02.03.1954
Efri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég vil aðeins stuttlega gera grein fyrir mínu atkvæði, þótt ég reyndar hafi gert það áður.

Ég er á móti þessu frv. og það byggist á því í fyrsta lagi: Ég tel, að það eigi ekki að binda menn í ákveðinni kirkju, skylda þá inn í ákveðna þjóðkirkju, eins og nú er gert. Trúar-brögðin eiga að vera mönnum algerlega frjáls. Það má segja, að menn geti sagt sig úr þjóðkirkjunni nú til dags. Það má segja það. En það er nú ekki það sama, því að það er ekki kominn söfnuður upp strax, sem er í samræmi við skoðanir manns í þeim efnum, sem eru ákaflega mismunandi. Þess vegna eigum við að skilja að þjóðkirkju og ríkið og hafa það alveg fríkirkju. Þá fyrst getur hver einstaklingur þroskazt eðlilega, en er ekki haldið niðri með því að lögbinda hann í þjóðkirkju með ákveðnar skoðanir. Þetta er það fyrsta, sem gerir það, að ég er á móti því, að ríkið sé að skipta sér af þessum málum, eins og hér er gert í þessu frv.

Annað er það, að ef maður fellst á það, að það eigi að skylda alla menn inn í ríkiskirkju og reyna að spyrða þá alla saman um sömu lífsskoðun hvað trúmál snertir, þá á það náttúrulega að gerast á þann hátt, að það sé ríkinu sem hagkvæmast og ódýrast, og ekki að hafa kirkjurnar eins og þær voru staðsettar fyrir mörgum hundruðum ára, þegar samgöngurnar og samvinnumöguleikarnir hér á landi voru allt aðrir en þeir eru núna. Þá voru óbrúaðar ár, er heftu ferðir manna, nú eru þær brúaðar og vegir orðnir það góðir, að allt annað er að ferðast um landið en var. Því eiga kirkjur nú að vera helmingi færri en áður var. Þar við bætist, að það er ekki messað í helmingnum af þeim nema innan við 20 sinnum á ári, þannig að notin fyrir þær þar að auki eru nú lítil samanborið við áður, þegar þær voru ávallt fullar. Áður en ríkið fer að skipta sér af því og styrkja með lánum menn til að koma upp kirkjunum, þar sem þær nú eru og söfnuðirnir nú hafa haft þær, þá þarf að fara fram ein allsherjarathugun á því, hvað kirkjurnar eiga að vera margar og hvar þær eiga að vera. Þær eiga að vera á allt öðrum stöðum en nú. Þær eiga ekki að standa bæ við bæ eins og þær standa núna á nokkrum stöðum á landinu, þar sem ekki eru nema 5 km og ekki það á milli kirknanna, af því að þá voru staðhættirnir þannig, þegar þær voru settar, að það var hægt að réttlæta þetta, en það er gersamlega ómögulegt núna. Þetta er önnur ástæðan til þess, að ég er alveg á móti því að stofna þennan sjóð.

Þriðja ástæðan er svo sú, að því aðeins þykir manninum vænt um það, sem hann hefur undir höndum og þarf að vinna að og með, að hann sjálfur þurfi eitthvað á sig að leggja. Hann telur aldrei neitt varið í það, sem rétt er upp í hendurnar á honum honum alveg að fyrirhafnarlausu, að honum finnst. Það er því skilyrði fyrir því, að safnaðarlífið sé fjörugt, að mennirnir þurfi eitthvað sjálfir á sig að leggja fyrir söfnuðinn og finni, að þeir eru lifandi, starfandi meðlimir í honum, en ekki að ríkið rétti þeim þetta allt saman og þeir þurfi ekkert annað að gera en sitja þar og hlusta.

Fleira er það, sem veldur því, að ég er á móti frv., en höfuðatriðið er, að ég vil hafa fríkirkju, en ekki þjóðkirkju, svo að hver maður hafi tækifæri til að þroskast eins og honum er eðlilegast.