30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

164. mál, brúargerðir

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til hv. samgmn., þeirra manna sérstaklega, er hafa mælt með till. minni, að hún yrði samþ. inn á frv. Hv. frsm. gat þess, að n. hefði óbundið atkv. og mælti ekki beinlínis öll með samþykkt hennar, en mér fannst einhvern veginn það liggja í ummælum hans, að þótt svona væri hóflega til orða tekið, þá mundi nú n. öll vera till. fylgjandi, og tel ég það vel farið.

Hv. 5. landsk. (EmJ) drap nú á höfuðatriðin, sem snerta þetta mál og eru þess valdandi, að miklu varðar, að menn fái von í kauptúnunum eystra um það, að þetta mannvirki komi á sínum tíma. Það gefur mönnum vonir um að heyja sína baráttu á þessum stöðum. Þó að það komi ekki strax að því, að áin verði brúuð, þá getur það samt sem áður gert sitt gagn, einmitt til þess að byggðin haldist þarna við og fremur blómgist en hitt. Og það er mikils vert að veita fólkinu þá von.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið nú. Höfuðatriði þess hafa komið hér fram, það sem ég tel að mestu máli skipti, og ég vil vona, að hv. d. fallist á að samþykkja þessar breytingartillögur.