31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist þessi ábending hæstv. ráðh. fullkomlega réttmæt og eðlileg. Að vísu man ég ekki neitt dæmi þess, að það hafi komið að sök, að ekki eru lagaákvæði til um þetta efni. Menn hafa flutzt úr þjónustu Reykjavíkurbæjar og í þjónustu ríkisins, og þá hefur lífeyrissjóður starfsmanna tekið við þeim gegn ákveðinni greiðslu frá þeim sjóði, sem hann áður var tryggður í, í þessu tilfelli eftirlaunasjóði Reykjavíkurbæjar. Það eru fleiri sjóðir en eftirlaunasjóður Reykjavíkurbæjar, sem koma til greina í þessu efni. Það eru allir viðurkenndir sérstakir eftirlaunasjóðir, þ. á m. lífeyrissjóðir bankanna og nokkrir fleiri, sem hafa fengið viðurkenningu. Því má vel vera, að það sé eðlilegt að setja bein ákvæði um þetta í lögin sjálf, en hingað til hefur þeirri reglu verið fylgt, að sá maður, sem um er að ræða, eða sá sjóður, sem hann hefur verið tryggður hjá, hefur greitt til lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins upphæð, sem svarar til þess, sem honum hefði borið að borga þangað, ef hann hefði verið í þjónustu í stofnun ríkisins allan sinn starfstíma. Hins vegar eru ákvæði hinna ýmsu sérsjóða um iðgjaldagreiðslur og réttindi dálítið mismunandi, þannig að ekki mundi vera hægt að slá þeirri reglu einnig fastri, að það, sem viðkomandi maður hefði greitt í þann sjóð, skyldi yfirfærast í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem er auðvitað einfaldast. Í ýmsum tilfellum yrði að reikna út mismuninn á því tryggingargjaldi, sem hann hefur greitt í fyrri sjóðinn, og því, sem honum hefði borið að greiða í lífeyrissjóð starfsmanna. Um þetta hefur jafnan samizt til þessa á milli hlutaðeigandi sjóða, en ég er sammála hæstv. ráðh. um, að ef fært þætti, þá væri betra að setja um þetta ákveðin fyrirmæli í l. sjálfum, og það er því meira aðkallandi sem fleira er myndað af sérstökum lífeyrissjóðum, sem fá viðurkenningu.