30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forsetí. Frv. það sem hér er til umræðu, á þskj. 480, er um það að lögbjóða, að sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í 30 ár, skuli ekki skyldaður til þess að halda áfram iðgjaldagreiðslum, þar sem samkv. 12. gr. l. er talið, að hann hafi náð fullum réttindum, þ. e. að fá í lífeyri 60% af meðallaunum, eins og segir í þeirri grein.

Eins og kemur fram í grg. frv., þá hefur orðið nokkur ágreiningur um þetta meðal sjóðfélaga annars vegar og sjóðsstjórnarinnar hins vegar, enda gerir ekki 10. gr. l. beinlínis ráð fyrir því, að iðgjaldagreiðslur skuli falla niður, og mætti meira að segja skilja svo þá grein, að það væri ætlazt til þess, að iðgjaldagreiðslurnar héldu áfram, þótt þær gefi ekki frekari rétt en 12. gr. segir til um. Þess vegna hefur hv. flm. ætlazt til þess, að gr. yrði breytt og nú yrði skýrt kveðið á um það, að iðgjaldagreiðslurnar skylduniður falla.

Hitt efni frv. er, að ef frestað verði lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga, þá skuli þær hækka um 2% á hverju ári svo lengi sem frestunin stendur yfir.

Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til meðferðar og rætt bæði þessi atriði. Hún hefur. verið alveg sammála um að leggja til, að 2. gr. frv. yrði samþykkt, um það er enginn ágreiningur. Það er til hagsbóta bæði fyrir sjóðfélaga sjálfan og einnig fyrir sjóðinn, að þeirri skipun yrði komið á og sú breyting gerð. Hins vegar hefur n. ekki orðið sammála um, að 1. gr. frv.yrði samþykkt. Meiri hl. n. vill, að hún verði felld niður úr frv., og færir fyrir því þau rök, er ég skal nú greina frá.

Það er sýnilegt, að með þeim breytingum, sem orðið hafa á þessum málum hin síðari ár, þ. e., að menn hafa tekið starf hjá ríkinu miklu yngri í seinni tíð en þeir gerðu fyrr á tímum, þá er hámarkið, samanlagt aldurshámark og starfstímahámark, orðið úrelt, enda sýnir það sig nú, að starfsmaður getur hlotið full réttindi samkv. óbreyttum lögunum, þó að hann hafi ekki náð 60 ára aldri. Hann getur, áður en hann verður jafnvel 58 ára, hafa náð sameiginlegum starfstíma og aldri 95 ár, og meiri hl. n. vill ekki stuðla að því, að það sé haldið áfram á þeirri braut, að menn hafi fullan lífeyri jafnvel áður en þeir verða 60 ára að aldri. N. vill hins vegar ekki gera till. um þetta í sambandi við þetta frv., sem hér fyrir liggur, heldur vill setja beinlínis inn í löggjöfina, að lögin um lífeyrissjóðinn, nr. 101 frá 1943, skuli verða endurskoðuð á þessu ári með tilliti til þess, að þessum ákvæðum verði breytt samkv. hinum breyttu aðstæðum, sem orðið hafa síðan lögin voru samþykkt.

Það var rætt um þetta atriði við formann sjóðsins og við tryggingafræðing, hr. Guðmund Guðmundsson, og a. m. k. er óhætt að fullyrða, að tryggingafræðingurinn var fullkomlega á þeirri skoðun, að það væri rétt, að þessi endurskoðun færi fram, og einnig raunverulega formaður sjóðsins og einmitt með tilliti til þessa atriðis, sem ég þegar hef minnzt á, og að það væri rétt að setja það inn í þetta frv., að slík endurskoðun skyldi fara fram og henni skyldi lokið á þessu ári og að þetta skyldi gert í samráði við sjóðsstjórnina.

Endurskoðun getur vel leitt það í ljós, að nauðsynlegt væri og eðlilegt að hækka aldurstakmarkið, en það gæti aftur leitt til þess, að annaðhvort yrði lífeyrishámarkið hækkað frá því, sem nú er, þ. e. yfir 60%, eða iðgjaldagreiðslurnar yrðu lækkaðar. Meiri hl. n. gerir engan ágreining um það atriði á þessu stigi málsins. Það, sem vakir mest fyrir honum, er það, að því ákvæði verði breytt, sem nú er í lögunum, að menn geti tekið fullan lífeyri á bezta aldursskeiði annars vegar, og hins vegar er það a. m. k. mín Skoðun, að lögin eigi að ákveða það beinlínis, að menn skuli greiða í sjóðinn svo lengi sem þeir taka starf hjá ríkinu. Ríkissjóður greiðir inn í sjóðinn fyrir alla sína starfsmenn, og það væri óeðlilegt frá mínu sjónarmiði, að sá hluti tekna til starfsmanns félli niður, þó að hann hafi náð ákveðnu hámarki, eins og mundi verða, ef 1. gr. frv. yrði samþykkt. Sjóðurinn mundi sjálfsagt fá meiri tekjur, ef þessum ákvæðum yrði haldið, og það hlyti aftur að verða til þess, að sjóðurinn gæti gert annað tveggja að hækka lífeyrinn eða lækka iðgjöldin fyrir viðkomandi aðila.

Ég tel af þeirri reynslu, sem ég hef fengið af þessum málum þann tíma, sem ég var í fjvn., að þá sé rangt að stuðla að því, að sjóðurinn geti t. d. ekki hækkað sinn ellilífeyri,, því að reynsla mín af þessum málum hefur verið sú undanfarið, að svo að segja hver lífeyrisþegi, sem hefur haft til þess einhverjar ástæður, hefur knúið á hjá ríkissjóði til þess að fá uppbót á lífeyrisgreiðslurnar beint úr ríkissjóði á 18. gr., og það álít ég ranga stefnu. Ég álít, að það eigi að búa svo að lífeyrissjóðnum; að hann geti greitt eðlilegan lífeyri til sinna starfsmanna, án þess að þeir þurfi að leita beint til ríkissjóðsins um uppbætur. Og að því miða þá einnig þær till., sem gerðar eru af meiri hl. n. í þessu máli á þskj. 571.

Með tilvísun til þess, sem ég hef hér sagt, leggur meiri hl. til, að 1. gr. frv. verði felld niður. Öll n. leggur til, að á eftir 2. gr. komi tvær nýjar greinar, sem orðist þannig: A-liðurinn, það sem verður 3. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi“, og b-liðurinn, að á eftir þeirri grein komi bráðabirgðaákvæði, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. lætur fara fram endurskoðun á l. nr. 101 30. des. 1943, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, í samráði við stjórn sjóðsins. Verði m. a. athugað, hvort ekki sé rétt með hliðsjón af breyttum aðstæðum að hækka aldurstakmark frá því, sem nú er um rétt til fullrar lífeyrisgreiðslu, svo og annað það, sem af slíkri breytingu kann að leiða, og að endurskoðun skuli lokið á þessu ári. — Hv. 4. þm. Reykv. (HG) hefur fyrirvara um 1. brtt., eins og ég hef þegar skýrt frá, en er að öðru leyti sammála um þær breytingar, sem fram eru settar á þskj. 571.

Ég vil mega vænta þess, að hv. d. fallist á allar þær brtt., sem bornar eru fram á þskj., og að málið verði afgr. þannig breytt hér út úr þessari hv. deild.