02.03.1954
Efri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki ræða mikið um þetta mál á þessu stigi. Ég vil aðeins þakka hæstv. fjmrh. og þá ríkisstj. allri í heild fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér áðan. Má reikna með því, þegar þetta mál er komið á þetta stig, að það muni ná fram að ganga, og lýsi ég ánægju og þakklæti okkar flm. fyrir það.

Það hefði verið freistandi, ekki sízt út af ummælum hv. 1. þm. N-M., sem hann viðhafði núna, að minnast aðeins á allar þær áskoranir, sem hafa borizt hv. Alþingi hvaðanæva af landinu um framgang þessa máls, þar sem nú munu vera komin líklega um 130 undirskriftaskjöl og mörg með fjöldamörgum nöfnum, svo að þeir skipta hundruðum eða þúsundum, sem hafa sent viljayfirlýsingu sína til þingsins út af þessu máli. Þetta sýnir, að það eru ekki allir á sama máli um þetta og hv. þm., sem síðast talaði hér.

Hann segir, að ein ástæðan, sem hann hefur til þess að vera á móti þessu máli, sé sú, að svo aðeins þyki mönnum eitthvað varið í þann hlut, sem þeir eru að berjast fyrir að koma fram, að þeir þurfi eitthvað á sig að leggja sjálfir til þess að koma honum fram. Dettur hv. þm. í hug, að hér sé um fullan styrk að ræða, þó að þetta frv. yrði samþykkt og söfnuðir fengju þarna lán, því að ekki er um neinn styrk að ræða, heldur lán — lán til þess að byggja kirkjuhús? Og það er ekki gert ráð fyrir, að þetta lán sé nema 1/4 af endurbyggingarkostnaði kirknanna, 3/4 hvíla á söfnuðinum að öllu leyti. Það er ekki gert ráð fyrir í frv., að lán úr Kirkjubyggingasjóði verði til nýbyggingar kirkna, nema — ja, það er ekki hægt að segja um það nákvæmlega, en líklegast um 2/5 byggingarkostnaðar í bezta lagi, 2/5 hvíla þá eingöngu á söfnuðum landsins. Nú er um engan styrk að ræða til kirkjubygginga, aðeins smávegis lán, sem hefur verið veitt úr Hinum almenna kirkjusjóði, og eitthvað lítils háttar til endurbyggingar kirkna, svo að þessi röksemdafærsla hv. þm., að söfnuðirnir þurfi ekkert á sig að leggja, fellur gersamlega um sjálft sig. Lán úr Kirkjubyggingasjóði verður aðeins stuðningur, ekki annað. Söfnuðirnir verða áreiðanlega mjög mikið á sig að leggja fyrir því, þó að þetta frv. um Kirkjubyggingasjóð verði samþykkt.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri, en ég vil þakka hv. meðnm. mínum í menntmn. og eins öllum þeim hv. þm., sem hafa tekið þessu máli vel.