30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samvn. samgm. hefur rætt þetta mál milli umr. og athugað þær brtt., sem fram hafa komið. Samkomulag varð um það í n. að mæla með samþykkt tveggja brtt., sem fyrir liggja frá hv. þdm., þ. e. í fyrsta lagi brtt. á þskj. 537 frá hv. þm. Rang., um þá breyt. á 2. gr. frv., að þar sem segir í 23. lið d: „Hólsá hjá Ártúni í Landeyjum“, skuli koma: Hólsá í Landeyjum.

Nefndin hefur rætt við vegamálastjóra um þessa breyt., og telur hann, að hún sé sanngjörn, þar sem ekki sé fullráðið, að brúin verði byggð hjá Ártúni. Þess vegna sé eins skynsamlegt, að því sé ekki slegið föstu í l., hvar í Landeyjum hún skuli byggð, en þjóðvegur liggur að ánni, þannig að brúin verður á þjóðvegi, þegar hún verður byggð, og þjóðvegur liggur þar nú þegar að. N. mælir því með, að þessi till., sem er nánast sagt leiðrétting, verði samþykkt.

Þá er brtt. á þskj. 527 frá hv. þm. A-Húnv. (JPálm), fyrri brtt. við 2. gr. frv. um, að fyrir „Sléttá í Svínadal“ komi: Sléttá í Sléttárdal. — Nokkur ágreiningur hafði verið milli flm. og n. við fyrri umr. um þessa brtt. En hann hefur nú flutt hana nokkuð breytta, og n. hefur í samráði við vegamálastjóra fallizt á það, að rétt sé að gera þessa breytingu á, að í staðinn fyrir „Sléttá í Svínadal“ komi: Sléttá í Sléttárdal. — Þetta skiptir nú víst ekki meginmáli, þar sem Sléttárdalur mun vera hluti af Svínadal, eða a. m. k. lítur vegamálastjóri þannig á. En sem sagt, sættir hafa nú tekizt milli n. og vegamálastjóra annars vegar og hv. þm. A-Húnv. hins vegar á þeim grundvelli, að þessi breyting verði gerð. Mælir n. því með, að fyrri till. á þskj. 527 verði samþ.

Hins vegar leggur n. gegn síðari till. við 2. gr. frv., að upp í endurbyggingu brúa á þjóðvegum verði tekin Blanda um Blönduós. Vegamálastjóri upplýsir að vísu, að þessi brú sé nú ein hinna elztu, sem byggðar hafi verið, en telur hana traustbyggða og sterka brú og ekki meiri ástæðu til þess að taka hana upp í brúalög nú undir þessum lið en fjöldamargar aðrar brýr. N. leggur þess vegna gegn því, að þessi brtt. verði samþ.

Þá er hér brtt. frá hv. þm. Snæf. (SÁ), sem mér skilst að hann hafi endurflutt, þ. e. um að taka brýr á tvær ár upp í endurbyggingarkafla frv., Hítará og Haffjarðará. Um hina fyrri er það að segja, að samkv. till. n. var hún tekin upp í frv. við 2. umr., en n. mælti þá gegn því, að Haffjarðará yrði tekin þar upp, og er hún nú sem fyrr andvíg því og mælir því gegn samþykkt þeirrar brtt.

Þá er loks brtt. sú, sem hv. 1. þm. Árn. (JörB) flutti við 2. umr. og nú einnig við 3. umr., um brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi, nýjan lið. Þar sem þessi brú var ekki á þjóðvegi, taldi n. við 2. umr., að hún gæti ekki mælt með því, að hún yrði tekin upp í frv. Nú milli umr. hefur hún svo tekið hana til athugunar að nýju, en ekki náð um hana samkomulagi. Nm. hafa því óbundnar hendur um fylgi eða andstöðu við till., þannig að ég get ekki fyrir hönd n. mælt með henní eða móti. Hv. þm. hafa heyrt þau rök, sem hafa komið fram með og móti því að taka þessa brú upp í brúalög, og tel ég óþarft að endurtaka þau. En eins og ég sagði, náðist ekki samkomulag um afstöðu til hennar í n., og hljóta því hv. þm. jafnt og nm. í samgmn. að hafa óbundnar hendur um afstöðu til hennar.

Að öðru leyti vil ég undirstrika það, að n. væntir þess, að þær brtt., sem hún hefur mælt gegn, verði ekki samþ. og að málið fái sem skjótasta afgreiðslu út úr hv. þingdeild.