09.11.1953
Neðri deild: 19. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fylgja brtt. þeim, sem ég hef borið hér fram ásamt hv. 8. þm. Reykv. á þskj. 135, úr hlaði með nokkrum orðum, ekki sízt með tilliti til þess, að íslenzk löggjöf er nú að verða með þeim endemum, að það þyrfti að gefa út sérstakar skýringar eða dulmálslykla, jafnvel fyrir hv. alþm., ef þeir ættu að geta skilið hana til hlítar í fljótu bragði. Mál það, sem hér er til umr., er framlenging á 3. kafla l. nr. 100 frá 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, og er frá hæstv. ríkisstj., um það að framlengja þennan kafla óbreyttan eitt ár enn. En á þskj. 135 höfum við hv. 8. þm. Reykv. borið fram brtt. þess efnis, að niður falli úr þessum kafla nokkrar greinar, sem ákveða, að leggja skuli á söluskatt í smásölu og annarri sölu, þ. á m. á íslenzkan iðnaðarvarning, svo og þjónustu ýmiss konar, og með hverjum hætti þetta skuli lagt á og innheimt. Við höfum lagt til samkv. þessu þskj., að þetta verði fellt niður.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að núverandi framkvæmd lagaákvæða um söluskatt er bæði óvinsæl og ósanngjörn. Þetta stafar m.a. af því, að oft og einatt er söluskatturinn lagður á og innheimtur af sömu vörunni eða þjónustunni oftar en einu sinni. Meira að segja kveður svo rammt að þessu, að þess eru ekki fá dæmi, að söluskatturinn er innheimtur allt að því þrisvar og jafnvel fjórum sinnum af sömu vörunni eða þjónustunni. Af þessu er augljóst, hve lagaákvæðin um söluskattinn eru ranglát, en með frv., sem hér um ræðir, fer ríkisstj. enn þá einu sinni fram á það við hv. Alþ., að það framlengi þessi fráleitu og ranglátu lög. Það er einnig öllum ljóst, sem þessum málum eru kunnugir, að ekki kemur í ríkissjóð nándar nærri allur sá söluskattur, sem innheimtur er í skjóli laganna. Þetta á einkum við um söluskatt, sem lagður er á og innheimtur af smásölu og alls konar þjónustu. Þótt leiðinlegt sé frá að segja, er þjóðhollusta og heiðarleiki sumra þeirra, sem treyst er til þess að innheimta söluskattinn af veittri þjónustu, ekki meiri en það, að í staðinn fyrir að skila binum innheimta skatti í ríkissjóð, stinga þeir honum í eigin vasa. Með þessum lögum um söluskatt hefur hið háa Alþ. einnig beinlínis lagt þá freistingu fyrir ýmsar breyskar og veikar sálir að ganga inn á braut óráðvendninnar og það á þann hátt, er sízt skyldi, þ.e.a.s. með því að gefa þeim tækifæri til að stinga í eigin vasa fé, sem hið opinbera átti, án þess að vottum verði við komið. Er engum manni fært að gera sér grein fyrir, hve marga hið háa Alþ. hefur þannig leitt fyrstu sporin á braut óráðvendninnar fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstj. né hve margir hafa á þennan hátt beinlínis verið gerðir að þjófum, sem annars hefðu sloppið við að verða þeim lesti að bráð.

Á árinu 1950 átti ég viðræður við hinn hámenntaða, gáfaða og ágæta mann, fyrrverandi skrifstofustjóra í fjmrn., um þessi mál, og var honum alvara þeirra ljósari en mörgum öðrum, svo sem von var. Sagðist hann hafa fært það í tal við ráðh., að afnema yrði söluskattinn af þeim hluta, sem brtt. þær, sem ég hef hér borið fram ásamt hv. 8. þm. Reykv., fela í sér. Að þessu athuguðu sýnist mér tiletni til að minna hv. þingmenn á það, að þeir eru hér á hv. Alþ. fulltrúar almennings í landinu, en ekki einkafulltrúar eða viljalaus atkvæði hæstv. ríkisstj. Með tilliti til þess má þeim vera ljóst, að þeir geta hvorki né mega samþ. frv. hæstv. ríkisstj. á þskj. 4 óbreytt. Þeir kunna ef til vill að hafa haft þá afsökun, þegar lögin voru upphaflega sett, að þá hafi þeim ekki verið ljósar afleiðingar þeirra, en þegar þessar afleiðingar eru ljós komnar jafnátakanlega og hér hefur verið lýst, hafa hv. þm. enga afsökun lengur og eru brotlegir við meðbræður sina og tilgang og sæmd hins háa Alþ., ef þeir loka augunum fyrir. Einnig eru lög þau, sem hæstv. ríkisstj. fer fram á að Alþ. framlengi, á þann veg, ef framlengd yrðu óbreytt, að hæstv. ríkisstj. kæmist ekki hjá því að verða sjálf brotleg við gildandi lagaákvæði, vegna þess að 29. gr. þessara laga mælir svo fyrir, að af tolltekjum þeim, sem ráðgerðar verða á fjárlögum 1949, skuli 22 millj. kr. renna í dýrtíðarsjóð. Þetta hefur að sjálfsögðu ekki verið framkvæmt árin 1950–53 og yrði ekki á árinu 1954, enda óframkvæmanlegt, en er engu að siður ótvirætt brot á gildandi lögum.

Til þess að gefa hv. þm. tækifæri til að bæta fyrir aðgerðir sínar síðustu árin í þessum efnum, höfum við hv. 8. þm. Reykv. borið fram brtt. á þskj. 135. Brtt. þessar eru bornar fram bæði til þess að sneiða verstu annmarkana af frv. og einnig til að koma í veg fyrir, að purkunarlausir menn geti hagnazt á kostnað ríkissjóðs í skjóli laganna eða að veikgeðja manna yrði með þeim freistað um of til óráðvendni. Samkv. brtt. er ætlazt til þess, að 2. og 3. málsl. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 100 frá 1948 falli niður, en í þessum málsliðum eru ákvæði um heildsölu og umboðssölu. Þá er ætlazt til þess, að 22. gr. laganna falli öll niður, en í þeirri gr. eru ákvæði um söluskatt af smásölu og annarri sölu, þ. á m. innlendum iðnaðarvörum. Ef brtt. ná fram að ganga, verður söluskatturinn þannig einungis innheimtur af innfluttum vörum. Með þessu móti vinnst í fyrsta lagi það, að það verður ekki margsinnis lagður söluskattur á sömu vöruna, og í öðru lagi ætti með þessu fyrirkomulagi að vera tryggt, að allur söluskatturinn lendi í ríkissjóði. Niðurfelling 24., 26. og 27. gr. laganna leiðir af niðurfellingu 22. gr. þeirra. Þá má benda á það, að forsendur fyrir álagningu söluskattsins eru löngu fallnar niður, með því að upphaflega var söluskatturinn einungis lagður á til að koma í veg fyrir gengisfall og til þess að standa straum af greiðslu uppbóta á útflutningsvörum landsmanna. Loks þykir mér rétt að geta þess, að ég hef spurzt fyrir um það hjá tollstjóranum í Reykjavík og ríkisbókara, hve miklum hluta af heildarsöluskattinum sá hluti næmi, sem hér er lagt til að falli niður. Af þeim athugunum er ljóst, að það er um 1/3 hluti. En í því sambandi þykir mér rétt að endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr. um þetta frv., að hv. þm. hafa af því margra ára óbrigðula reynslu, að fjárlagaáætlanir hæstv. fjmrh. eru alltaf vitlausar á sama veg, þ.e. að tekjuáætlanirnar eru of lágar. Með hliðsjón af þeirri staðreynd fullyrði ég, að svo muni enn og því muni raunverulegar tekjur ríkissjóðs árið 1954 verða a.m.k. 427 millj. kr., eins og áætlað er á fjárlögum, þó að brtt. okkar á þskj. 135 verði samþykktar, og geti því hæstv. ríkisstj. framfylgt sinni fjárlagaafgreiðslu algerlega óhindrað þrátt fyrir þá breyt., sem af samþykkt till. hlytist.

Herra forseti. Ég ætla svo að fara þess á leit, að nafnakall verði viðhaft, er atkvæði verða greidd um brtt. á þskj. 135. Ég vil, að það sé skráð á þingskjöl, meðan íslenzk tunga er töluð, hverjir af hv. þm. telja sig hafa meiri skyldur að rækja við hæstv. ríkisstj. en kjósendur sína og allan almenning í þessu landi. Ég vil, að þar sé skráð, hverjir það eru, sem telja sig hafa heimild til að óvirða hið háa Alþ. með því að samþ. frv. hæstv. ríkisstj. óbreytt og gera bæði hana og fjölmarga einstaklinga aðra að lögbrotamönnum. Ég vil, að það sé skráð á þskj., hverjir hv. þm. vilja, að Alþingi Íslendinga samþ. lög, sem beinlínis leiða þjóðfélagsborgarana út á braut óráðvendni og freisti þeirra til að gerast þjófar. Til þess að fá þetta skráð í eitt skipti fyrir öll óska ég eftir nafnakalli við atkvgr.