26.11.1953
Efri deild: 24. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég leyfi mér að vísa til framsöguræðu þeirrar, sem ég flutti fyrir fjárlagafrv., varðandi almennar ástæður fyrir því, að þetta frv. er komið fram. En frv. er um að framlengja lögin um innheimtu söluskatts árið 1954.

Ég vil geta þess, að í Nd. voru gerðar á frv. breytingar. Þær breyt. eru í 2. og 3. gr. frv. Þessar breyt., sem gerðar voru í Nd., eru þrjár að efni til. Tvær þeirra eru einvörðungu til þess, að ský rar sé að orði kveðið um tiltekin atriði í löggjöfinni, svo að engum misskilningi geti valdið. En ein breytingin má segja að sé efnisbreyt. að nokkru leyti, en hún er í 2. málsgr. 3. gr. og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú kaupir innlendur iðnaðarmaður eða framleiðandi eða fær afhenta vöru til framleiðslu sinnar frá öðrum innlendum iðnaðarmanni eða framleiðanda, sem búið hefur vöruna til eða unnið að henni, og í viðskiptum þeirra er söluskatti bætt við verð eða verðmæti vörunnar, og skal þá endurgreiða söluskattinn vegna þessara viðskipta eftir nánari reglum, settum af fjmrh. Sama gildir um aðvinnslu á vörum, sem innlendur iðnaðarmaður eða framleiðandi fær annan innlendan iðnaðarmann eða framleiðanda til að gera á framleiðsluvöru sinni.“

Þannig hljóðar þessi breyting, sem sett var inn í Nd.

Sá er aðdragandi þessa máls, að undan því hefur verið kvartað á undanförnum árum, að söluskatturinn gæti lagzt oftar en einu sinni á inniendar iðnaðarvörur, og var talsvert úr þessu atriði gert, að þetta gæti komið ósanngjarnlega niður. Þegar söluskatturinn var til meðferðar á síðasta Alþ., þá lýsti ég því yfir hér í þessari hv. d., að þetta mál mundi verða framkvæmt þannig framvegis, að ef einhver aðili sýndi fram á, að um tvísköttun eða fleirsköttun gæti verið að ræða með 3% skattinum, þá mundi fjmrn. nota þá heimild, sem það hefur í söluskattslögunum, til þess að undanþiggja vöruna, iðnaðarvöruna, á einhverju stigi eða stigum, og með því yrði komið í veg fyrir slíka fleirsköttun eða margsköttun. Við þessar yfirlýsingar hefur verið staðið, en það hefur aðeins komið fram ein ósk um að fá lagfæringu, svo að þetta atriði virðist nú ekki hafa þrengt að mönnum eða verið eins mikilvægt og látið var í veðri vaka um skeið. En til þess nú að taka af allan vafa í þessu efni, þá er hér sett inn í löggjöfina sjálfa það ákvæði, sem ég áðan greindi, að þessi endurgreiðsla skuli fara fram, ef sýnt er fram á, að um margsköttun sé að ræða.

Ég leyfi mér að óska þess, að málinu verði visað til hv. fjhn. að lokinni þessari umr.