til mála, hvort maður á ekki að gera kirkjuna sjálfstæða stofnun, lofa henni að vera út af fyrir sig með sínar skoðanir, skiptast eftir því, sem menn vilja um það, en ekki vera að þvinga fram þjóðkirkju og neyða alla til að vera í henni, þó að þeir séu alveg á öndverðum meið við þá af þjónum þjóðkirkjunnar, sem þeir þó verða að hlýða á og eiga að hafa not af. Þá mundi á þessu þingi ekki vera gert annað, — nema því aðeins að þetta sé minna verk en ég held það sé, — en að samþ. að láta rannsaka þetta. Ég held, að það hljóti að vera töluvert mikið verk að rannsaka, hvað mikið kirkjan á hjá ríkinu, hverjar hennar eignir séu, hvernig þær verði henni bezt afhentar, — afhenda henni þær og lofa henni svo sjálfri að byggja sig upp eins og hún vill, en ekki að vera að þvinga menn til þess að vera í þjóðkirkju, hvort sem þeir vilja eða ekki. (Gripið fram í: Það geta allir sagt sig úr þjóðkirkjunni.) Ég veit menn geta það, — geta það og geta það þó ekki, því að yfirdrepskapurinn og hræsnin eru nú orðin svo ríkjandi í þjóðfélaginu, að það er yfirleitt miklu betur séð, að menn hangi í þjóðkirkjunni, þó að þeir séu ósammála henni í öllum atriðum, heldur en að þeir segi sig úr henni. Það er miklu betur séð. Menn eru orðnir vanir við það, að þetta er þjóðkirkjan. Menn eru vanir við að vera í henni, — en þó að þeir séu á allt annarri skoðun, þó að menn fari aldrei í kirkju, þó að menn hafi ekkert gagn af að hlusta á þann prest, sem menn eiga að hlusta á, o.s.frv., og jafnvel þó að menn rífi það allt saman niður, það er allt annað mál, til þess tekur enginn. Það lítur enginn maður með neinni rýrð á manninn fyrir það, þótt hann þannig sé ósamkvæmur sjálfum sér. En ef hann stendur utan við þjóðkirkjuna eða borgar sérstaklega til háskólans, þá er það talin undarleg sérvizka að geta nú ekki verið í þeirri ákaflega rúmgóðu þjóðkirkju, sem enga skoðun hefur á neinu og lofar mönnum að vera eins og þeir vilja með sínar skoðanir.

Ég held, að það, sem núna ætti að gera, væri að undirbúa það, að málið yrði rannsakað fjárhagslega, þannig að á næsta þingi lægi fyrir, hvaða réttmætar kröfur kirkjan getur gert á ríkið, og þá bæri að athuga, hvort ekki ætti að lofa kirkjunni að fá þær eignir, finna einhverja leið til þess og lofa henni svo að vera með sínar skoðanir eins og henni sjálfri sýnist og láta ríkið hætta að skipta sér nokkuð af henni.